Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum (6. júlí 2018)

By 25. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefni
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík

 

Reykjavík, 6. júlí 2018

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum.

Nú liggja fyrir drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum. Í reglugerðinni er ekki gert ráð fyrir að fatlað fólk ferðist með skipum, miðað við ákvæði um fjölda farþega og aðbúnað í 5. gr.

Það brýtur í bága við ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem Ísland fullgilti í september 2016. 

Eftir fullgildingu SRFF er ekki heimilt að setja lög og reglur sem brjóta í bága við samninginn. Aðildarríkin skuldbinda sig til að „gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin“[1], þar á meðal „að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til: 10 a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“[2]

Aðgengi að skipum.
Til að tryggja að fatlað fólk geti ferðast með farþegaskipum þarf að ganga út frá ákveðnum viðmiðum um aðgengi að skipum og um borð þar sem það er hægt, svo sem að leiðir séu breiðar og hindurnarlausar,  merkingar séu skýrar, leiðbeiningar og tilkynningar auðskildar og að hugað sé að lýsingu og hljóðvist. Salernisaðstaða þarf að vera til staðar og öll öryggisatriði til að tryggja skjóta rýmingu þurfa að vera í lagi.
 

Þá er rétt að ganga út frá þeim viðmiðum sem koma fram í leiðbeiningarblaði MGN 306 frá 1996: „[3]Recommendation on the design and operation of passenger ships to respond to elderly and disabled persons’ needs.“

Það eru sömu viðmið og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip (nr. 2009/45/EC) [4] fylgir, en reglugerð þessi er aftur á móti sett samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003.

Fyrir ári síðan, þ. 1. júlí 2017, tóku gildi ný lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, sem innleiddu með reglugerð ESB reglugerð nr. 181/2001 um réttindi farþega í hópbifreiðum. Með þessari gildistöku fylgja auknar kröfur á sérleyfishafa um aðgengi fyrir fatlað og hreyfihamlað fólk að hópferðabílum, með hliðsjón af 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 8. mgr. aðfararorða ESB reglugerðarinnar.

Rétt væri að setja nú ný lög um eftirlit með skipum sem byggir á og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip (nr. 2009/45/EC), sem heimilar ekki nýskráningu farþegaskipa og – báta nema að aðgengi fyrir fatlað fólk sé tryggt.

Samráð.
Ekki hefur verið leitað eftir áliti eða óskað eftir samráði við ÖBÍ við gerð þessarar reglugerðar. Stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð fyrir heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, enda segir í 3. mgr. 4. gr. SRFF:
„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Sú skylda er ennfremur ítrekuð í 2. mgr. 8. gr. ofangreindrar ESB tilskipunar nr. 2009/45/EC.

Í öllum málum sem snerta hagsmuni fatlaðs fólks ber stjórnvöldum að kalla Öryrkjabandalag Íslands að borðinu á fyrstu stigum, enda segja einkennisorð samtakanna:

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ


[1] b-liður, 1. mgr.  4.gr.

[2] a-liður, 1. mgr. 9. gr.
[3] https://assets.publishing.service.gov.uk/government/uploads/system/uploads/attachment_data/file/440083/306.pdf
[4] https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/HTML/?uri=CELEX:32009L0045&from=EN