Skip to main content
Umsögn

Mál nr. 220-2021 Drög að reglugerð um Kvikmyndasjóð

By 14. desember 2021No Comments

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
101 Reykjavík

13. desember 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að reglugerð um Kvikmyndasjóð, mál nr. 220/2021

ÖBÍ fagnar því að lögð séu drög að nýrri reglugerð um Kvikmyndasjóð þar sem meðal annars áhersla er á á jafnrétti. Í 5. grein reglugerðarinnar segir að við mat á umsóknum skuli líta til þess hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð. Jákvætt er að horfa eigi til jafnréttissjónarmiða þegar kemur að úthlutun úr Kvikmyndasjóði, en hafa verður í huga að jafnrétti snýst ekki einungis um að jafna stöðu tveggja kynja. Horfa verður á jafnréttishugtakið í mun víðara samhengi.

ÖBÍ mælir með að Kvikmyndasjóður hafi jafnréttissjónarmið í víðum skilningi að leiðarljósi við úthlutun styrkja og hvetji fatlað fólk til að sækja um í sjóðinn.

Kvikmyndagerð er afar mikilvæg enda endurspegla kvikmyndir oft á tíðum samfélagið og ríkjandi viðhorf. Innan listarinnar liggja stór tækifæri til þess að vinna að vitundarvakningu ýmissa hópa samfélagsins, fagna margbreytileikanum, brjóta niður staðalímyndir og auka sýnileika jaðarsettra hópa. Fatlað fólk er 15% mannkyns og má því áætla að um 55 þúsund Íslendinga séu fatlaðir. Sýnileiki fatlaðs fólks í kvikmyndum endurspeglar alls ekki þetta hlutfall.

Í 8. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) segir að aðildarríkin skuldbindi sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:
a) til þess að koma á vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, þar á meðal innan fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess,
b) til þess að vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, þar á meðal þeim sem tengjast kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins,
c) til þess að efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks“.
Í 30. grein, 2. málsgrein SRFF segir: „aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið“.

ÖBÍ mælir með að Kvikmyndasjóður hvetji kvikmyndargerðarfólk til að skrifa handrit sem auka sýnileika fatlaðs fólks í kvikmyndum og stuðli á þann hátt að viðhorfsbreytingu í garð fatlaðs fólks.
ÖBÍ mælir með að fatlað fólk sé sérstaklega hvatt til þess að sækja um styrki enda er það best til þess fallið að fjalla um og veita ráðgjöf um málefni sem varða fatlað fólk.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Þórdís Viborg, verkefnastjóri ÖBÍ


Nánar um málið á Samráðsgátt