Fundargerð 5. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 15. febrúar 2018

Fundargerð 5. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 15. febrúar 2018

kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:04.

2.   Fundargerð frá 18. janúar 2018.

Fundargerðin var samþykkt

3.   Skýrsla formanns.

Skýrsla formanns var send út fyrir fundinn. Einnig var sagt frá heimsókn bandaríska sendiráðsins og Leah Katz-Hernandez, sem er fyrsta heyrnarlausa manneskjan til að vinna í Hvíta húsinu, í forsetatíð Obama.

Formaður ásamt Emil Thóroddsen, formanni málefnahóps um heilbrigðismál og Stefáni Vilbergssyni, starfsmanni málefnahópsins fóru á fund með Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Stefna ÖBÍ er að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.

Þrír stjórnmálaflokkar eiga eftir að koma í heimsókn. Flokkur fólksins, Vinstri grænir og Samfylking.

4.   Tillaga framkvæmdaráðs um skipan í málefnahóp ÖBÍ um málefni barna.

Formaður fór yfir tillögu framkvæmdaráðs sem var samþykkt.

Málefnahópinn skipa eftirtaldir aðilar:

Auðbjörg Sigurðardóttir – Tourette-samtökunum

Fríða Bragadóttir – Samtökum sykursjúkra

Halldóra Inga Ingileifsdóttir – Ás styrktarfélagi

Ólöf Birna Björnsdóttir – Geðhjálp

Sara Dögg Svanhildardóttir – Einhverfusamtökunum

Sunna Brá Stefánsdóttir – Gigtarfélagi Íslands

Ragnar Vignir – ADHD samtökunum, varamaður

Ýr Þórðardóttir – ADHD samtökunum, varamaður

5.   Tillaga framkvæmdaráðs varðandi skipun í stjórnir, nefndir og ráð skv. núgildandi verklagsreglum.

Tillaga framkvæmdaráðs varðandi aðferðir við skipun í stjórnir, nefndir og ráð var samþykkt.

Lagt var til að Eva Þórdís Ebenezersdóttir fari í stjórn Námssjóðs Sigríðar Jónsdóttur tímabundið til eins árs, í stað Maggýjar Hrannar Hermannsdóttur sem óskaði eftir því að hætta áður en skipunartími hennar var útrunninn.

6.   Kynning á Stefnuþingi 20. og 21. apríl.

Formaður sagði frá því að Hrönn Pétursdóttir hefði verið fengin til að sjá um stefnuþingið. Dagskrá verður unnin með formönnum málefnahópa bandalagsins.

Skrifstofa útbjó fundarboð og eyðublað í tengslum við fjölda fulltrúa aðildarfélaga. Samþykkt að senda þetta tvennt út til aðildarfélaganna.

7.   Formannafundur í mars.

Formannafundur verður haldinn 22. mars þar sem formenn aðildarfélaga ÖBÍ mæta. Stjórn er einnig frjálst að mæta á fundinn.

Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:

1. Formaður setur fund og fer yfir liðna mánuði og hvað er framundan hjá ÖBÍ.

2. Kynferðislegt áreiti og ofbeldi.

3. Fundarhöld í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

4. Kynning á stuðningsneti sjúklingafélaga.

5. Önnur mál.

8.   Önnur mál.

a) SRFF og valfrjáls bókun.

SRFF var fullgiltur 2017 og átti að fullgilda valfrjálsa bókun sem honum fylgir í ársbyrjun 2018 en það hefur verið sett á bið. Málinu verður komið á framfæri á Alþingi.

b) Siðareglur ÖBÍ.

Svavar er byrjaður á því að skrá tillögur að siðareglum ÖBÍ. Henrý Alexander hjá Siðfræðistofnun HÍ ætlar að aðstoða hann við að forma ferlið. Svavar mun leggja ferlið fram til nánari útlistunar á næsta stjórnarfundi.

c) Tilnefning í starfshóp um tannheilsu lífeyrisþega.

ÖBÍ í samstarfi við Félag eldri borgara og Tannlæknafélagið þrýsti á að fá fulltrúa í starfshóp um tannheilsu lífeyrisþega og barst bréf frá velferðarráðu-neytinu í janúar þar sem óskað var eftir tilnefningu ÖBÍ í starfshópinn. Málefnahópur um heilbrigðismál var fenginn til að finna fulltrúa. ÖBÍ tilnefndi Vilhjálm Hjálmarsson og Stefaníu G. Kristinsdóttur.

d) Skerðingarspilið.

Spurt var hvort fylgja ætti skerðingarspilinu eftir. Spilinu verður fylgt eftir og hafa margar hugmyndir verið uppi um það en ekkert ákveðið.

e) Unga konan á Spáni.

Spurt var hvort að ÖBÍ gæti aðstoðað íslensku konuna sem hryggbrotnaði á Spáni og fær ekki nógu góða læknisþjónustu þar. Hún er komin með legusár, sem geta reynst henni hættuleg. Umsókn um að flytja hana á annan spítala hefur legið óhreyfð í 10 daga. ÖBÍ og Þroskahjálp sendu utanríkisráðherra bréf þar sem farið var fram á að eitthvað yrði gert. Ákveðið var að formaður, varaformaður og gjaldkeri færu á fund utanríkisráðherra til að fá nánari upplýsingar um það hvernig málið stendur og lýsa áhyggjum af því að mannréttindi séu brotin.

Formaður sleit fundi klukkan 17:59.

Fundarritari.

Þórný Björk Jakobsdóttir.