Skip to main content
Frétt

Ekkert svar í löngu svari

By 16. október 2019No Comments
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 14. október síðastliðinn út í kjör örorkulífeyrisþega.

Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins 5. október, var samþykkt ályktun þar sem bent var á það misræmi sem sífellt eykst, á kjörum örorkulífeyrisþega og lægstu launa.

Guðmundur Ingi spurði forsætisráðherra um málið í óundirbúnum fyrirspurnum.

„Virðulegur forseti. Í umræðum um stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra í september 2017, sagði núverandi forsætisráðherra að ekki eigi að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu“

Guðmundur flutti svo ályktun aðalfundar svo að segja orðrétta og bætti við:

„Og ég spyr hæstvirtan forsætisráðherra, hvernig í ósköpunum reiknið þið þetta út? Hvernig farið þið að því að reikna út að þessi hópur sé þannig staddur að hann geti og eigi að lifa af 70 til 86 þúsund króna minna á mánuði heldur en lægstu laun í landinu?“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra byrjaði á að þakka þingmanninum fyrir að vekja máls á kjörum örorkulífeyrisþega. Hún sagði þingmanninn spyrja hvað ríkisstjórnin sé búin að gera?

 „Já við skulum fara yfir það fyrir háttvirtan þingmann. Við skulum byrja á að fara yfir þær skattkerfisbreytingar sem verða hér innleiddar um áramótin, sem gagnast tekjulágum langbest og skila mestri skattalækkun, meðal annars til örorkulífeyrisþega og annara tekjulágra hópa.“

 

Þær skattkerfisbreytingar sem Katrín talar hér um, fela það í sér að tekjuskattsprósenta örorkulífeyrisþega lækkar úr 36,94% í 35,04% um leið og persónuafsláttur lækkar úr 56.447 krónum í 55.364 krónur á mánuði. Fyrir örorkulífeyrisþega á strípuðum lífeyri, þ.e. eingöngu framfærsluviðmið, án heimilisuppbótar, þýðir það að mánaðarlegar skattgreiðslur þessa einstaklings lækka um 582 krónur. Ef örorkulífeyrisþegi fær heimilisuppbót, lækka þessar sömu skattgreiðslur um heilar 1.011 krónur.

 „Ræðum um greiðsluþátttöku öryrkja og aldraðra í heilbrigðiskerfinu, hvað hefur gerst síðan þessi ríkisstjórn tók við? Jú, það hafa verið stigin markviss skref á hverju ári til að draga úr greiðsluþátttöku, kostnaði þessa fólks við að sækja sér læknisþjónustu, meðal annars á heilsugæsluna núna síðast.“
 

Og forsætisráðherra hélt áfram.

„Horfum síðan til þeirra fjögurra milljarða á ársgrunni sem er verið að setja inn í þetta kerfi til þess að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega, sem hefur verið þeirra stóra baráttumál. Hver er að bregðast við því? Hver er að bregðast við þeirri kröfu eftir margra ára, eftir margra ára baráttu gegn þeim skerðingum, það er þessi ríkisstjórn sem er að draga loksins úr þeim skerðingum. Þannig að þegar háttvirtur þingmaður kemur hér upp, og ég er ekki einu sinni byrjuð að ræða hvað er verið að gera til þess að styrkja hér félagslega húsnæðiskerfið, skiptir það máli fyrir tekjulágt fólk almennt? Já! Skiptir það máli fyrir örorkulífeyrisþega? Svo sannarlega. Við eigum ekki að stilla tekjulágum hópum hverjum upp á móti öðrum. Það eigum við ekki að gera. Við eigum að horfa til þess hvernig við getum aukið jöfnuð í samfélaginu, allar þessar aðgerðir sem ég nefndi hér munu skipta máli fyrir tekjulágt fólk og gera líf þess betra.“

 

Í löngu máli tókst forsætisráðherra þó að skauta fram hjá því að svara einfaldri spurningu þingmannsins, sem ítrekaði hana í andsvari sínu.

Forsætisráðherra kom þó inná að það væri næsta forgangsverkefni að gera kerfisbreytingu á örorkulífeyri, og vísaði þar til skýrslu starfshóps félagsmálaráðherra um nýtt kerfi starfsendurhæfingar og mats á starfsgetu. Kerfi sem hefur sýnt sig þar sem það hefur verið tekið upp, að leiði eingöngu til tilflutnings fólks milli kerfa. Vissulega virðist það fækka örorkulífeyrisþegum, en fjölgar á móti fólki á atvinnuleysisskrá, og ekki síst þeim sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, því þeir hafa fallið út úr öðrum kerfum.

Eftir stendur ályktun Öryrkjabandalagsins frá því í byrjun október, að enn eitt árið breikkar gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna og enga breytingu er að sjá að sumum okkar er haldið í sárafátækt lífið á enda. Þrátt fyrir fögur fyrirheit í september 2017, virðist forsætisráðherra, sem nú er í þeirri aðstöðu að hafa raunverulega áhrif, hafa tekið upp þann sið fyrri ríkisstjórna að ætlast til þess að fátækt fólk bíði aðeins lengur eftir réttlætinu.

Hér fyrir neðan má hlýða á orðaskipta þeirra tveggja.