Hvað þýðir fjárlagafrumvarpið fyrir mig?

Fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs fyrir helgina. Þar ber kannski hæst fyrirhugaðar skattalækkanir.

En hvað þýðir þetta fyrir örorkulífeyrisþega?

Framfærsluviðmið flestra örorkulífeyrisþega er í dag 247.183 krónur. Miðað við forsendur frumvarpsins eiga þessar bætur að hækka um 3,5% þann 1. janúar n.k.

Auk þess lækka skattar.

Skattar næsta árs í lægsta þrepi verða 35,04% og persónuafsláttur lækkar lítillega, verður 55.364.

Þetta þýðir að framfærsluviðmið hækkar í kr. 255.834 og með skattabreytingum verður eftir í vasa örorkulífeyrisþega 221.554 krónur.

Ef viðkomandi er með heimilisuppbót, verður heildartalan eftir hækkun 321.678, sem eftir skatta skilar 264.326 króna greiðslu.

Hækkun um 3,5% og skattalækkun skilar sér því í rúmlega fjögurra prósenta hækkun á greiðslum frá TR, fari svo að þetta taki ekki breytingum í meðförum Alþingis.