Skip to main content
Frétt

Kvennahreyfing ÖBÍ

By 8. ágúst 2019No Comments

Frumkvöðull að stofnun Kvennahreyfingar ÖBÍ er Guðríður Ólafs Ólafíudóttir. Hún skynjaði í starfi sínu hjá ÖBÍ að staða fatlaðra og langveikra kvenna var að mörgu leiti ekki sú sama og fatlaðra og langveikra karla. Guðríður hafði samband við Kvenfélagasamband Íslands og fór ásamt konum frá þeim í fyrirlestrarferð um landið þar sem Guðríður talaði um stöðu fatlaðra kvenna. Í kjölfarið fór hópur fatlaðra og langveikra kvenna að hittast reglulega hjá ÖBÍ. Konurnar höfðu reynslu af því að fötlun þeirra eða veikindi væru ekki tekin alvarlega. Einnig höfðu þær upplifað litla atvinnumöguleika, þrátt fyrir menntun og hæfni á ýmsum sviðum. Niðurstöður erlendra rannsókna sýndu að fatlaðar og langveikar konur berðust við meiri fordóma og í ólíkum en bæði aðrar konur og fatlaðir karlar. Einnig höfðu greiningarviðmið og meðferðir við fjölmörgum sjúkdómum lengst af tekið mið af körlum. Sjúkdómseinkenni kvenna og karla eru þó ekki ávallt þau sömu. Sömuleiðis höfðu lyfjaþróun og -rannsóknir verið unnar út frá körlum.  

Í ljósi alls þessa var Kvennahreyfing ÖBÍ stofnuð þann 8. mars 2005, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Starf kvennahreyfingarinnar grundvallast á samkennd, þeirri sameiginlegu reynslu sem fatlaðar og langveikar konur deila.

 

Markmið

Kvennahreyfing ÖBÍ er umræðu- og baráttuvettvangur fatlaðra og langveikra kvenna með það markmið að skapa samfélag þar sem jafnrétti ríkir á öllum sviðum, samfélag þar sem fatlaðar og langveikar konur hafa tækifæri til þess að þroskast og nýta hæfileika sína.

 

Hlutverk, markmið og tilgangur Kvennahreyfingar Öryrkjabandalags Íslands er:

  • að nýta styrkleika og reynsluheim fatlaðra og langveikra kvenna til stuðnings öllum konum og til að eyða fordómum,
  • að stuðla að auknum atvinnutækifærum fatlaðra og langveikra kvenna og vera aflvaki nýrra leiða sem geta orðið fötluðum og langveikum konum til hagsbóta,
  • að vera vettvangur fyrir fatlaðar og langveikar konur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og skapa aðstæður til tjáningar og til skoðanaskipta meðal fatlaðra og langveikra kvenna,
  • að stuðla að víðtækri og sýnilegri samstöðu meðal fatlaðra og langveikra kvenna og bæta fjárhag þeirra, menntun og lífsgæði,
  • að efla samvinnu meðal fatlaðra og langveikra kvenna,
  • að fylgjast með rannsóknum, íslenskum sem erlendum, og vera tengiliður milli rannsakenda og ÖBÍ.

 

Starfið

Hreyfingin hefur haldið fjölda opinna funda með fyrirlestrum um margvísleg efni. Meðal þess má nefna áhrif húmors á heilsu, um sjálfstraust og samskipti, fatlaðar konur og barneignir, fötlun og líkamsímynd, áhrif efnahagskreppunnar, breytingaskeiðið, sálræn áhrif margþættrar mismununar á fatlaðar konur, auk reynslusagna fatlaðra kvenna af aðstæðum sínum og þeim viðhorfum sem þær mæta í samfélaginu.                                                                                               

Kvennahreyfingin hefur staðið fyrir sjálfstyrkingarnámskeiði fyrir fatlaðar konur og námskeiði í hugrænni atferlismeðferð auk þess sem konur á vegum hreyfingarinnar sóttu námskeið um ofbeldi og fatlaðar konur í Svíþjóð.

