Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu

By 4. september 2020No Comments
Félagsmálaráðuneytið          
Skógarhlíð 6

105 Reykjavík

Reykjavík, 3. september 2020

Efni: Drög að reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu
Eftirfarandi er umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu.

ÖBÍ gerir athugasemd við að reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk hafi ekki verið höfð til hliðsjónar við gerð reglugerðar um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu. Ósamræmið á milli reglugerðanna tveggja er varhugavert og í raun ekki réttlætanlegt með tilliti til jafnfræðissjónarmiða.  

Athugasemdir ÖBÍ snúa fyrst og fremst að 7. gr. reglugerðarinnar hvað varðar umsögn notendaráða. Í 7. gr. segir að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar skuli afla umsagnar notendaráða í því sveitarfélagi þar sem starfsemin er, áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til afgreiðslu. Jafnframt segir í 7. gr. að ef reka á starfsemi á fleiri en einu svæði skuli afla umsagna frá notendaráði á hverju svæði fyrir sig.

Samkvæmt orðanna hljóðan 7. gr.  er lögð sú skylda á Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar að leita umsagna notendaráða áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til afgreiðslu, það er því ekki valkvætt hvort aflað sé umsagnar notendaráða heldur er um að ræða skyldu. Sambærilegt ákvæði er að finna í reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk en í 1. og 2. mgr. 7. gr. þeirrar reglugerðar segir að Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar beri að tilkynna notendaráði um fyrirhugaða afgreiðslu á umsókn um starfsleyfi og að notendaráði sé heimilt að veita skriflega umsögn. Samkvæmt orðanna hljóðan er því ekki um skyldu að ræða heldur er um að ræða heimild notendaráðs til að skrifa umsögn.

Þetta ósamræmi í reglugerðunum orsakar það að gerður er greinarmunur á annars vegar einkaaðila sem ætlar að veita félagsþjónustu og hins vegar einkaaðila sem ætlar að veita þjónustu við fatlað fólk. Ef um er að ræða umsókn um starfsleyfi einkaaðila sem ætlar að veita félagslega þjónustu þá hvíla ríkari skyldur á Gæða- og eftirlitsstofnun að óska eftir umsögn notendaráðs og jafnframt hvílir ríkari skylda á notendaráðum að skrifa umsögn.

Í reglugerðinni um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu er ekki að finna ákvæði um að útbúa skuli leiðbeiningar fyrir notendaráð en í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar um starfsleyfi til einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk er það gert að skilyrði að útbúa þurfi leiðbeiningar fyrir notendaráð. Það liggur í hlutarins eðli að sömu skilyrði um leiðbeiningar  og verklagsreglur fyrir notendaráð eigi að vera í báðum reglugerðunum og þá sérstaklega ef um er að ræða skyldu notendaráðs að skrifa umsögn.

ÖBÍ vill einnig benda á að það eru ekki notendaráð á öllum svæðum og því er varhugavert að gera það að skyldu að afla þurfi umsagnar notendaráðs á hverju svæði fyrir sig ef einkaaðilar ætli sér að reka starfsemi á fleiri en einu svæði. Ef notendaráð eru ekki fyrir hendi á öllum þeim svæðum sem ákveðin starfsemi á að ná til þá mun reglugerðin, eins og hún er í dag, koma í veg fyrir að einkaaðilar eigi möguleika á því að fá starfsleyfi.

Að lokum vill ÖBÍ nefna sérstaklega að það var haft samráð við ÖBÍ við gerð reglugerðarinnar um starfsleyfi til einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk en ekkert samráð vegna reglugerðar um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagslega þjónustu. Reglugerðin um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu á ekki síður við um fatlað fólk og öryrkja. Fatlaðir einstaklingar og öryrkjar tilheyra réttilega þeim hópi einstaklinga sem þurfa á félagslegri þjónustu einkaaðila að halda.

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