Skip to main content
Umsögn

Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

By 12. júní 2019No Comments

Reglugerð

Félagsmálaráðuneytið, 21. febrúar 2019: 

Samkvæmt 25. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er [Reykjavíkurborg og sveitarfélögum] heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:
1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.
 
Ráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um framkvæmd styrkveitinganna á grundvelli ákvæðisins, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um styrkina á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Kostnaður vegna styrkja skv. 1. mgr. greiðist af sveitarfélögum.
 
Við setningu og framkvæmd reglna sinna skulu sveitarfélög taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 
Á grundvelli framangreinds ákvæðis gefur félagsmálaráðuneytið út eftirfarandi leiðbeinandi
reglur:
 
1. gr.
Markmið.
Reglur sveitarfélags ættu að tilgreina þau markmið sem stefnt er að, til dæmis á eftirfarandi hátt:
Markmið reglnanna er að auðvelda fötluðu fólki að verða sér úti um þekkingu og reynslu og til að auka möguleika sína til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Í þeim tilgangi eru veittir styrkir til þess að fatlað fólk geti:
  • sótt sér menntun,
  • viðhaldið og aukið þekkingu og færni og
  • nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu.
 
2. gr.
Hverjir eiga kost á styrk.
Reglur sveitarfélags um styrki til náms og tækjakaupa sækja stoð sína til laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þau lög mæla hvorki fyrir um það hverjir eigi kost á styrkjum né tilgreina aldursmörk í því sambandi. Þess vegna er almennt gengið út frá því að sérhver einstaklingur sem býr við fötlun og þarf sérstakan stuðning af þeirri ástæðu til hæfingar, endurhæfingar eða starfsendurhæfingar geti sótt um styrk samkvæmt reglum sveitarfélags.
 
Sveitarfélag getur aftur á móti ákveðið forgangsröðun eða áherslusvið við úthlutun styrkja enda sé það tilgreint í reglum þess. Sveitarfélag getur þannig ákveðið að styrkjum sé einkum ætlað að standa til boða fyrir umsækjendur 18–67 ára. Einnig getur sveitarfélag litið til þess við meðferð umsókna hvort hæfing, sem óskað er eftir stuðningi við, geti nýst á vinnumarkaði. Aðstæður í sveitarfélagi með tilliti til námsúrræða geta einnig haft áhrif á mótun reglna, til dæmis er eðlilegt að sveitarfélag taki afstöðu til þess hvort fatlaðir nemendur, yngri en 18 ára, geti átt kost á styrk til kaupa á fartölvu sem gagnast við námið. Styrkveitingu er ætlað að stuðla að virkni í víðum skilningi. Styrkir koma þó hvorki í stað starfsendurhæfingarúrræða samkvæmt lögum eða reglum sem gilda á vinnumarkaði né í stað endurhæfingarúrræða sem heilbrigðisþjónustan ber ábyrgð á að veita.
 
3. gr.
Orðskýringar.
Hæfing hefur að markmiði að viðhalda og auka færni viðkomandi þannig að afleiðingar fötlunar eða áfalla leiði ekki til versnandi lífsgæða. Með félagslegri hæfingu er átt við að úrræðinu sé einkum ætlað að auka og viðhalda færni viðkomandi til almennrar samfélagslegrar þátttöku.
 
Endurhæfingu er ætlað að stuðla að því að einstaklingur nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er.
 
Starfsendurhæfingu er einkum ætlað að endurhæfa einstaklinga til vinnu eða náms.
 
4. gr.
Skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá styrk.
Í reglum sveitarfélags eru sett fram skilyrði sem forsendur fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar eða afgreiðslu. Skilyrðin verða að eiga sér stoð í ákvæðum laganna og markmiðum þess að veita styrki. Skilyrði sem teljast málefnaleg í þessu sambandi eru meðal annars eftirfarandi:
  • Styrkur vegna starfsemi sem skapar viðkomandi atvinnu (verkfæra- og tækjakaup).
  • Fyrir liggi staðfesting á skráningu í nám eða námskeið áður en styrkur er greiddur út.
  • Líklegt sé að styrkur stuðli að aukinni virkni og þátttöku.
  • Sýnt sé fram á að aðstoðin sé einstaklingsbundin en renni ekki til fyrirtækis.
  • Umsækjandi eða talsmaður hans lýsi því yfir að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og nýttir. Í þessu sambandi er vísað til sjóða stéttarfélaga sem umsækjandi greiðir í, lögbundinna framlaga vegna hjálpartækja og þess ef nám er lánshæft samkvæmt lögum og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Taka skal tillit til takmarkana á möguleikum umsækjanda til að stunda fullt lánshæft nám vegna fötlunar.
 
Umsækjandi skal leggja fram gögn sem staðfesta þau atriði sem fram koma í reglum viðkomandi sveitarfélags. Æskilegt er að sveitarfélag bjóði upp á að skila megi umsókn inn rafrænt og að eyðublöð vegna umsókna beri með sér hvaða upplýsinga er krafist,
 
5. gr.
Mat á umsókn um styrk.
Séu skilyrði uppfyllt til þess að taka umsókn til meðferðar skv. 4. gr. fer fram mat á umsókn. Í reglum sveitarfélags þarf að koma fram hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar matinu, einkum ef forgangsraða þarf umsóknum.
 