Kvennahreyfingin hefur tekið þátt í alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og skrifað blaðagein um ofbeldi gegn fötluðum konum auk þess sem stýrihópskonur fóru í viðtöl um efnið í sjónvarpi og útvarpi. Kvennahreyfingarkonur tóku þátt í göngu 25. október 2010 í tilefni 35 ára afmælis kvennafrídagsins.

Hreyfingin tók þátt í Kynjaþingi 2018 sem haldið var á vegum Kvenréttindafélags Íslands og hefur frá upphafi tekið þátt í árlegum viðburði 8. mars sem er alþjóðlgur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Kvennahreyfingin hefur einnig verið á menningarlegum nótum, farið í bíó og leikhús og fengið leiðsögn um Hörpuna.

Kvennahreyfing ÖBÍ hefur átt gott samstarf við Tabú, femíniska fötlunarhreyfingu. Hreyfingin hefur styrkt tvö námskeið á vegum Tabú og hreyfingarnar tóku sameiginlega þátt í Druslugöngunni sumarið 2014 en það var í fyrsta sinn sem fatlaðar konur tóku þátt í göngunni sem hópur. Hreyfingarnar sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna umræðu í fjölmiðlum um móttöku flóttafólks, þar sem því var mótmælt að ákveðnir stjórnmálamenn notuðu mannréttindabrot af hálfu hins opinbera gaganvart fötluðu fólki hérlendis sem afsökun fyrir því að taka ekki á móti flóttafólki. Fatlaðar konur úr kvennahreyfingu ÖBÍ og Tabú fóru jafnframt í kröfugöngu til að vekja athygli á niðurstöðum rannsókna sem sýna háa tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum og brotalamir innan réttarkerfisins þegar kemur að því að taka á þeim vanda. Innanríkisráðherra, velferðarráðherra og Alþingi voru færð kröfuskjöl.

Kvennahreyfing ÖBÍ átti fulltrúa í bakhópi rannsóknar á ofbeldi gagnvart fötluðum konum á vegum Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Var hún unnin í samvinnu við rannsóknarstofnanir og háskóla erlendis og styrkt af Daphne III áætlun Evrópusambandsins. Fatlaðar konur eru í mun meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi en aðrar konur. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ofbeldi gegn fötluðum konum er algengt og nátengt félagslegri stöðu og valdaleysi þeirra í eigin lífi. Ofbeldið er margs konar, andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og fjárhagslegt, og er oft þaggað niður.

Hreyfingin sendi undir lok síðasta árs frá sér yfirlýsingu vegna Klausturmálsins þar sem harmaðir voru þeir svívirðilegu fordómar í garð fatlaðs fólks sem höfðu afhjúpast meðal margra alþingismanna. Jafnframt var því mótmælt að á Alþingi sitji fólk sem haldið er botnlausri kvenfyrirlitningu og taki ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf okkar.

Fulltrúi kvennahreyfingarinnar er í bakhópi nýstofnaðrar kvennanefndar European Disability Forum.

Málþing kvennahreyfingarinnar

Í apríl síðastliðnum stóð hreyfingin fyrir málþingi. Aðalfyrirlesari málþingsins var dr. Lucy-Ann Buckley sem er dósent í lögfræði við National University of Ireland, Galway. Erindi hennar fjallaði um ástæðu þess að konur eru nefndar sérstaklega í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar sem staða fatlaðra og langveikra kvenna í samfélaginu er ekki sú sama og fatlaðra og langveikra karla, þurfa stjórnvöld ekki aðeins að spyrja sig hvaða áhrif tiltekin stefnumörkun eða lagasetning hafi á fatlað fólk almennt, heldur einnig hvaða áhrif hún hafi á fatlaðar konur. Buckley benti á að konur upplifi samtvinnun mismununar vegna ólíkra þátta, s.s. kyns, fötlunar, aldurs, kyngervis og litarháttar.

