Skip to main content
Frétt

Hjólar 400 kílómetra á innan við sólarhring

By 23. júní 2021No Comments
Arnar Helgi Lárusson, formaður Sem samtakanna, lagði af stað seinni part þriðjudagsins 22. júní í söfnunarverkefnið 400 kílómetrar á innan við sólarhring á handhjóli. Markmiðið er að safna fyrir 4 rafmagns fjallahjólum fyrir hreyfihamlaða.

Arnar lagði af stað rétt austan við Kirkjubæjarklaustur, og ætlar að hjóla í einum legg að Selfossi, samtals 400 kílómetrar. Þegar þessi orð eru rituð er hann staddur við Vík í Mýrdal, en ferðin sækist seinna en áætlað var. Mikill kuldi var yfir nóttina, og þurfti Arnar að gera hlé til að fara í heita sturtu og vinna bug á yfirvofandi ofkælingu. Sú seinkun gerir honum það erfitt að ljúka ferðinni á innan við sólarhring, en engu að síður ætlar hann að klára.

Stjórn Öryrkjabandalagsins samþykkti að styðja verkefnið með framlagi sem nemur kostnaði við eitt hjól, og skorar á alla, bæði einstaklinga sem fyrirtæki, að taka þátt í verkefninu, sama hversu háa upphæð viðkomandi getur lagt til. Hér er hægt að styrkja verkefnið.

Hægt er að fylgjast með framgangi Arnars hér, og á Facebook síðu SEM.