Skip to main content
Frétt

Fjöldi fólks hlunnfarinn

By 22. mars 2018No Comments

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur unnið hörðum höndum að því að sækja rétt fólks sem hefur verið hlunnfarið um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. 

Bandalagið vakti athygli á því á dögunum að borgin hefur dregið lappirnar í málinu en með dómi Hæstaréttar þykir sýnt að fjöldi manna sem átti rétt á sérstökum húsaleigubótum fékk þær ekki. Borgarstjóra var ritað bréf vegna málsins um miðjan janúar, en fátt er um svör.

Fjallað var um málið í Fréttablaðinu nýlega en þar er rifjað upp að Reykjavíkurborg neitaði að greiða sérstakar húsaleigubætur til öryrkja sem bjuggu í íbúðum á vegum Brynju, hússjóðs ÖBÍ. Brynja er sjálfseignarstofnun á vegum ÖBÍ sem á nú ríflega 800 íbúðir. ÖBÍ lagði borgina með dómi sem kveðinn var upp í júní árið 2016. 

Framkvæmd Reykjavíkurborgar að greiða þeim ekki sérstakar húsaleigubætur var ólögleg. Frá þeim tíma hefur hins vegar gengið illa að fá réttlætinu fullnægt. „Það er margt sem okkur þykir miður hvað þetta varðar,“ segir Aðalsteinn Sigurðsson, lögmaður ÖBÍ í viðtali við Fréttablaðið. „Fyrir það fyrsta greiðir Reykjavíkurborg ekki dráttarvexti nema fjögur ár aftur í tímann og ber fyrir sig fyrningu.“

Reykjavíkurborg hefur unnið þannig að þeim sem ætluðu að sækja um sérstakar húsaleigubætur hjá borginni var snúið við í dyrunum og sagt að það hefði ekkert upp á sig að sækja um því erindinu yrði neitað hvort eð er.

„Aðilinn sem stefndi málinu upphaflega þurfti að fara þrisvar sinnum til að sækja um sérstakar húsaleigubætur,“ segir Aðalsteinn við Fréttablaðið. „Í þriðja skiptið fékk hún lögmann með sér og þá fékk hún að sækja um.“ Því er nokkuð stór hópur sem telur sig hlunnfarinn af ólögmætri framkvæmd Reykjavíkurborgar. 

Öryrkjabandalagið hefur reynt að krefjast úrbóta fyrir hópinn en árangurinn er takmarkaður enn sem komið er. Fréttablaðið fékk þær upplýsingar frá Reykjavíkurborg að borgarstjóri hafi vísað málinu til skoðunar á Velferðarsviði og hjá borgarlögmanni.