Skip to main content
Frétt

Fallið frá kröfu um starfsreynslu talmeinafræðinga

By 20. janúar 2022No Comments
Sjúkratryggingar Íslands hafa fallið frá kröfu um 2ja ára starfsreynslu talmeinafræðinga og framlengt samning við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga um 6 mánuði. Þessi tími skal nýttur til að starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði, vinni nú að endurskoðun á skipulagi þjónustu talmeinafræðinga. 

Talmeinafræðingar hafa kallað eftir afnámi þessarar kröfu um langa hríð, en hún hafði í för með sér að foreldrar þurftu að greiða fullt gjald fyrir þjónustu ný útskrifaðs talmeinafræðings, þar sem SÍ meinuðu honum aðgang að samningi stofnunarinnar, ef ekki væri fyrir hendi tveggja ára starfsreynsla í starfi hjá ríki eða sveitarfélögum.

Nú hefur heilbrigðisráðherra greinilega hoggið á hnútinn, en í fréttum RÚV, 18. janúar, er haft eftir Brynhildi Þöll Steinarsdóttur, talmeinafræðingi, að samningaviðræður talmeinafræðinga og SÍ gangi hægt og illa. „SÍ er í raun með mjög óraunhæfar kröfur til talmeinafræðinga þannig að það hefur ekkert gerst í þeim málum.“

Í þessari frétt RÚV kemur fram að um 900 börn bíði eftir þjónustu talmeinafræðinga.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins er haft eftir Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra:

„Þetta er mikilvægt skref. Ég bind miklar vonir við að vel takist til með nýjan samning að sex mánuðum liðnum sem færir þessa mikilvægu þjónustu í gott horf fyrir þá sem á henni þurfa að halda en það eru að langstærstum hluta börn“ 

Starfshópnum sem ráðherra hefur nú skipað, er ætlað að skila heildstæðum tillögum um þjónustu talmeinafræðinga við börn. Reiknað er með að nýir samningar taki við að sex mánuðum liðnum og byggist á niðurstöðu þeirrar vinnu.

Áður hefur verið sagt frá vinnu þessa starfshóps, og að gert væri ráð fyrir að vinnu hans myndi ljúka 20. desember 2021, en ljóst er á þessum tíðindum að vinna hans mun dragast.