Skip to main content
Frétt

Ókleift upp að skólanum

By 16. apríl 2018No Comments

„Ótrúlega flottar þessar tröppur sem er verið að setja upp hliðina húsinu okkar. Þessar tröppur liggja einmitt að göngustígnum að skólanum sem Halldóra María mun væntanlega fara í.“ 

Þetta segir Árni Björn Kristjánsson á facebook síðu sinni þar sem hann birtir myndina sem fylgir þessari frétt, af Halldóru Maríu og konu sinni Guðrúnu Ósk. 

Fram kemur á þræðinum á facebook þar sem Árni birtir myndina að hægt sé að fara hring framhjá tröppunum, en þá þurfi að fara eftir akbraut, þar sem ekki hafi verið gengið frá göngustíg. 

Þau búa í Urriðaholti í Garðabæ, sem er hverfi í örri byggingu. Fram kemur á þræðinum við myndina hjá Árna að hann hafi ekki gert formlega athugasemd hjá bænum. Myndin tali sínu máli. 

Á það er bent að aðgengi fyrir fatlað fólk þurfi að hugsa frá grunni en ekki plástra það eftir á. Undir það tekur ÖBÍ. Þetta er enn eitt dæmið um mikilvægi þess að innleiða að fullu Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Það verður að hugsa um aðgengið frá grunni. Þá hefur ÖBÍ ekki legið á liði sínu við að kynna þessi mál fyrir sveitarfélögunum – til dæmis með útgáfu bæklings í fyrra – með skýrum og ótvíræðum hætti.