Skip to main content
Frétt

Upplýsingagjöf sveitarfélaga ófullnægjandi.

By 21. janúar 2021No Comments
Gæða og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar ákvað um mitt ár 2020 að framkvæma könnun á vefsíðum nokkurra sveitarfélaga, í kjölfar ábendinga um að upplýsingar um réttindi og þjónustu við fatlað fólk á vefsíðum þeirra væri ábótavant. Kveðið er á um frumkvæðisskyldu sveitarfélaga í 32. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Gott aðgengi að upplýsingum um rétt fatlaðra til þjónustu er afar mikilvægur þáttur.

Því var ákveðið að framkvæma athugun á vefsíðum nokkurra sveitarfélaga, og sérstaklega athuga hvort þar væri að finna upplýsingar upplýsingar um þjónustu samkvæmt tíu greinum laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Á tímabilinu 17. júlí til 3. ágúst 2020 voru heimasíður Akureyrarbæjar, Fljótsdalshéraðs, Garðabæjar, Ísafjarðarbæjar, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Stykkishólmsbæjar skoðaðar. 

Niðurstaðan var að á vefsíðum ofantaldra sveitarfélaga var sjaldan vísað í gildandi lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar sem vísað var til laga, var oftast vísað til eldri laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Ljóst er að upplýsingar um réttindi og þjónustu við fatlað fólk eru af mjög skornum skammti og þyrftu almennt að vera ítarlegri með uppfærðum upplýsingum með hliðsjón af gildandi lögum. Þær síður sem gáfu minnstar upplýsingar, höfðu sumar ekki verið uppfærðar að neinu viti frá árinu 2012. 

Hér koma niðurstöður könnunarinnar, eftir þeim lagagreinum sem voru til hliðsjónar.

 

8. gr. Stoðþjónusta

Upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna um stoðþjónustu voru mjög takmarkaðar. Í ljós kom að upplýsingar allra átta sveitarfélaganna byggðu á eldri lögum. Upplýsingarnar voru því fyrst og fremst um stuðningsþjónustu sem byggir á eldri lögum. Margar reglur sveitarfélaganna um stuðningsþjónustu voru frá 2012 og hafa ekki verið gerðar breytingar á þeim en gjaldskrár eru oftar en ekki uppfærðar á hverju ári og margar tóku gildi árið 2020.

9. gr. Búseta

Upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna átta um búsetu voru í mörgum tilfellum fremur óskýrar og nokkuð vantaði upp á að vísað væri í lög, reglugerðir og reglur. Einnig vantaði oftar en ekki hlekki á umsóknir eða þá að hlekkir voru óvirkir. Aðeins tvö sveitarfélög vísuðu í lög nr. 38/2018 og eru reglur þeirra sveitarfélaga frá 2019 og 2020. Eitt sveitarfélag vísaði í reglugerð 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum, sem féll úr gildi við setningu laga nr. 38/2018.

10. gr. Notendasamningar

Upplýsingar um notendasamninga á vefsíðum sveitarfélaganna voru aðeins til staðar í einu sveitarfélaganna. Þar voru notendasamningar taldir upp undir þjónustu og stuðningi við fatlað fólk. Ekki voru nánari útskýringar til staðar og ekki var að finna upplýsingar á öðrum vefsíðum um notendasamninga.

11. gr. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)

Upplýsingar um NPA þjónustu var að finna á vefsíðum fimm sveitarfélaga af átta. Misjafnt var hve aðgengilegar og ítarlegar upplýsingarnar voru. Af þeim fimm vefsíðum þar sem fjallað var um NPA vísuðu tvær í lög nr. 38/2018 en þrjár í lög nr. 59/1992. Sveitarfélögin fimm voru öll með reglur sveitarfélagsins um NPA aðgengilegar en eingöngu eitt þeirra var með reglur um NPA frá 2019 en fjögur með reglur frá 2012.

12. gr. Einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir og þjónustuteymi

Hvergi var að finna upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna um gerð einstaklingsbundinna þjónustuáætlana og þjónustuteyma.

15. gr. Stuðningsfjölskyldur

Á flestum vefsíðum sveitarfélaganna átta komu fram upplýsingar um stuðningsfjölskyldur, hvað felist í stuðningsfjölskyldu og hverjir geti sótt um þjónustuna. Mismunandi var hvort hlekkir væru virkir eða ekki. Alltaf var vísað í lög nr. 59/1992. Ein undantekning var þó frá því þar sem á vefsíðu eins sveitarfélags var hvoru tveggja vísað í eldri lög og í lög nr. 38/2018.

16. gr. Frístundaþjónusta

Á vefsíðum sveitarfélaganna er hvergi minnst á frístundaþjónustu fyrir fatlaða.

17. gr. Skammtímadvöl

Upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna átta um skammtímadvöl voru af skornum skammti. Engar upplýsingar var að finna á vefsíðum tveggja sveitarfélaga og takmarkaðar upplýsingar var að finna á hinum sex vefsíðunum. Þar sem einhverjar upplýsingar voru til staðar var í öllum tilvikum nema einu bent á umsóknir eða aðrar upplýsingasíður.

18. gr. Sumardvöl

Aðeins var að finna upplýsingar um sumardvöl í upptalningu á úrræðum í boði á vefsíðu eins sveitarfélags.

24. gr. Vernduð vinna, hæfing og dagþjónusta

Upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaganna átta um verndaða vinnu, hæfingu og dagþjónustu voru litlar. Engar upplýsingar var að finna á vefsíðum fjögurra sveitarfélaga og litlar upplýsingar var að finna á vefsíðum þriggja. Aðeins kom einu sinni fram að reglur væru til staðar og þá vísað í eldri lög nr. 59/1992.

 

Þar sem umsóknir um þjónustu voru til staðar, voru þær yfirleitt aðgengilegar og auðvelt að fylla þær út. Einnig voru reglur oftast aðgengilegar og með tilvísun í lög, en þó oft í eldri lög sem fallin eru úr gildi. Gæta þarf að því að hlekkir á vefsíðum sveitarfélaga séu virkir og uppfærðir og upplýsingar uppfærðar samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi.