Skip to main content
Frétt

Lúxus eða lífsnauðsyn? – Grein í Morgunblaðinu

By 3. maí 2017No Comments

„Dreyptu á lýsi eins og drottningin sem þú ert.“

„Ekki hugsa þig tvisvar um. Þú lifir bara einu sinni, dekraðu við þig. Splæstu í þessi sýklalyf, þú átt það skilið.“

Lesið með flauelsmjúkri röddu hljóma þessar auglýsingar eins og tilboð um munaðarvöru, óhóf jafnvel. En þegar textinn er skoðaður nánar má sjá að þarna er rætt annars vegar um lýsi, hversdagslega en heilsusamlega olíu, og hins vegar sýklalyf sem við notum þegar heilsuvá steðjar að.

Það er mikilvægt að átta sig á því að fjöldi Íslending þarf að velja milli hversdagslegra og jafnvel lífsnauðsynlegra vara á hverjum degi vegna þess að það fé sem þeir hafa á milli handanna dugir ekki til að festa kaup á öllu sem þörf er á. Valið getur staðið á milli þessa að kaupa astmalyf eða sýklalyf. Á milli þess að gefa barninu sínu lýsi eða bjóða því í sund. Mögulega þurfa sumar konur að spara við sig dömubindin því fjölskyldan bauð upp á ferskt grænmeti með matnum. Þá geta foreldrar ekki boðið börnum sínum að stunda íþróttir eða læra á hljóðfæri vegna kostnaðar.

Á Íslandi búa þúsundir manna, kvenna og barna við verulegan skort á efnislegum gæðum. Þessi hópur á erfitt með að kaupa allt það sem aðrir myndu telja nauðsynjar. Vörur sem margir hugsa sig ekki tvisvar um að kaupa. Þá setja óvænt útgjöld, hver svo sem þau kunna að vera, geigvænlegt strik í reikninginn. Fullorðið fólk veigrar sér við því að setjast í stólinn hjá tannlækni til að fara í reglubundna tannskoðun, sem ætlað er að fyrirbyggja skemmdir, af ótta við himinháan reikning. Ef bíll er til afnota á heimilinu getur ein lítil bilun sett fjárhagsstöðu heimilisins á annan endann, svo ekki sé minnst á stórar sem smáar dældir sem eru látnar vera vegna kostnaðar. Ef farin er sú leið að mæta þessum óvæntu útgjöldum er hætt við að fólkið festist í fátæktargildru.

Hvernig má vera að þetta sé staðan árið 2017, í þessu vel stæða samfélagi sem við lifum í?

Í þingsályktunartillögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 er lagt til að hækkun bóta almannatrygginga verði á bilinu 3,1-4,8%. Óskertur örorkulífeyrir árið 2022 verður því 288 þúsund krónur ef hækkunin verður 4,8% á ári næstu fimm árin. Lágmarkslaun verða 300 þúsund á næsta ári.

Raunar segir Benedikt Jóhannesson, núverandi fjármálaráðherra, í skýrslu sem hann vann fyrir ÖBÍ árið 2013 að rannsóknir á tölum frá Tryggingastofnun sýni það að kjör öryrkja hafi versnað meira en annarra frá hruni til þess tíma er skýrslan kom út.

Útreikningar benda til þess að talsvert halli á bótaþega þegar litið er á þróun bótafjárhæða miðað við þróun vísitalna og lágmarkslauna á tímabilinu sem miðað er við,“ segir Benedikt í niðurstöðukafla skýrslunnar.

Samkvæmt fjármálaáætlun hefur sú stjórn sem nú situr ekki í hyggju að bæta kjör þessa hóps, sem standi verst.

Í fyrra var óskertur örorku- og endurhæfingarlífeyrir 227.883 krónur fyrir skatt. Hækkun í byrjun næsta árs myndi þýða að hann yrði á bilinu 234 til 238 þúsund krónur á mánuði sem þýðir rétt rúmar 200 þúsund krónur eftir skatt. Það má ljóst vera að enginn lifir af þeim tekjum, allra síst fólk sem þarf að greiða stóran hluta sinna ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað, heilbrigðiskostnað, hjálpartæki og ýmsa aðra þjónustu.

Í hópi örorkulífeyrisþega sem hafa það hvað verst eru margir foreldrar sem þurfa að neita sér eða börnum sínum um vörur sem gætu talist til lífsnauðsynja en í þeirra augum virka sem lúxus. Ekkert grænmeti á diskinn og snjallsímar – sem teljast nær staðalbúnaður í samfélaginu hér heima og erlendis – er engan veginn sjálfgefið að eignast hvað þá nota.

Krafa ÖBÍ er einföld. Kallað er eftir réttlátri skiptingu þannig að allir Íslendingar geti tekið þátt í samfélaginu þannig að þeir geti hver og einn borið höfuðið hátt og sinnt sér og sínum með sóma. Fátækt útilokar fólk frá samfélaginu og lífsnauðsynlegar vörur verða þá sem lúxus.

Við hvetjum alla til að vera með okkur á 1. maí og krefjast sanngirni og réttlætis í velmegunarsamfélaginu okkar allra.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. maí 2017.