Skip to main content
Frétt

Dómstólarnir ekki lengur síðasta vígi öryrkja

By 14. ágúst 2020No Comments

Það skapaðist áhugaverð umræða við Rauða borðið á Samstöðinni í gærkvöldi.

Í þáttinn til Gunnars Smára mættu lögmennirnir Ragnar Aðalsteinsson, Gísli Tryggvason og Berglind Svavarsdóttir, sem er nú formaður Lögmannafélagsins, ásamt Bjarka Magnússyni frá Afstöðu.

Umræðan hófst á refsidómum, en fór svo að snúast um skipan dómara og pólítíska afstöðu dómara. Gísli vakti athygli á grein sem hann reit í Úlfljót árið 1994, þar sem hann hafði tekið saman skipan dómara og þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hafði komið að skipan flestra dómara frá fullveldi landsins. Þá ræddu þátttakendur þá staðreynd að þeir sem minna hefðu milli handanna ættu minni möguleika fyrir dómstólum með álitamál sín en þeir efnameiri. Ragnar Aðalsteinsson tók svo djúpt í árina að segja dómstólana ekki lengur vera síðasta vígi borgarans á landinu og tók sem dæmi viðhorfsbreytingu sem sjá má úr dómum Hæstaréttar eftir Öryrkjadóminn svokallaða.

„Það varð allt vitlaust í stjórnmálum út af dóminum í Öryrkjabandalagsmálinu og forsætisráðherra hafði upp stór orð og mikil og hótanir, og hvort að það hafði síðan áhrif á dómarana í framtíðinni, hvort þeir óttuðust ríkisvaldið, það er að segja framkvæmdavaldið, eða hvort það hreinlega voru ideologiskar ástæður fyrir því að þeir hurfu frá fordæminu, það skiptir í sjálfu sér ekki máli, aðalatriðið er að hópur eins og öryrkjar, eldri borgarar, þeir eiga þess ekki kost að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Dómstólarnir eru ekki síðasta vígi borgarans hér á landi eins og þeim er ætlað að vera og við gerum kröfu til að þeir séu, þeir bregðast að sjálfsögðu ekki alltaf, en þeir bregðast of oft og þá í svona grundvallaratriðum eins og jafnrétti samfélagsþegnanna, þar bregðast þeir alltof oft.“

 

Þáttinn í heild sinni má sjá hér:

https://www.facebook.com/samstodin/videos/648933902646180/