Skip to main content
Frétt

Svör Samfylkingarinnar í Reykjavík

By 24. maí 2018No Comments

Samfylkingin í Reykjavík svarar spurningum sem komið hafa fram á opnum fundum ÖBÍ: Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum.

 

1. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að fjölga fagfólki í grunnskólum og koma til móts við þarfir barna og unglinga með fatlanir og raskanir?
Samfylkingin vill beita snemmtækri íhlutun í auknum mæli í leik og grunnskólum. Ásamt því að mæta þörfum fatlaðra barna og barna með raskanir og sérþarfir á þeirra eigin forsendum í námi og frístundum við grunnskólana með auknum námsstuðningi og félagslegum stuðningi. Samfylkingin vill að stoðþjónusta við nemendur fari fyrst og fremst fram innan skólanna og bæði nemendum og kennurum verði auðveldara að leita til sérhæfðs starfsfólks. Lögð verður áhersla á að ráða fólk úr fleiri fagstéttum í skólana til að hægt sé að koma betur til móts við fjölbreytilegar þarfir nemenda. Stuðningur við börn á að miðast við þarfir þeirra en ekki vera háður læknisfræðilegum greiningum.

2. Langir biðlistar eru eftir aðgengilegu húsnæði og Félagsbústaðir (í Reykjavík) hafa ekki getað útvegað fötluðu fólki aðgengilegt húsnæði að meinu marki. Mun framboð þitt gera bragarbót á þessu og ef já, með hvaða hætti?
Samfylkingin mun fjölga íbúðum og íbúðakjörnum á vegum Félagsbústaða um 700 á næstu fimm árum í samræmi við áætlanir sem þegar eru hafnar framkvæmdir á, hluti af því er sérstök uppbyggingaráætlun um fjölbreytt húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem byggja tæplega 190 íbúðir á næstu 10 árum. Samfylkingin vill stuðla að fjölbreyttu húsnæði og þjónustu fyrir fatlað fólk svo fólk geti valið þann íbúðakost sem hentar þeim best. Leggja þarf áherslu á að fatlað fólk fái skýr fyrirheit um hvenær það megi búast við að fá viðeigandi húsnæði svo það geti undirbúið sig og finni til öryggis. Það þarf líka að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir fatlað fólk, sem hentar þeirra þörfum. Unnið verður eftir hugmyndum um algilda hönnun í allri þjónustu borgarinnar þar sem komið er til móts við fjölbreyttan hóp fólks með ólíka færni.

3. Hefur framboð þitt hugsað sér að hækka tekjuviðmið vegna sérstakra húsnæðisbóta þannig að fólk geti unnið sér inn aukatekjur án þess að missa húsnæðisbæturnar eða þær skertar til muna?
Almennar húsnæðisbætur eru greiddar af ríki og tekjuviðmið eru sett þar. Við greiðum sérstakar húsnæðisbætur og munum fylgja því eftir að þeir sem þurfa stuðning fái þær. Við hækkuðum þannig efri tekjuviðmiðin umfram vísitölu í upphafi árs og munum fylgjast þétt með áfram hvort þörf er á því.

4. Við mótun stefnu ykkar, hefur framboð þitt tekið mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Já! Það höfum við svo sannarlega gert.

 

5. Mun framboð þitt beita sér fyrir því að bæta ferðaþjónustu fatlaðs fólks?

Samfylkingin vill að Ferðaþjónusta fatlaðra bjóðist á þeim tíma sem almenningssamgöngur bjóðast og því er nú hægt að ferðast með ferðaþjónustu til klukkan 1 eftir miðnætti. Þar sé örugg og góð þjónusta án takmarkana á ferðafjölda. Einnig á að gera allar almenningssamgöngur aðgengilegar þannig að hreyfihamlað fólk sem notar hjólastól eða göngugrind geti nýtt sér almenningsvagna. Strætóþjálfar eiga að vera í boði fyrir þá sem þurfa stuðning til að byrja að nota Strætó. Við viljum þróa þjónustuna þannig að hún sé sveigjanleg, einfalda pöntunarferli og tryggja áreiðanleika þjónustunnar.

6. Mun framboð þitt fjölga NPA samningum og liðveisluúrræðum?

Samfylkingin vill að NPA sé valkostur fyrir Reykvíkinga en um leið bjóða trygga og fjölbreytta stuðningsþjónustu sem aðlöguð er að þörfum og óskum hvers og eins til að gefa öllum möguleika á að lifa sjálstæðu lífi með reisn.

