Fundargerð 9. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 7. júní 2018

Fundargerð 9. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 7. júní 2018

kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:01. Fríða Rún Þórðardóttir bauð sig fram sem fundarritara í fjarveru Þórnýjar. Samþykkt.

2.   Fundargerð frá 17. maí 2018.

Athugasemdir voru gerðar við fundargerð og var hún samþykkt með þeim breytingum.

3.   Skýrsla formanns.

Skýrslan var send til fulltrúa fyrir fundinn. Umræður voru um stöðuna í samráðshóp um endurskoðun almannatrygginga. Nokkrar nefndir og hópar hafa verið skipaðir um málið í gegnum árin. Fram kom að mikilvægt sé að vera vakandi yfir því sem er að gerast innan almannatryggingakerfisins, því kjör öryrkja eru lægri en annarra hópa. Ólga meðal öryrkja er mikil og verður þetta stærsta mál ÖBÍ næstu mánuði.

Umræðu var frestað þegar Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður, kom og farið var beint í lið 7 á dagskrá.

 

7.   Um kröfur Landspítala vegna CPAP öndunarvéla

Daníel fór yfir málið. Landspítalinn rukkar notendur CPAP öndunarvéla um mánaðarlegt gjald vegna reksturs og viðhalds þeirra. Notendur annarra öndunarvéla fá þjónustuna endurgjaldslaust. Meðalkostnaður við vélarnar er um 60.000 kr. á ári og greiðir fólk um helminginn af kostnaðinum fyrir þjónustuna. Gjaldtakan er að öllum líkindum ólögleg. Lagt var til að allar stjórnsýsluleiðir verði tæmdar áður en farið verði í dómsmál. Samþykkt.

Þórný tók við fundarritun.

 

3.   Skýrsla formanns.

Liðnum var framhaldið.

Staða kjaramála hefur verið hrikaleg síðastliðin ár eða frá því eftir hrun. Lyfta þarf upp grunninum þannig að fólk fái bætur sem hægt er að lifa á. Samráðshópurinn á að skila af sér 1. nóvember. Í ágúst ættu að vera komnar tölur frá ráðuneytinu sem að gott væri að ræða innan stjórnar. Lagt var til að aukafundur verði haldinn í stjórn í byrjun ágúst þar sem eingöngu verða ræddar tillögur frá samráðshópi um breytt framfærslukerfi ef þær liggja fyrir.

Samþykkt var að skilaboð frá ÖBÍ inn á fund samráðshópsins væru þau að forsenda fyrir breytingum á almannatryggingakerfinu verði sú að enginn verði verr settur en hann var árið 2008.

 

4.   Ársreikningur ÖBÍ 2017. Til afgreiðslu.

Tillit var tekið til ábendinga sem bárust og var ársreikningurinn sendur með breytingum til stjórnar. Félagskjörnir skoðunarmenn bandalagsins hafa undirritað reikninginn. Endurskoðunarbréf barst frá endurskoðanda Pwc í tölvupósti fyrir fundinn og fór framkvæmdastjóri yfir efnisþætti bréfsins, sem staðfesti að við endurskoðun hafi ekkert komið í ljós sem gaf tilefni til athugasemda.

Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða og undirritaður af stjórn.

 

5.   Umsókn um aðild að ÖBÍ.

a)   Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir.

Frímann yfirgaf fundinn á meðan umræður um Vífil stóðu yfir.

Félagið uppfyllir skilyrði um aðild að ÖBÍ og hefur skilað inn öllum tilskildum gögnum en nokkrar undirskriftir vantar á ársreikninga. Samþykkt var að fresta ákvörðun fram til næsta stjórnarfundar þegar búið er að fá reikningana undirritaða af meirihluta stjórnar og áritun skoðunarmanns.

b)   Samtök um endómetríósu.

Félagið uppfyllir skilyrði um aðild að ÖBÍ og hefur skilað inn öllum tilskildum gögnum en nokkrar undirskriftir vantar á ársreikninga. Samþykkt var að fresta ákvörðun fram til næsta stjórnarfundar þegar búið er að fá reikningana undirritaða af meirihluta stjórnar og áritun skoðunarmanns.

