Skip to main content
Frétt

Áherslur ÖBÍ um göngugötur

By 15. febrúar 2019No Comments

Eftirfarandi eru áherslur ÖBÍ um göngugötur og er afurð málefnahóps ÖBÍ um aðgengi. Við bendum á að fatlað fólk hefur sama rétt og aðrir til þess að komast um.

Fólk með P-merki fái að keyra um göngugötur

Hingað til hefur hefur hreyfihamlað fólk ekki verið með undanþágu frá akstursbanni um göngugötur á Íslandi og því í raun verið meinaður aðgangur að slíkum svæðum. Með hreyfihömlun er átt við göngugetu sem er að jafnaði minni en 400 m á jafnsléttu. Samkvæmt byggingarreglugerð eiga bílastæði hreyfihamlaðra ekki að vera fjær inngangi en um 25 m í hindrunarlausri umferðarleið.

Í drögum að nýjum umferðarlögum er í fyrsta sinn kafli um göngugötur. Þar er gert ráð fyrir undanþágu frá aksturbanni og „…umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabifreiða heimil, “ (1. mgr. 10. gr. frumvarpsins) ÖBÍ hefur lagt áherslu á það í umsögn um lagafrumvarpið að undanþágan gildi jafnframt fyrir handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða.

Eins og í öðrum löndum

Það er enda í samræmi við lög og reglur í okkar nágrannalöndum.

Í Svíþjóð gildir það að heimild er fyrir umferð „…veiks eða hreyfihamlaðs fólks til og frá byggingu við göngugötuna,“ (s. „transporter av sjuka eller rörelsehindrade personer till eller från adress vid gågatan.“)

Þá hófst sumarið 2017 vinna við að loka stóru svæði í miðborg Oslóar fyrir bílaumferð. Almenn bílastæði voru fjarlægð en umferð hreyfihamlaðra var ekki skert. Bílastæði hreyfihamlaðra fengu að halda sér, þó að einstaka stæði hafi verið fært til.Fatlað fólk vill og þarf að fara um göngugötur.

Fatlað fólk vill fara um göngugötur

Fatlað fólk vill geta farið um göngugötur líkt og aðrir og sótt þangað verslun og þjónustu, stundað vinnu við þær, átt þar heima eða sótt fólk heim.

Við göngugötur er eðlilegt að ekki séu almenn bílastæði, en þó þurfa bílastæði fyrir hreyfihamlaða að vera til staðar með jöfnu millibili. Miðað er við að inngangur sé aldrei fjær bílastæði hreyfihamlaðra en 25 m, sbr. byggingarreglugerð.

Ekki nægir að vísa til bílastæða í þvergötum eða nálægum bílastæðahúsum sé vegalengd lengri en 25 metrar eða ef ekki er um jafnsléttu að fara. Margt hreyfihamlað fólk getur illa eða ekki farið um brekkur, auk þess sem bílastæði hreyfihamlaðra verða að vera hallalaus, sbr. byggingarreglugerð.

Fatlað fólk hefur sama rétt og aðrir

Bann við mismunun fatlaðs fólks er staðfest í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, en í 1. mgr., 9. gr. segir að aðildarrríki samningsins skulu:

„…gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til: bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“

Göngugötur sem ekki heimila akstur hreyfihamlaðs fólks eru aðgengishindrun.

Takmarkanir

Ekki sé ekið hraðar en á gönguhraða, 10 km/klst. og fullt tillit tekið til gangandi vegfarenda.

Götum verði ekki lokað með slám eða öðrum hindrunum. Lagt er til að umferð verði vöktuð með háskerpumyndavélum sem taki ljósmyndir af allri bílaumferð. Sé P-merki ekki sýnilegt eða hafi bifreiðar ekki aðra heimild til að keyra um svæðið fái eigendur senda sekt.