7. Hyggst framboð þitt gera félagsbústaðakerfið skilvirkara?

Samfylkingin mun fjölga íbúðum og íbúðakjörnum á vegum Félagsbústaða um 700 á næstu fimm árum í samræmi við áætlanir sem þegar eru hafnar framkvæmdir á. Hluti af því er sérstök uppbyggingaráætlun um fjölbreytt húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem byggja á tæplega 190 íbúðir á næstu 10 árum. Við viljum að fólk fái greinileg skilaboð um hvenær það má búast við að fá húsnæði og ef börn eru í fjölskyldunni þá aðstoði borgin þær fjörskyldur sérstaklega þar til að varanleg búseta er í höfn.

8. Hvað hyggst þitt framboð gera hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlað fólk og til að gera úthlutun þess skilvirkari?

Við ætlum að fjárfesta í tæplega 190 íbúðum fyrir fatlað fólk á næstu 10 árum samkvæmt sérstakri uppbyggingaráætlun um fjölbreytt húsnæði fyrir fatlað fólk sem nú er unnið eftir. Við höfum breytt matsviðmiðum þannig að þau meta betur aðstæður fatlaðs fólks og munum leggja áherslu á að fatlað fólk fái skýr fyrirheit um hvenær það megi búast við að fá viðeigandi húsnæði og stuðningur heim sé tryggður.

9. Ætlar þitt framboð að skilyrða fjárhagsaðstoð með einhverjum hætti?

Við við viljum vinna með fólki á fjárhagsaðstoð og valdefla það og munum því ekki auka skilyrðingar.

10. Ætlar þitt framboð að bjóða upp á frekari sálfræðiþjónustu í grunnskólum?

Já! Samfylkingin ætlar að efla markvissa vinnu gegn kvíða barna og ungmenna í grunnskólum og bjóða þeim stuðning sem greinast með einkenni kvíða og þunglyndis. Ásamt því að auka fræðslu um geðheilbrigði til barna og ungmenna í samvinnu við skólaheilsugæsluna og samfélagið allt. Samfylkingin ætlar að tryggja aðgengi nemenda að sálfræðiaðstoð en ekki aðeins greiningu og þegar er hafin innleiðing á nýju vinnulagi sem leggur áherslu á snemmtæka íhlutun.

11. Hver er þín skoðun á skóla án aðgreiningar?

Samfylkingin vill vinna enn frekar að því að uppfylla hugmyndafræði skóla án aðgreiningar meða annars með því að fjölga fagstéttum sem starfa í grunnskólum. Við viljum efla þverfaglega vinnu til að gera skólunum betur kleift að vinna samkvæmt stefnunni um skóla án aðgreiningar. Skýra þarf verkferla og hlutverk skóla, þjónustumiðstöðva, heilbrigðisþjónustu og barnaverndar og efla samstarf á milli aðila með hag barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi. Við viljum einnig þróa með hverjum grunnskóla lítið þjónustuteymi sem tengist beint þjónustu velferðarsviðs fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Börn eigi kost á fjölbreyttum námskeiðum sem styrkja sjálfsmynd þeirra og valdefla þau. Við leggjum áherslu á snemmtæka íhlutun því hún skilar mestum árangri. Velferðar- og skólaþjónusta fylgi barni á milli skólastiga. Vinna þarf að því með framhaldsskólum á vegum ríkisins að þar starfi þjónustuteymi sem styðji nemendur, eins og er í grunnskóla. Við teljum að börn eigi alltaf að hafa einhvern að leita til á skólatíma.

12. Vill framboð þitt fjölga NPA samningum umfram því sem ríkið fjármagnar?
Reykjavíkurborg hefur ákveðið að fjölga samningum eins og kostur er og hefur þegar hafið fjölgun samninga. Samfylkingin hefur alltaf staðið með NPA og réttindabaráttu fatlaðs fólks og mun gera það áfram. Við erum að byggja upp fleiri leiðir í þjónustu þannig að NPA verður bara ein af leiðunum sem bjóðast.

13. Telur þú mikilvægt að vinna gegn neikvæðri orðræðu í samfélaginu gegn öryrkjum og fólki með fötlun? Ef já. Hvernig ætlarðu að gera slíkt. Ef nei. Hvers vegna ekki?

Já, það skiptir miklu máli og það munum við gera með því að vanda vinnubrögð og eiga reglulegt samtal við fatlað fólk meðal annars með því að nýta notendaráð fatlaðra við ákvarðanatöku. Við höfum þegar samþykkt í Borgarráði að ráða fleira fatlað fólk til starfa í Reykjavík og stuðla að því að myndefni okkar enduspegli fjölbreytileika samfélagsins. Það er mikilvægt að vinna gegn öllum fordómum og það munum við sannarlega áfram gera.

Að lokum viljum við benda á stefnu Samfylkingarinnar á vefnum xsreykjavik.is þar sem hægt er að kynna sér ítarlega stefnu um flest þau ofangreindu málefni sem spurt var um.