Skip to main content
Umsögn

426. mál. Heilbrigðisþjónusta o.fl.(dvalarrými og dagdvöl)

By 25. febrúar 2020No Comments

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. maí 2018

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar (dvalarrými og dagdvöl). Þingskjal 608 – 426. mál.

Með frumvarpinu er lagðar til breytingar á lögum um að heimila „dvöl í dvalarrýmum eða dagdvöl fyrir þá sem yngri eru en 67 ára ef þörf krefur, vegna heilsufars þeirra,“ eins og segir í greinargerð.

Ekki var leitað samráðs við hagsmunasamtök notenda eða tilvonandi notenda þjónustunnar samkvæmt frumvarpinu, þar sem um væri að ræða „aukin réttindi fyrir þann hóp sem breytingarnar ná til.“

„Aukin réttindi“

Það er afar vafasamt að gefa sér, eins og höfundar frumvarpsins gera, að það feli í sér aukin réttindi fyrir einstaklinga sem eru yngri en 67 ára að fá að vistast á öldrunarheimilum.

Stefna stjórnvalda á að miða að því að veita fólki með miklar þjónustuþarfir heimilisþjónustu frekar en að leggja það inn á stofnanir.

Í 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt, segir:

„Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar…“

Í stað þess að greiða leið fatlaðs fólks inn á stofnanir fyrir aldraða ættu stjórnvöld að leggja áherslu á að fjölga NPA samningum og gera þar með fólki kleift að taka virkan þátt í samfélaginu.

Samráð

Við samningu frumvarpsins var eingöngu haft samráð við Sjúkratryggingar Íslands og Tryggingastofnun. Í greinargerð segir að ekki hafi verið talin „frekari þörf á samráði þar sem um var að ræða aukin réttindi fyrir þann hóp fólks sem breytingarnar taka til. Um er að ræða breytingar sem eru til hagsbóta fyrir einstaklinga sem eru yngri en 67 ára en þó í þörf fyrir þjónustu sem veitt er í dvalarrýmum eða dagdvöl.“

Stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð fyrir heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, enda segir í 3. mgr. 4. gr.:

„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Þessi skylda er alveg óháð því að stjórnvöld telji að téðar ákvarðanir séu til hagsbóta fyrir fatlað fólk.

Í öllum málum sem snerta hagsmuni fatlaðs fólks ber stjórnvöldum að kalla Öryrkjabandalag Íslands að borðinu á fyrstu stigum, enda segja einkennisorð samtakanna:

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ 


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis