Skip to main content
Frétt

Nýr starfsmaður á skrifstofu ÖBÍ

By 24. júní 2021No Comments
Í framhaldi af samkomulagi um stórátak um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk, sem undirritað var af formanni Öryrkjabandalagsins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og barnamálaráðherra fyrir hönd ríkisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hefur ÖBÍ ráðið Guðjón Sigurðsson, formann MND samtakanna, til að leiða starfið.

Í sumar eru starfandi 6 aðgengisfulltrúar í sveitarfélögum víðs vegar um landið sem hafa það hlutverk að fylgjast með að framkvæmdir og áætlanir taki tillit til þarfa fatlaðs fólks. Aðgengisfulltrúarnir, sem starfa á Akranesi, í Borgarbyggð, Grindavík Reykjanesbæ og Reykjavík (Grafarvogur og Kjalarnes, og Vesturbær, Miðborg og Hlíðar) hafa fengið kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og helstu reglugerðarákvæðum, auk þess að fræðast um þarfir hreyfihamlaðs og heyrnarskerts fólks, sjónskertra og blindra. Í lok sumars munu þeir leggja fram skýrslu með tillögum að starfslýsingu aðgengisfulltrúa í sveitarfélögunum til framtíðar. Verkefnið fellur undir aðgerð A.3 í framkvæmdaráætlun fatlaðs fólks undir stjórn ÖBÍ í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Tengiliður aðgengisfulltrúanna verður eins og áður segir, Guðjón Sigurðsson, sem mun vinna með sveitarfélögum að mótun verkefna í samstarfi við aðgengisfulltrúa og aðra sem sinna aðgengismálum einstakra sveitarfélaga, sem gætu verið vel til þess fallin að falla undir styrkveitingu Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs. Heimildir til úthlutana úr sjóðnum til úrbóta á aðgengi fatlaðs fólks voru nýverið stórauknar.

Hér er að finna frétt um átakið.

Guðjón er landkunnur baráttumaður fyrir bættu aðgengi hreyfihamlaðra og er formaður MND samtakanna. Við bjóðum hann velkominn til starfa hjá ÖBÍ.