Skip to main content
Frétt

Umboðsmaður krefur ráðherra frekari svara

By 10. september 2021No Comments
Umboðsmaður alþingis hefur óskað eftir nánari upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu í kjölfar svars þess vegna fyrra bréfs umboðsmanns. Þar óskaði hann eftir afstöðu ráðuneytisins á framkvæmd Tryggingastofnunar þegar kemur að synjun á örorkulífeyri til ungs fólks.

Öryrkjabandalagið sendi umboðsmanni bréf í lok maí, þar sem athygli hans var vakin á því að Öryrkjabandalagið hefði orðið þess áskynja að mikil breyting hafi átt sér stað í verklagi og stefnu varðandi endurhæfingar- og örorkulífeyrismál hjá Tryggingastofnun. Töluverður fjöldi hafi leitað til ráðgjafa ÖBÍO, þar sem þeim hafi verið synjað um örorkumat hjá TR á þeim forsendum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Synjanir þessar hafi verið án útskýringa um hvaða endurhæfingaúrræði viðkomandi gæti nýtt, hvort frekari endurhæfingaúrræði stæðu til boða og hvert aðgengi að þeim væri, t.d. með tilliti til biðtíma, staðsetningar eða annara mögulegra hindrana.

Umboðsmaður reit ráðuneytinu bréf 10 júní og þess óskað að ráðherra veitti umboðsmanni upplýsingar um hvort honum hafi borist ábendingar, eða hann sé meðvitaður um mögulega breytta framkvæmd Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um örorkulífeyri.

Ráðherra hefur svarað umboðsmanni, og svar það varð umboðsmanni tilefni til ítrekunar í bréfi sem sent var ráðherra. Þó umboðsmaður birti ekki svarbréf ráðherra, má þó lesa úr bréfi umboðsmanns efni svarsins. Þar kemur fram að ráðuneytinu hafi borist nokkrar kvartanir vegna afgreiðslu örorkumats.  Í tilefni af því, og fyrirspurn umboðsmanns hafi ráðuneytið óskað eftir nánar tilteknum upplýsingum frá Tryggingastofnun.

„Í svarbréfi ráðuneytisins eru síðan tekin upp ákveðin atriði úr svörum stofnunarinnar varðandi bæði hlutverk hennar og verklag þegar kemur að mati á því hvort endurhæfing sé talin fullreynd. Þá er vísað til þeirrar stefnu stjórnvalda að leggja aukna áherslu á að endurhæfing sé reynd áður en örorka sé metin“

Í bréfinu kemur einnig fram að ráðuneytið telji þó, með vísan til athugasemda og ábendinga sem fram hafa komið, tilefni til að fara yfir framkvæmd Tryggingastofnunar hvað varðar rökstuðning synjana og leiðbeiningar til umsækjenda.

Þá kemur fram í bréfi umboðsmanns að ráðuneytið hafi ákveðið, að tillögu Tryggingastofnunar, að koma á fót starfshópi með aðkomu TR, Vinnumálastofnunar, Öryrkjabandalags Íslands auk ráðuneytisins sjálfs, til að skoða hvernig best megi tryggja samfellda þjónustu við unga einstaklinga með skerta starfsgetu.

Öryrkjabandalagið hefur þegar sent ráðherra bréf þess efnis að það fagni því að starfshópur með þetta verkefni verði skipaður, og lýst yfir vilja til að taka þátt í starfi hans og tilnefna fulltrúa.

Umboðsmaður óskar í bréfinu eftir því að ráðuneytið upplýsi umboðsmann um hvað muni nánar tiltekið felast í áðurnefndri yfirferð, og hvort fyrir liggi áætlun um hvenær henni verði lokið. Þá er þess óskað að ráðuneytið upplýsi umboðsmann um niðurstöður yfirferðarinnar.