Skip to main content
Frétt

Stendur fjármálaráðherra í vegi fyrir leiðréttingu?

By 11. febrúar 2019No Comments

„Ríkið braut lög til að skerða enn frekar þær óheyrilega lágu upphæðir sem það greiðir þeim sem búa við örorku,“ sagði Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis í ræðustóli þingsins á dögunum og bætti við: „Fjármálaráðherra heldur utan um ríkisbudduna og hann hreinlega ætlar ekki að opna hana fyrir öryrkjum.“

Hún rifjaði þar um búsetuskerðingarnar og hvernig viðurkennt hefur verið að stór hópur öryrkja hafi verið hlunnfarinn af Tryggingastofnun ríkisins árum, jafnvel áratugum saman. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu öryrkjabandalagsins, hefur TR ekki enn byrjað að greiða í samræmi við álit Umboðsmanns Alþingis, sem skilaði áliti sínu um málið fyrir meira en hálfu ári.  

„Það er mikilvægt að halda því á lofti að nú, þann 5. febrúar 2019, er enn verið að svíkja öryrkja um þá peninga sem þeir eiga rétt á. Þetta er þá þriðji mánuðurinn sem vísvitandi er verið að svindla á öryrkjum — þriðji mánuðurinn. Og hver eru rökin? Það hefur komið fram að um svo flókna útreikninga sé að ræða að þetta taki tíma. En ég hef fengið það staðfest að verið sé að bíða eftir fjárheimild, þrátt fyrir það sem hæstvirtur fjármálaráðherra hefur sagt hér. Og þar held ég að við séum að nálgast sannleikann. Það er ekki fjárheimild fyrir því að greiða lífeyrisþegum samkvæmt lögum. Ef þetta er hin raunverulega ástæða þýðir það að hæstvirtur fjármálaráðherra stendur í vegi fyrir því að afhenda peningana sem þarf til að greiða þetta samkvæmt lögum. Hæstvirtur fjármálaráðherra heldur utan um ríkisbudduna og hann hreinlega ætlar ekki að opna hana fyrir öryrkjum.

Forseti. Þetta er algerlega ólíðandi framkoma við þennan fátækasta hóp samfélagsins. Ég fer fram á að örorkulífeyrisbætur, örorkulífeyrir, verði greiddar samkvæmt lögum — og það strax,“ sagði Halldóra Mogensen.

Segir fjármálaráðherra satt?

Ummæli Halldóru eru áhugaverð. Eins og hún nefndi í ræðustól Alþingis, er ekki langt síðan Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fullyrti í ræðustól Alþingis að ekki stæði á peningum til að byrja að greiða út örorkulífeyri í samræmi við lög.

„Fjármögnun þess [skiptir] í sjálfu sér engu máli, vegna þess að þar er bara um lögbundin réttindi að ræða sem við verðum að uppfylla. Það er þá bara loforð sem stendur. Það er þá bara krafa sem fólk á á ríkið og það reiknast af ríkissjóði, hvort sem menn hafa fjármagnað það sérstaklega eða ekki. Við bíðum niðurstöðu þessarar yfirferðar um heildarfjárhæðina.“

Þessar umræður í þinginu komu til af bréfi sem Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, skrifaði TR í lok janúar. Þar kallaði hún eftir því að byrjað yrði að greiða út í samræmi við lög. Ekki hefur orðið af því enn.

Félagsmálaráðherra hefur sagt að beðið sé eftir fjárheimildum. Fjármálaráðherrann segir ekkert því til fyrirstöðu að borga út. Samt gerist ekki neitt. Nú hefur formaður velferðarnefndar Alþingis stigið fram og vísar ábyrgðinni á fjármálaráðherrann.