Freyja Haraldsóttir, doktorsnemi og aðjúnkt við Háskóla Íslands, fjallaði um útilokun fatlaðra kvenna frá umræðu og viðbrögðum í tengslum við kynbundið ofbeldi. Einnig ræddi hún hvernig hefðbundnar skilgreiningar á ofbeldi ná oft ekki utan um reynslu fatlaðra kvenna sem litist af ableísku kynjakerfi sem haldi þeim niðri. Ableismi er hugtak yfir mismunun og fordóma gagnvart fötluðu fólki sem eru inngrónir í samfélagið og felast m.a. í því viðhorfi að fatlað fólk sé ekki eðlilegur hluti af samfélaginu. Freyja ræddi einnig um andóf og mótspyrnu fatlaðra kvenna, hér á landi og í alþjóðlegu samhengi, valdið í þögninni og baráttu þeirra fyrir friðsamara samfélagi. Að lokum fjallaði hún um ástæður þess að frásagnir fatlaðra kvenna af ofbeldi heyrðust ekki í fjölmiðlum í tengslum við #MeToo-byltinguna. Benti hún á að sögur kvennanna gætu verið auðþekkjanlegar vegna smæðar samfélagsins, auk þess sem rannsóknir sýni að gerendur séu í mörgum tilfellum einstaklingar sem fatlaða konan er háð um nauðsynlega aðstoð í daglegu lífi, s.s. aðstandendur, þjónustuveitendur eða fagfólk.

Margrét Lilja Arnheiðardóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir, frá nýstofnuðu aðgengisátaki ÖBÍ, sögðu frá úttekt sinni á aðgengi fyrir fatlaðar konur á leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands og kvennadeild Landspítalans. Úttektin leiddi í ljós að margt má bæta á báðum stöðum þótt sumt sé í lagi. Sem dæmi má nefna að erfitt getur verið fyrir hreyfihamlaðar konur að komast upp á skoðunarbekki og bæta þarf salernis- og sturtuaðstöðu. Það var jákvætt að úttektin leiddi í ljós að konur í hjólastól geta farið í brjóstamyndatöku á leitarstöðinni því hægt er að lækka tækið. Þessi aðgengisúttekt var gerð að beiðni kvennahreyfingarinnar.

Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi, fjallaði um árekstra í samskiptum kvensjúklinga og lækna. Reglulega birtast okkur, bæði á samfélagsmiðlum og í greinum, viðtölum og ævisögum frásagnir kvenna af neikvæðri upplifun af læknisheimsóknum en höfundar þeirra eiga það sameiginlegt að hafa upplifað misrétti vegna kyns síns. Veikindi karla eru tekin alvarlegar en veikindi kvenna og sjúkdómseinkenni karla eru könnuð nánar en sjúkdómseinkenni kvenna. Guðrún lýsti því hvernig komið væri á mismunandi hátt fram við konur og karla í heilbrigðiskerfinu, ræddi um hugsanlegar ástæður þess og afleiðingar og hvernig bókmenntafræði gæti mögulega gagnast til að betrumbæta samskiptin í framtíðinni.
Loks sagði Herianty Novita Seiler frá reyslu sinni sem öryrki á íslenskum vinnumarkaði. Hún benti meðal annars á að það vantaði sveigjanleika og framboð af hlutastörfum á vinnumarkaðnum.

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í samfélaginu á þeim 14 árum síðan Kvennahreyfing ÖBÍ var stofnuð, hallar enn á konur á ýmsum sviðum. Það á ekki síður við um fatlaðar og langveikar konur eins og sjá má af framansögðu. Enn eru því næg verkefni fyrir hreyfinguna.

Kvennahreyfing ÖBÍ er með hóp á Facebook.

Netfang hreyfingarinnar er kvennahreyfing@obi.is

 

Þorbera Fjölnisdóttir, starfsmaður Kvennahreyfingar ÖBÍ