Skip to main content
Frétt

Fækkar í hópi örorkulífeyrisþega

By 3. janúar 2019No Comments

Örorkulífeyrisþegum fækkaði hlutfallslega í fyrra miðað við árið á undan. Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag þar sem stuðst er við tölur og skýringar frá Tryggingastofnun ríkisins.

Bent er á það í fréttaskýringu blaðsins að svonefnt „nýgengi örorku“ segi ekki alla sögu, eins og fjallað hefur verið um hér á vef ÖBÍ. Þannig er haft eftir Margréti Jónsdóttur hjá TR, að hlutfall Íslendinga á örorku fari lækkandi. Árið 2017 hafi Íslendingar á aldrinum 18-66 ára með 75% örorkumat verið 8,2 prósent af mannfjöldanum. Í fyrra hafi þetta hlutfall verið 8,1 prósent. Það þýðir að örorkulífeyrisþegum fækkar hlutfallslega hér á landi.

Margrét bendir á að úrskurðir um örorku vegna geðraskana hafi aukist undanfarin ár, en slíkt var sjaldséð fyrir ekkert svo löngu síðan.

„Nýgengi örorku“ merkir sá fjöldi fólks sem úrskurðaður er með 75% örorku. Í þeirri tölu er ekki tekið tillit til þess að fólk öðlast bata eða einhverja starfsgetu að nýju, eftir veikindi eða slys, eða þeirrar staðreyndar að fólk deyr og dánartíðni fólks með alvarlega fötlun og sjúkdóma er hærri en almennt gengur og gerist. Þá lítur kerfið öðruvísi á fólk eftir að það nær 67 ára aldri. Þannig segir „nýgengi“ fátt um fjölda örorkulífeyrisþega hverju sinni. 

Þegar litið er til „nýgengis örorku“ þá fjölgaði fólki með 75% örorkumat hjá TR um 118 einstaklinga í fyrra miðað við árið 2017. Eins og áður var bent á, segir það fátt um fjölda öryrkja í reynd.

Fram kom í umföllun ÖBÍ seint á síðasta ári (2018) að örorkulífeyrisþegum hefði þá fjölgað  í heild um innan við 90. Þetta er töluvert langt frá fullyrðingum stjórnmálamanna í þessum efnum. Þeir hafa oft haft uppi stór orð um „nýgengi örorku“ og út frá því látið reikna út að innan fárra áratuga yrðu öryrkjar fleiri en allir Íslendingar samanlagt. Það stenst vitaskuld ekki skoðun.