Skip to main content
KjaramálUmsögn

627. mál. Fjármálaáætlun 2022–2026

By 13. apríl 2021september 1st, 2022No Comments

Nefndarsvið Alþingis
Fjárlaganefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. apríl 2021

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026, þingskjal 1084, 627. mál

Fjármálaáætlun komandi ára er mikilvæg fyrir fatlað fólk því þar koma fram upplýsingar sem varða þau með beinum hætti. Öryrkjabandalag Íslands sem eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslands telur því eðlilegt að Alþingi leiti álits þess um stefnumarkandi mál eins og fjármálaáætlun.

ÖBI skilaði síðast inn umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Margt af því sem þar kom fram varðandi stöðu og kjör öryrkja og fatlaðs fólks, á ennþá við um núverandi fjármálaáætlun.

Að þessu sinni beinist umsögn ÖBÍ aðallega að almannatryggingum.

Á bls. 75 í þingsályktunartillögunni í kafla 4.1 um stefnumið og helstu niðurstöður fjármálaáætlunar kemur eftirfarandi lýsing fram um gjöld:

„Staðinn verður vörður um tilfærslukerfi í núverandi mynd en réttindi og umsvif þeirra verða ekki aukin umfram það nema til komi breytt forgangsröðun á móti eða um sé að ræða efnahagslegar mótvægisráðstafanir.“

Það er því ljóst að stjórnvöld hafa engin áform um að bæta kjör öryrkja og fatlaðs fólks á gildistíma áætlunarinnar. Það gengur í berhögg við 28. gr. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um viðunandi lífskjör og félagslega vernd sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að fylgja. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir með feitletraðri áherslu:

„1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Yfirlýst stefna um kyrrstöðu tryggir hvorki né stuðlar að því að þessi réttur raungerist.

Undanfarinn rúman áratug hefur orðið árviss kjararýrnun almannatrygginga samanborið við lægstu laun í landinu. Krónutölumunur er nú rétt um eitt hundrað þúsund krónur, sem greiðslur almannatrygginga eru lægri lægstu launum.

Við kynningu Stefáns Ólafssonar á skýrslu sem hann er að leggja lokahönd á fyrir Eflingu stéttarfélag um lífeyriskerfið, kemur fram að fjárhæðir til almannatrygginga sem hlutfall af landsframleiðslu eru umtalsvert lægri hér en til að mynda á öðrum Norðurlöndum, svo munar tíu til fimmtán prósentu stigum þegar skoðað er árið 2017. Ísland er í flokki með Tyrklandi, Kólumbíu og Síle.

Sú fjármálaáætlun sem hér liggur fyrir, gerir ekkert til að breyta þeirri stöðu.
Í upphafi þessarar umsagnar er vitnað í fjármálaáætlunina þar sem fram kemur að engin réttindi eða umsvif verði aukin, nema til komi breytt forgangsröðun.

Önnur Norðurlönd hafa nú verið að meta ávinning af upptöku starfsgetumats, sem er væntanlega sú breytta forgangsröðun sem rætt er um. Nú nýlega kom fram í Danmörku að árangur kerfisbreytinga þar væru sá að 60% þeirra sem fara í gegnum starfsgetumat, ljúka því ferli á örorku. 40% komast inn á vinnumarkaðinn.

Til samanburðar er áhugavert að bera þessar tölur saman við atvinnu þátttöku hér. Í skýrslu Kolbeins Stefánssonar um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega árið 2019, kemur fram að atvinnuþátttaka öryrkja (einstaklinga með 75% örorkumat) er um 30%. Þar af er um 40% þeirra í fullu starfi.

Af þessu er auðvelt að draga þá ályktun að möguleiki sé að auka atvinnu þátttöku um tíu prósentustig. Afnám skerðinga, sem leiddi af sér hvetjandi greiðslukerfi í stað letjandi, er allt eins líklegt til að skila þeirri niðurstöðu.

Í skýrslu Stefáns Ólafssonar mun einnig koma fram að Íslendingar eiga heimsmet í tekjuskerðingum.

ÖBÍ hvetur eindregið til þess að greiðslur almannatrygginga til öryrkja hækki verulega og að dregið verði verulega úr tekjutengingum í kerfinu. Sérstaklega er mikilvægt að draga úr tekjuskerðingum vegna atvinnutekna. Eins og kerfið er núna virkar það einstaklega letjandi á atvinnuþátttöku öryrkja þar sem tekjuskerðingarnar eru of miklar. Samkvæmt óútkominni skýrslu Stefáns Ólafssonar sem hann hefur unnið fyrir Eflingu og kynnti nýverið á viðburði stéttarfélagsins . eiga Íslendingar heimsmet í tekjuskerðingum. Um leið minnir ÖBÍ á að fjármagn skortir inn í alla málaflokka sem viðkoma öryrkjum og fötluðu fólki s.s. heilbrigðismál, húsnæðismál, menntamál, atvinnumál o.s.frv.

Loks leggur ÖBÍ þunga áherslu á að ungmennum njóti þeirra sjálfsögðu réttinda til jafns við önnur ungmenni að búa hjá einstæðum foreldrum sem eru öryrkjar án þess að heimilisuppbót foreldrisins falli niður þegar ungmennið nær 18 ára aldri.
ÖBÍ tekur jafnframt heilshugar undir umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar sem send var inn 12. apríl 2021.

Ekkert um okkur án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður ÖBÍ