Skip to main content
Frétt

Hinsegin dagar í Reykjavík

By 5. ágúst 2022No Comments

Nú standa sem hæst Hinsegin dagar í Reykjavík, sem ná hápunkti með Gleðigöngunni laugardaginn 6. ágúst. Öryrkjabandalagið sendir hinsegin samfélaginu hamingjuóskir og baráttukveðjur. Hinsegin fólk er allskonar, hluti af fjölbreytileika samfélagsins, en heldur hefur sigið á ógæfuhliðina að undanförnu. Því er ástæða nú til að spyrna við fótum og fagna fjölbreytileikanum.

 

Eins og áður segir er hinsegin fólk allskonar og er um allt í samfélagi okkar. Í grein á vef Hinsegin daga er fjallað um hinsegin fatlað fólk. Þar kemur fram að fatlað fólk hafi ekki verið sýnilegt í hinsegin samfélaginu, að um falin hóp sé að ræða. Hinsegin fatlað fólk eigi erfiðara með að koma út úr skápnum vegna skorts á stuðningi og fordóma sem birtast meðal annars í því að sumir telja einkennilegt að fatlað fólk geti verið hinsegin og að það geti ekki átt rómantísk sambönd, eða lifað kynlífi. Þeir fordómar liggja djúpt því miður, og beinast svo sem ekki eingöngu að fötluðu hinsegin fólki. Umfjöllunina í heild má nálgast hér.

 

Þess vegna er mikilvægt að Gleðigangan geti nú loks farið fram, eftir tveggja ára hlé vegna Covid. Sýnileiki er öllum jaðarhópum mikilvægur, án sýnileika, fræðslu og upplýsingar, grassera fordómar.

 

Tökum þátt í Gleðigöngunni sem hefst kl 14, 6. ágúst frá Hallgrímskirkju og fögnum fjölbreytileikanum. Öryrkjabandalagið ítrekar hamingjuóskir og stuðning við hinsegin samfélagið. Við erum nefnilega öll allskonar.