Skip to main content

Yfirstandandi dómsmál,dómar, úrskurðir og álit

Þegar ÖBÍ tekur ákvörðun um að höfða mál fyrir dómsmálum þá er tekið mið af því að málið hafi fordæmisgildi.

Yfirstandandi dómsmál:

Króna á móti krónu

Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiðir sérstaka framfærsluuppbót  til þeirra sem hafa engar eða lágar tekjur frá öðrum en TR. Uppbótin skertist krónu fyrir krónu, þ.e. hver króna í tekjur skerti uppbótina (dregið hefur úr skerðingunum eftir að dómsmálið var höfðað). Málið er rekið í þeim tilgangi að skerðingin verði alveg afnumin, eins og þegar hefur verið gert að því er varðar ellilífeyrisþega frá og með 1. janúar 2017. Málið var höfðað með stefnu útgefinni í október 2019. Ríkislögmaður, fyrir hönd TR, krafðist frávísunar, og í kjölfarið var málinu frestað að beiðni hans aftur og aftur. Héraðsdómur kvað upp úrskurð um frávísun þriðja nóvember 2020, þar sem frávísunarkröfu var hafnað. Málið gekk því til efnismeðferðar. Héraðsdómur kvað svo upp úrskurð og dóm 24. júní 2021, þar sem meginkröfum ÖBÍ var vísað frá dómi, og efnisdómur, hliðhollur ríki, var felldur um varakröfur.

Þessi úrskurður var kærður til Landsréttar, og felldi rétturinn úrskurð þar um 9. nóvember 2021. Landsréttur hafnaði frávísun, og vísaði málinu aftur í hérað til löglegrar meðferðar. Dómur féll í þeim hluta málsins 12. apríl 2022. Eins og í fyrri dóm, var ríkið sýknað af kröfum stefnenda, og verður þeim hluta málsins áfrýjað til Landsréttar, þar sem þau munu sameinast að nýju.

Dómsmál vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA)

Sveitarfélag hefur samþykkt umsókn tiltekins einstaklings um NPA, en sveitarfélagið hefur þó ekki gengið frá samningi við einstaklinginn og veitt fjármagni til aðstoðarinnar. Einstaklingurinn dvelst því á stofnun, gegn vilja sínum. Ástæðan er að sögn sveitarfélagsins bið eftir þátttöku ríkisins í kostnaði, þrátt fyrir að lög séu skýr um að sveitarfélög beri ábyrgð á kostnaði við að þjónusta fatlað fólk. Málið er rekið í þeim tilgangi að koma á samningi um NPA fyrir einstaklinginn og fá viðurkennt að sveitarfélagi sé óheimilt að gera þátttöku ríkisins að skilyrði fyrir NPA. Málið var lagt fyrir héraðsdóm í nóvember 2020. 24. mars 2021 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem sveitarfélagið var dæmt til að greiða einstaklingnum skaðabætur vegna saknæms dráttar á meðferð málsins. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé lagastoð fyrir synjun um NPA samning, þó svo ekki liggi fyrir fjárframlag ríkisins. Ríkið áfrýjaði til Landsréttar, sem í dómi 8. október 2021, sýknaði ríkið af kröfum á grundvelli sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga eins og hann er settur fram í stjórnarskrá, og því fellst Landsréttur ekki á það að sveitarfélaginu hafi borið að semja við einstaklinginn um NPA, og heimilt að binda samninginn við fyrirvara um fjárframlag ríkisins.

Sótt var um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar sem veitti samþykki sitt í nóvember 2021.

Dómsmál vegna uppgjörs á búsetuskerðingum greiðslna frá Tryggingastofnun

Eftir margra ára baráttu ÖBÍ við TR fékkst loksins viðurkenning á því að fyrirkomulag búsetuskerðinga hjá TR vegna búsetu erlendis væri ólögmætt. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis, nr. 8955/2016, féllst íslenska ríkið á að TR myndi leiðrétta vangoldnar greiðslur, en einungis 4 ár aftur í tímann og með almennum vöxtum. Þrátt fyrir álit umboðsmanns, er upphafleg afgreiðsla TR á umsóknum þeirra sem búið hafa hluta ævi sinnar erlendis, enn í sama farvegi. Úrskurðað er um réttindi í trássi við álit UA, en svo sett í flokk með þeim sem bíða leiðréttingar. Málið er rekið í þeim tilgangi að fá greiðslur 10 ár aftur í tímann auk dráttarvaxta. Málið er fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Dómsmál vegna uppgjörs á skerðingum á sérstökum húsaleigubótum frá Reykjavíkurborg

Eftir margra ára baráttu ÖBÍ við Reykjavíkurborg féll dómur Hæstaréttar árið 2016 að fyrirkomulag borgarinnar á ákvörðunum um að greiða ekki sérstakar húsaleigubætur til einstaklinga í félagslegu húsnæði væri ólögmætt og mismunaði fólki eftir því hvort það leigði á almennum markaði eða væru leigjendur í félagslegu húsnæði  á vegum annara en Reykjavíkurborgar. Borgin féllst á að leiðrétta vangoldnar greiðslur árið 2018, en einungis 4 ár aftur í tímann. Málið er rekið í þeim tilgangi að fá greiðslur 10 ár aftur í tímann. Málið er fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Dómsmál vegna tekjuútreikninga lífeyrissjóða

Greiðslustofa lífeyrissjóða ákvað árið 2015 að breyta útreikningsreglum sínum þannig að telja barnalífeyri frá Tryggingastofnun sem tekjur sem kæmu til skerðingar við útreikning örorkulífeyris frá lífeyrissjóði. Málið er rekið í þeim tilgangi að fá viðurkenningu á því að skerðingin sé ólögmæt. Fyrir héraðsdómi Reykjavíkur tapaðist málið, en var áfrýjað til Landsréttar sem í júní 2021 vísaði málinu aftur til héraðsdóms, þar sem dómari þar tók ekki efnislega afstöðu til meginröksemda stefnanda. Málið var tekið fyrir að nýju í héraðsdómi 1. nóvember 2021, fyrir nýjum dómara.