6. gr.
Gagnaöflun.
Í reglum skal tilgreint hvaða gögn eigi að fylgja umsókn, auk þess að taka fram að heimilt sé að afla frekari gagna vegna meðferðar á umsókn.
Gögn, sbr. 4. gr.
Gögn sem sýna að skilyrði séu uppfyllt þurfa að fylgja umsókn. Ef á þetta skortir má gefa umsækjanda kost á að bæta úr umsókn að þessu leyti. Þó ber að gæta jafnræðis og skal það sama standa öðrum umsækjendum til boða. Taka ber tillit til þess ef umsækjandi vísar á réttargæslumenn, aðstandendur eða aðra persónulega talsmenn varðandi gagnaöflun.
 
Umsókn sem ekki er studd þessum gögnum er vísað frá.
 
Gögn, sbr. 5. gr.
Umsækjandi skal að jafnaði leggja fram þau gögn sem varða mat á umsókn. Umsækjandi getur þó veitt sveitarfélagi heimild til þess að afla þeirra gagna sem það hefur aðgang að.
 
Taka ber tillit til þess ef notandi vísar á aðstandendur, aðra persónulega talsmenn eða réttindagæslumenn.
 
Enn fremur er rétt að tilgreint sé í reglum sveitarfélags að málsgögn sem varða persónulega hagi einstaklinga skuli varðveitt með tryggilegum hætti. Þá skal koma fram að umsækjandi eigi rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum. Vísa má til verklagsreglna sveitarfélags um meðferð persónuupplýsinga hvað þennan lið varðar.
 
7. gr.
Auglýsingar.
Í reglum hvers sveitarfélags skulu vera ákvæði um það hvernig auglýst sé eftir umsóknum um
styrki. Auglýsing skal innihalda allar upplýsingar um ferli umsóknar og aðferð við úthlutun. Tryggja þarf ákveðna útbreiðslu þessara upplýsinga en ekki er gerð krafa um að auglýsing birtist í fjölmiðli á landsvísu. Auglýsingar skulu birtar með þeim hætti að allir sem kunna að hafa hagsmuna að gæta hafi aðgang að þeim óháð fötlun.
 
8. gr.
Úthlutun styrkja.
Í reglum hvers sveitarfélags skal lýst þeirri aðferð sem beitt er við úthlutun styrkja. Heildarfjárhæð til úthlutunar er ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs. Sveitarfélagi er heimilt að úthluta einu sinni á ári á grundvelli auglýsingar, sbr. 7. gr., eða afgreiða umsóknir innan tiltekins tímabils. Sé síðarnefnda aðferðin notuð skal gerður fyrirvari um að til úthlutunar hverju sinni sé tiltekin fjárhæð.
 
Sveitarfélagi er heimilt í reglum sínum að binda styrk til hvers einstaklings við þau mörk að
aldrei skuli greiða meira en tiltekinn hundraðshluta af útlögðum kostnaði og allt að tiltekinni
hámarksfjárhæð á ári.
 
Sveitarfélag getur einnig mælt fyrir um að líta megi til fyrri úthlutunar við ákvörðun styrks,
meðal annars þannig að styrkur til verkfæra- og tækjakaupa sé alla jafna ekki veittur sama
einstaklingi oftar en á tveggja ára fresti.
 
Komi til þess að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna eða röskunar á forsendum fyrir
úthlutun er sveitarfélagi heimilt að forgangsraða umsóknum enda sé það í samræmi við reglur
og áherslur sem þar eru tilgreindar, sbr. 2. gr.
 
9. gr.
Leiðbeiningarskylda og tengd atriði.
Í reglum hvers sveitarfélags skal tilgreint að starfsmenn þess veiti umsækjendum aðstoð við umsóknir og að niðurstaða úthlutunar sé rökstudd. Synjun, frávísun eða verulega skert úthlutun frá því sem vænta mátti skal rökstudd sérstaklega í afgreiðslubréfi, auk þess sem veittar eru leiðbeiningar um málskot (endurupptaka máls á vettvangi félagsmálanefndar ef við á eða kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála).
 
Við meðferð umsókna skulu starfsmenn sveitarfélags veita umsækjanda upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Berist skriflegt erindi sem ekki snertir félagsþjónustu sveitarfélaga skal starfsmaður framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem auðið er, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og upplýsa umsækjanda um það.
 
Í svarbréfi til umsækjanda ætti að koma fram í hvaða reit á skattframtali eigi að færa styrkfjárhæðina.
 
10. gr.
Endurkröfur.
Styrkir sem veittir eru á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi styrkþega eru alla jafna endurkræfir. Sama gildir ef þeir eru nýttir í annað en umsókn gerði ráð fyrir. Sveitarfélag getur í reglum sínum áskilið sér rétt til að endurkrefja viðkomandi um fjárhæð úthlutaðs styrks með vísun til almennra reglna kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt séu rangar eða villandi stöðvast meðferð umsóknar og kemur hún þá ekki til afgreiðslu.
 
11. gr.
Útborgun.
Sveitarfélag skal láta það koma fram í reglum sínum ef styrkur verður einungis greiddur inn á persónulegan reikning umsækjanda samkvæmt framlagðri staðfestingu eða kvittun fyrir kaupum, til dæmis þannig að sýnt sé fram á að aðstoðin sé einstaklingsbundin og að styrkur renni ekki til lögaðila.
 
12. gr.
Gildistaka.
Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast nú þegar gildi.
 
Félagsmálaráðuneytinu,
21. febrúar 2019.