Hér getur þú leitað að einhverju á síðu obi.is,
sláðu inn leitarorðið og leitaðu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir var kjörin formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi bandalagsins haustið 2017. Hún er grafískur hönnuður að mennt og var framkvæmdastjóri Nýprents á Sauðárkróki áður en hún tók við formennsku ÖBÍ. Auk þess var Þuríður varaformaður Sjálfsbjargar þegar hún bauð sig fram.
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) er heildarsamtök hagsmuna og mannréttinda fatlaðs fólks á Íslandi stofnað 5. maí 1961. Bandalagið samanstendur af 43 aðildarfélagi fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Aðildarfélögin eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa sem öll starfa á landsvísu. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veita margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 30 þúsund manns.
Markmið ÖBÍ er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.
Hlutverk ÖBÍ er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.
Starf málefnahópanna er hryggjarstykkið í málefnavinnu bandalagsins og gerir það mögulegt að berjast á mörgum stöðum á sama tíma. Málefnahópar bandalagsins fjalla um kjaramál, heilbrigðismál, aðgengismál, atvinnu- og menntamál, sjálfstætt líf og málefni barna.