 

6.   Hvatningarverðlaun ÖBÍ. Framhald.

Framhald frá síðasta fundi. Undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ lagði til að verðlaunaflokki fyrir aðildarfélög innan ÖBÍ yrði bætt við. Framkvæmdin verður sú að starfsmaður nefndarinnar sendir allar tilnefningar sem tilheyra þessum flokki beint á dómnefndina, án viðkomu hjá undirbúningsnefnd. Dómnefnd er skipuð fólki sem er án tengsla við félögin.

 

Samþykkt að bæta við verðlaunaflokki fyrir aðildarfélög innan ÖBÍ.

 

7.   Um kröfur Landspítala vegna CPAP öndunarvéla.

Var tekið fyrir í miðri umræðu um skýrslu formanns.

 

8.   Skipan í nefndir og ráð sem skipa þarf í á árinu. Framhald.

Ráðgjafaráð fjölskylduráðs Hafnarfjarðar um málefni fatlaðs fólks.

Tveir aðalmenn og tveir varamenn til 2ja ára.

Aðalfulltrúar:   Jóna Imsland, Einhverfusamtökunum

                      Þórarinn Þórhallsson, Blindrafélaginu

Varafulltrúar:   Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg lsh.

                      Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Blindrafélaginu

Samþykkt.

 

9.   Bréf frá stjórn Stuðningsnets sjúklingafélaganna dags. 18. maí 2018.

Forsvarsmenn Stuðningsnets sjúklingafélaga héldu kynningu á formannafundi ÖBÍ í mars 2018. Bréf barst frá þeim þar sem beðið er um að fá 2ja tíma kynningarfund um stuðningsnetið í byrjun septembermánaðar. Ekki er hægt að skilja fyrirspurnina á annan hátt en að þau vilji að ÖBÍ standi fyrir fundinum og beri kostnað af honum.

Niðurstaða umræðna var sú að ÖBÍ geti auglýst fundinn á heimasíðu bandalagsins en komi ekki að honum með öðrum hætti. Félögin sem standa að stuðningsnetinu fá styrk frá ÖBÍ og geta nýtt hann í verkefnið.

 

10. Næsti fundur.

Næsti stjórnarfundur er á dagskrá fimmtudaginn 23. ágúst. Á sama tíma verður HNR fundur á Grænlandi, ráðstefna NVC og fundur norræna ráðsins um málefni fatlaðs fólks. Samþykkt að færa stjórnarfund ÖBÍ til fimmtudagsins 30. ágúst.

 

11. Önnur mál.

a) Húsnæðismál SÍBS.

Formaður SÍBS bað um að stjórn ÖBÍ yrði upplýst um að SÍBS leitar að hentugu skrifstofuhúsnæði, með ósk um að haft verði samband við sig ef fólk veit um húsnæði sem hentar.

 

b) Hjálpartækjasýning í Karlsruhe 16.-18. maí 2019.

Árleg hjálpartækjasýning er haldin í Karlsruhe í Þýskalandi. Lögð var fram sú hugmynd að málefnahópur um heilbrigðismál færi í hópferð á sýninguna. Ekki er ljóst hver myndi greiða fyrir slíka ferð en hægt er að sækja um styrki til slíkra ferða hjá stéttarfélögum. Nefnt var að hægt væri að auglýsa sýninguna á heimasíðu ÖBÍ, svo að aðildarfélögin vissu af henni.

 

c) Fundur málefnahóps um kjaramál.

Á fund málefnahóps um kjaramál sem haldinn var 6. júní komu formenn Eflingar og VR. Ákveðið var að vinna saman að kjaramálum og skiptast á upplýsingum.  Stefnt er að því að halda fundi einu sinni í mánuði, þar sem tekin eru fyrir ákveðin málefni, t.d. húsnæðismál, starfsgetumat eða skattamál.

 

d) Formannafundi frestað.

Formannafundi, sem áætlaður var í júní, verður frestað fram á haustið þar sem ekki tókst að undirbúa meginumfjöllunarefni fundarins, það er kynferðislegt ofbeldi og áreiti, forvarnir og úrræði.

 

Fundi var slitið kl. 18:36.

 

Fundarritarar,

Fríða Rún Þórðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.