Skip to main content
Frétt

„Reynum að ná þessu í gegn“

By 12. mars 2018No Comments

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, lýsti í dag á málþingi Öryrkjabandalags Íslands, stuðningi við það markmið ÖBÍ að hér verði innleitt nýtt merki fyrir bílastæði hreyfihamlaðra. Nýja merkið má sjá á mynd hér með fréttinni.

Málþingið Stóra bílastaæðamálið er haldið á Grand hóteli í Reykjavík. Þar eru meðal annars afhent aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar, en um það sér borgarstjóri. Hann sagði við það tilefni: „Gamla merkið er eitthvað svo passívt,“ og vísaði til þess merkis sem flestir þekkja og notað er til að auðkenna bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk. 

Nýja merkið hefði á sér annan brag. Sýndi manneskju í virkni, hún tæki þátt og færi sjálf sinna ferða. Borgarstjóri sagðist styðja það markmið Öryrkjabandalags Íslands og aðildarfélaga, að merkið yrði innleitt í borginni. „Ég styð það og reynum að ná þessu fljótt í gegn. Það þarf örugglega samþykki á viðeigandi stöðum, en annað eins hefur verið gert af minna tilefni,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Nýja aðgengismerkið hefur þegar verið innleitt í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, svo sem New York og Connecticut, auk borga í Evrópu, Kanada og víðar. Verði merkið innleitt hérlendis, verður Ísland fyrsta þjóðríkið til að taka það upp.