Skip to main content
Frétt

Áhuga- og sinnuleysi um mannréttindi fatlaðs fólks

By 1. mars 2018No Comments

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum þurfti fatlaður maður, Ólafur H. Einarsson, að sæta því að vera vistaður ásamt fleiri fötluðum einstaklingum að Bitru Hraungerðishreppi þar sem jafnframt var af sömu aðilum rekið fangelsi fyrir konur. Þetta var gert með samþykki stjórnvalda sem báru ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk og bar samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum að standa vörð um réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks. Ólafur hefur óskað eftir því að fá viðtal við dómsmálaráðherra, sem jafnframt er ráðherra mannréttindamála, til að gera grein fyrir reynslu sinni af stöðum þar sem fatlað fólk hefur verið vistað, meðal annars í kvennafangelsinu að Bitru í Hraungerðishreppi. Engin viðbrögð hafa komið frá ráðherra við þeirri beiðni Ólafs.

 Mál Ólafs er alls ekki einsdæmi. Fjölmörg dæmi eru um að fatlaðir einstaklingar hafi verið órétti beittir í vistun af hálfu opinberra aðila. Þessi mál þarf að upplýsa og gangast við og læra af. Það er mjög brýnt að upplýst verði og viðurkennt hvernig farið var með fatlað fólk og að þeir sem órétti voru beittir fái afsökunarbeiðni stjórnvalda og bætur. Þannig og aðeins þannig er líklegt að stjórnvöld læri af mistökum sínum og endurtaki þau síður í nútíð og framtíð.

 Þegar liggja fyrir skýrslur vistheimilanefndar, til að mynda varðandi fötluð börn sem voru vistuð á Kópavogshæli og sættu þar illri meðferð og slæmum aðbúnaði. Það tók allt of langan tíma að hefja rannsókn á því og upplýsa og greiða þeim sem þar dvöldust og enn lifa sanngirnisbætur.

Vegna þess náði sú tilraun til að bæta fyrir þann órétt ekki til mjög margra sem voru vistaðir þar sem börn en voru fallnir frá þegar þetta uppgjör loksins kom. Og fatlað fólk sem var vistað á öðrum stofnunum sem börn og fatlað fólk sem var vistað fullorðið á stofnunum og hafði enga aðra kosti þarf enn að bíða efir að fá eitthvert réttlæti vegna þess óréttar sem það var beitt. Úr því þarf að bæta tafarlaust og dómsmálaráðherra og Alþingi og önnur ábyrg stjórnvöld þurfa að gera það sem gera þarf í því eins og lagt er til í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshælið.

Að sama skapi þarf að skoða vandlega og bæta eftirlit með stöðum þar sem fatlað fólk dvelst í dag, mjög oft vegna þess að því bjóðast ekki aðrir búsetukostir þó að það hafi lagalegan rétt til þeirra.

Áhugaleysi og sinnuleysi varðandi mannréttindi fatlaðs fólks verður að linna. Dómsmálaráðuneytið og önnur stjórnvöld sem bera höfuðábyrgð á því verða nú að sýna vilja sinn til þess í verki.

 

Bréf Ólafs til dómsmálaráðherra, sent 8. febrúar.