Skip to main content
Frétt

Er nauðung sveigjanlegt úrræði?

By 22. nóvember 2021No Comments
Í skýrslu sem Gæða of eftirlitsstofnun hefur sent frá sér um athugun á áhrifum Covid-19 á þjónustu við fatlað fólk, kemur fram það álit réttindagæslumanns að málum tengdum nauðung og þvingun hafi fjölgað hjá réttindagæslunni eftir því sem faraldurinn hefur dregist á langinn, og réttindagæslan veltir upp hvort nauðung sé orðið sveigjanlegt úrræði.

Réttindagæslumaður segist hafa áhyggjur af því að málum þess eðlis hjá réttindagæslunni hafi fjölgað frá fyrri árum, og jafnframt að skerðing á þjónustu við einstaklinga hafi í einhverjum tilvikum verið orðin það mikil að hún hafi valdið fjölgun óæskilegra atvika, sem sum hver hafi leitt til nauðungar.

Þrátt fyrir þessar áhyggjur réttindagæslumanns, hafi ekki orðið fjölgun á tilkynningum um beitingu nauðungar, né á óskum um ráðgjöf, til sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar. Að mati sérfræðiteymisins þýðir það ekki endilega að ekki hafi orðið aukning í beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. Veltu þeir fyrir sér hvort þolmörkin gagnvart beitingu nauðungar hafi almennt hækkað í samfélaginu samhliða takmörkunum almannavarna, sem hafi haft í för með sér færri tilkynningar en búast mætti við.

Í þessu samhengi bentu þeir á að einstaklingum í búsetuþjónustu hafi verið settar þrengri skorður en öðrum. Það sama hafi átt við um starfsfólkið, en mælst var til þess að það færi til að mynda ekki í búðir og væri sem minnst innan um annað fólk. Þá bentu fulltrúar hagsmunasamtaka á að ungt fatlað fólk sem býr á hjúkrunarheimilum hafi búið við nauðung vegna heimsóknabanns, sem hafi meðal annars leitt af sér að það hafi ekki fengið að fara til fjölskyldu sinnar um jólin.

Fram kom sú vangavelta hvort nú væri búið að gefa ákveðið fordæmi um að nauðung sé sveigjanlegt úrræði þegar það hentar. Stundum er nauðsynlegt að beita nauðung en mikilvægt er að slíkt sé gert eftir leiðsögn og með heimildum.

Á þessum óvenjulegu tímum virðist hins vegar hafa viðgengist að sniðganga rétt vinnubrögð og að tilkynningar um beitingu nauðungar hafi ekki fengið forgang eða nægilega athygli. Var lagt til að farið yrði í átak að faraldri loknum til að tryggja að farið sé eftir réttindagæslulögum varðandi ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk.

Skýrslan kemur inn á margt fleira og má nálgast í heild sinni hér.