Fundargerð 10. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 30. ágúst 2018

Fundargerð 10. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 30. ágúst 2018

kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

 

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:06.

 

2.   Fundargerð frá 7. júní 2018.

Athugasemd var gerð við fundargerðina og var hún samþykkt með þeirri breytingu.

 

3.   Hugmyndir laganefndar að breytingum á lögum ÖBÍ.

Hugmyndir laganefndar, sem lagðar verða fyrir aðalfund ÖBÍ, voru kynntar. Hluti af þeim hugmyndum voru lagðar fyrir aðalfund ÖBÍ 2017, sem samþykkti að beina þeim til laganefndar ÖBÍ til frekari skoðunar og úrvinnslu.

 

4.   Álitsgerð Málflutningsstofu Reykjavíkur um krónu á móti krónu skerðinguna.

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður, var beðinn um að skoða þær forsendur sem lágu fyrir þegar ákveðið var að taka út krónu á móti krónu skerðingu fyrir eldri borgara 1. janúar 2017, en ekki fyrir öryrkja. Hópunum er mismunað og er álitsgerðin lögð fram til að fá umræðu um málið. Samþykkt var að vinna málið áfram á skrifstofu ÖBÍ með aðstoð Daníels, með hugsanlegt dómsmál í huga.

 

5.   Skýrsla formanns.

Skýrslan var send til fulltrúa fyrir fundinn. Auk þess sem þar kemur fram var haft samband við Bjarkarhlíð varðandi vinnu í tengslum við hvernig taka eigi á kynferðislegri áreitni ef sú staða kemur upp innan aðildarfélaga bandalagsins.  Gefin hafa verið út kort fyrir fólk sem þarf skyndilega að fara á salerni þar sem ekki eru almenningssalerni. Fulltrúar voru sammála um að í lagi væri að loka skrifstofu ÖBÍ í 2 vikur fyrir verslunarmannahelgi ef áfram verður svarað í síma af fyrirtækjaþjónustu.

 

6.   Umsókn um aðild að ÖBÍ. Framhald.

a)   Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Frímann vék af fundi á meðan umræða var um aðildarumsókn félagsins.

Öll gögn sem stjórn óskaði eftir hafa borist og uppfyllir félagið þau skilyrði sem lög ÖBÍ kveða á um. Samþykkt var að leggja umsóknina fyrir aðalfund.

 

b)   Samtök um endómetríósu.

Öll gögn sem stjórn óskaði eftir hafa borist og uppfyllir félagið þau skilyrði sem lög ÖBÍ kveða á um. Samþykkt var að leggja umsóknina fyrir aðalfund.

 

7.   Tillaga undirbúningsnefndar Hvatningarverðlaun ÖBÍ um skipan 5 manna dómnefndar sem staðfest skal af stjórn samkvæmt reglum þar um.

Tillaga undirbúningsnefndar að fimm manna dómnefnd og þriggja varamanna var samþykkt.

Dómnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ skipa:

Aðalmenn     Bergþór Pálsson

                    Birna Einarsdóttir

                    Gissur Pétursson

                    Jarþrúður Þórhallsdóttir

                    Wincie Jóhannsdóttir

Varamenn     Karl Friðriksson

                    Líney Rut Halldórsdóttir

                    Þórir Þorvarðarson

 

8.   Aðalfundur ÖBÍ.

a) Dagskrá aðalfundar.

Drög að dagskrá aðalfundar var lögð fyrir stjórnarfundinn og verður hún lagfærð miðað við athugasemdir sem fram komu og lögð fram á næsta stjórnarfundi.

 

b) Drög að tillögu að þóknun fyrir stjórnarsetu fyrir aðalfund ÖBÍ.

Lagt var til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári. Samþykkt:

 

9.   Næsti fundur.

Næsti stjórnarfundur er áætlaður þriðjudaginn 11. september.

Formannafundur er áætlaður fimmtudaginn 13. september.

 

10. Önnur mál.

a) Fundir framkvæmdaráðs og formanna málefnahópa.

Fundur framkvæmdaráðs og fundur með formönnum og starfsfólki málefnahópa sem halda átti föstudaginn 31. ágúst fellur niður. Gott væri að málefnahóparnir komi með tillögu að ályktun fyrir aðalfund ÖBÍ.

 

b) Samráðshópur um breytt framfærslukerfi.

Lítið hefur þokast í umræðu um starfsgetumat. Á næsta fundi samráðshópsins fimmtudaginn 6. september kemur formaður faghóps um starfsgetumat og kynnir stöðu þeirrar vinnu sem farið hefur fram innan faghópsins.

Nefnt var að fínt væri að álykta um að ekki eru tiltæk störf á vinnumarkaði fyrir fatlað fólk, þannig að erfitt getur reynst að taka upp starfsgetumat til að fjölga þátttöku fatlaðs fólks á vinnumarkaði.

 

c) Heimasíða ÖBÍ.

Uppfæra þarf heimasíðu bandalagsins, meðal annars upplýsingar um fulltrúa málefnahópanna. Stjórn ákvað síðastliðið haust að taka út upplýsingar um það frá hvaða aðildarfélagi fulltrúarnir koma. Það eru hins vegar upplýsingar sem oft hefur komið sér vel að vita og því var lögð fram sú tillaga að setja aftur inn upplýsingar um aðildarfélag viðkomandi fulltrúa. Samþykkt.

 

c) Undirskriftarsöfnun.

Undirskriftarsöfnun um betri kaup og kjör fyrir aldraða og öryrkja er hafin. Málefnahópur ÖBÍ um kjaramál hvetur til þess að upplýsingum um undirskriftarsöfnunina verði dreift inn í miðla ÖBÍ og þær sendar til aðildarfélaga bandalagsins.

                        

Fundi var slitið kl. 18:35.

 

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.