Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 213-2021. Drög að stefnu um rafleiki/rafíþróttir

By 30. nóvember 2021No Comments

Mennta-og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
101 Reykjavík

29. nóvember 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að stefnu um rafleiki/rafíþróttir

ÖBÍ fagnar stefnumótun um rafleikja- og rafíþróttastarfssemi enda hefur stafrænum áhugamálum fjölgað mikið og mörg börn og ungmenni eyða þar af leiðandi hluta frítíma síns t.d. í tölvuleikjum.

Lýðheilsa

Fram kemur að hvetja og virkja eigi fjölbreyttan hóp ungmenna til þátttöku í skipulögðu starfi.
Tryggja verður að allir hafi aðgang að skipulögðu rafíþróttastarfi og er vísað í Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), 9. grein, málsgrein 2, „stjórnvöld skulu efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu“.

Fjölbreytileika fagnað

Tekið er fram að rafleikir/rafíþróttir séu fyrir alla og mikilvægt sé að skapa aðstæður sem hvetja alla til þátttöku. Konur eru sérstaklega nefndar í því samhengi og að þeim sé skapað öruggt umhverfi. ÖBÍ leggur til að fatlað fólk sé einnig tiltekið í þessum lið og að viðeigandi aðlögun sé tryggð.

Í 30. grein SSRF kemur fram: „aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:

a) hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,
b) tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og stuðla í því skyni að framboði á viðeigandi leiðsögn, þjálfun og úrræðum til jafns við aðra,
c) tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
d) tryggja fötluðum börnum jafnt aðgengi á við önnur börn til þátttöku í leikjum, tóm-stunda-, frístunda- og íþróttastarfi, þar á meðal innan skólakerfisins,
e) tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tóm-stundastarfs, ferðamennsku. frístunda- og íþróttastarfs“.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildar-samtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Þórdís Viborg, verkefnastjóri ÖBÍ