Skip to main content
Umsögn

144. mál. Fjölmiðlar (textun myndefnis)

By 2. júní 2020No Comments
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Reykjavík, 5. apríl 2017

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (textun myndefnis). Þingskjal 203 – 144. mál.

Athugasemdir ÖBÍ um frumvarpið í heild

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, að fjölmiðlaveitum sem senda út sjónvarpsefni verður skylt að texta allt myndefni sem þær miðla á íslensku án tillits til þess hvort texti hljóðrásar er á íslensku eða erlendu máli.
 

Mikilvægt frumvarp

Mikilvægt er að frumvarpið nái fram að ganga og með því er komið til móts við heyrnarskerta, en aðgengi þeirra að efni í íslensku sjónvarpi er í dag óviðunandi.
 
Allt að 16% þjóðarinnar er heyrnarskert að einhverju leyti, sem þýðir að um 54.000 manns getur illa notið þeirra mannréttinda að að fylgjast með útsendu efni. Sá fjöldi á eftir að aukast í framtíðinni enda er þjóðin að eldast. Það eru því margir sem ekki geta fylgst með beinum útsendingum og horft á íslenskt efni í sjónvarpi.
 
Ekki má heldur gleyma því að aðrir en heyrnarskertir styðjast við íslenskan texta við áhorf, eins og fólk með þroskahömlun, fólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli og börn sem er að læra að lesa. Textun á innlendu sjónvarspefni eflir ekki síður íslenska tungu, en textun á erlendu máli. Þó eru ákvæði um textun erlends sjónvarpsefnis mun ríkari en innlends í lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.
 
Óháð fjölda er óskoraður réttur fatlaðs fólks til að njóta sama aðgengis og aðrir samfélagsþegnar. Mismunun er ekki heimil.
 

Aðgengi fyrir alla

Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem Ísland fullgilti 20. september 2016, er ítarlega fjallað um aðgengismál. Í 9. gr. SRFF segir:
Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi.
 

Í 2. tl. 9. gr. SRFF eru eftirfarandi skyldur lagðar á aðildarríki til að tryggja viðeigandi ráðstafanir:

b) tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu, sem veitt er almenningi, taki mið af hvers kyns aðgengi fyrir fatlað fólk,
f) auka við að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,
g) auka við aðgang fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, meðal annars Netinu,
 

Í 21. gr. SRFF um tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgang að upplýsingum segir:

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þar með talið frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, meðal annars með því að hvetja fjölmiðla, meðal annars upplýsingaveitur á Netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki.
 

Ennfremur segir í d-lið 21. gr. aðildarríki skuli:

…hvetja fjölmiðla, meðal annars upplýsingaveitur á Netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,

Jafnframt segir um þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi í a-lið 30. gr.SRFF að:

Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk njóti aðgengis að menningarefni á aðgengilegu formi.

Ályktun ÖBÍ

Rík ástæða er til að frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 28/2011 (textun myndefnis) verði að lögum og þannig færa í lög rétt heyrnarskerts fólks og fólks með þroskahömlun til aðgengis að myndefnis í fjölmiðlum til jafns við aðra þegna þjóðarinnar. Það á við um allt myndefni, hvort sem er íslenskt eða erlent, í beinni útsendingu eða ekki. Jafnframt er löggjafinn hvattur til að skerpa á viðurlögum við brotum.
 
ÖBÍ er reiðubúið að koma að frekari endurskoðun þessa frumvarps sé þess óskað.
 
Ekkert um okkur án okkar.
Með vinsemd og virðingu,
Ellen Calmon
formaður ÖBÍ