Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð

By 5. júní 2020No Comments
Heilbrigðisráðuneytið
Skógarhlíð 6

105 Reykjavík 

Reykjavík, 4. júní 2020
 
Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð
Því ber að fagna að fyrir liggi drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð. Þrátt fyrir góðar áherslur er reglugerðinni þó um margt ábótavant. 
 
Fyrst skal nefna að erfitt er að sætta sig við að að setja þurfi reglur um hvenær megi beita fólk ofbeldi, sem þvingun óneitanlega er. 
 
Þvingunarúrræði í heilbrigðisþjónustu samrýmast ekki þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur fullgilt og skuldbundið sig til að undirgangast. 
 
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er lögð rík áhersla á skyldu aðildarríkjanna að viðurkenna mikilvægi einstaklingsbundins sjálfræðis og sjálfstæðis fyrir fatlað fólk, þar með talið að hafa frelsi til að taka eigin ákvarðanir. Virða skal þau grundvallarréttindi fólks að hafa aðgang að viðeigandi og snemmtækri heilbrigðisþjónustu sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum og mannlegri reisn, og gera á allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fólk fyrir ofbeldi og misþyrmingum. 
 
Við meðferð sjúklinga verður ávallt að ganga út frá meginreglunni primum non nocere, eða fyrst og fremst að valda ekki skaða. Þvingun veldur þeim skaða sem fyrir verður. Kerfi sem gerir ráð fyrir þvingunum er ekki réttindamiðað.  
 

Eins og fram kemur í nýju áliti sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um geðheilbrigði er mikil þörf á að hverfa frá þeirri braut sem við höfum verið á og taka upp kerfi sem víða er að hasla sér völl og byggir meðal annars á jafningjastuðningi og réttindamiðaðri nálgun.

“The combination of a dominant biomedical model, power asymmetries and the wide use of coercive practices together keep not only people with mental health conditions, but also the entire field of mental health, hostage to outdated and ineffective systems. States and other stakeholders, specifically the professional group of psychiatry, should critically reflect on this situation and join forces already on the way towards abandoning the legacy of systems based on discrimination, exclusion and coercion.” [1]

Ísland hefur alla burði til að vera í fararbroddi og fyrirmynd annarra þjóða í meðferð fólks með geðrænan vanda. ÖBÍ styður heilshugar tillögu Geðhjálpar að ráðast í það tilraunaverkefni til þriggja ára að gera Ísland að fyrsta þvingunarlausa landinu í heiminum.
 
Einnig er rétt að benda á að þrátt fyrir að sagt sé í 2. gr. reglugerðarinnar að reglurnar gildi um „alla þvingaða lyfjameðferð sem beitt er í heilbrigðisþjónustu í tengslum við lögræðislög nr. 71/1997“,  er augljóst að reglugerð þessi er eingöngu samin með málefni fólks með geðrænan vanda í huga. Sem dæmi er minnst á geðlækna í 11. og 15. gr. Aðrir hópar sem ekki falla þar undir eru líka látnir undirgangast þvingaða lyfjagjöf, s.s. einstaklingar með heilabilun. Skýra verður hvernig heilbrigðiskerfinu er ætlað að annast þá einstaklinga við erfiðar aðstæður. 
 
Ekkert um okkur án okkar!
 
Með vinsemd og virðingu,
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, 

formaður ÖBÍ 

Emil Thoroddsen,
formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál

[1] Mannréttindaráð SÞ (2020, 15. apríl). Right of everyone to the enjoyment of the highest attainable standard of physical and mental health : Report of the Special Rapporteur on the right of everyone to the enjoyment of the highest attainable standard of physical and mental health. [bls. 6] Sótt í júní af https://undocs.org/A/HRC/44/48