Skip to main content
Málefni barnaUmsögn

Mál nr. 76-2021 Mælaborð um farsæld barna

By 6. apríl 2021september 1st, 2022No Comments

Félagsmálaráðuneytið
Skógarhlíð 6
105 Reykjavík

Reykjavík, 1. apríl 2021

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um mælaborð um farsæld barna, mál 76/2021.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar því að unnið sé að endurskoðun á félagslegri umgjörð barna á Íslandi. Hluti af þeirri vinnu er þróun mælaborðs sem nýtast á við stefnumótun og forgangsröðun opinberra aðila.

Afar mikilvægt er að stjórnvöld ætli sér að safna raunverulegum tölfræðilegum gögnum um stöðu barna en með því er hægt að fylgjast með stöðu barna út frá fjölbreyttum þáttum, varpa ljósi á það sem vel er gert og gera betur þar sem mannréttindum barna er ábótavant.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF) tilgreinir rétt fatlaðra barna sérstaklega enda segir í 1. gr. 7. gr.,  „aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn“.

ÖBÍ leggur til að SSRF og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði hafðir til hliðsjónar við gerð mælaborðsins.

Félagsmálaráðuneytið og stýrihópur Stjórnarráðsins um mælaborð óska eftir athugasemdum og hugmyndum varðandi neðangreina liði:

1) Tillögur að mælingum sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi

  • Fjöldi þeirra sem fá þjónustu hjá sveitarfélögum og fjöldi þeirra sem eru á biðlista eftir þjónustu, t.d. stuðningsfjölskyldu, liðveislu og s.frv.
  • Fjöldi þeirra sem eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðinga, sjúkraþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðiþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu
  • Meðalbiðtími eftir frumgreiningarmati hjá skólum og leikskólum
  • Fjöldi barna sem fær greiningu og meðferð hjá sálfræðingum á stofu
  • Fjöldi barna með greiningar
  • Fjöldi tilkynninga til barnaverndar
  • Fjöldi barna sem nota ferðaþjónustu fatlaðra
  • Fjöldi barna sem er ekki neinum tómstundum
  • Fjöldi barna sem eru í sérhæfðum tómstundaúrræðum
  • Fjöldi barna í sérhæfðum skólaúrræðum
  • Fjöldi barna sem verða fyrir ofbeldi og vanrækslu, hversu hátt hlutfall þeirra barna fá langtíma aðstoð/meðferð
  • Hversu mörg sveitarfélög hafa verkferla í sínum stofnunum varðandi kynferðisbrot
  • Hversu mörg sveitarfélög hafa verkferla í sínum stofnunum varðandi heimilisofbeldi
  • Hversu mörg börn eru í mataráskrift í grunnskólum
  • Hversu mörg börn eru í frírri mataráskrift
  • Skólaforðun

2) Ábendingar um gögn sem geta nýst í mælaborðið

  • Upplýsingar eru nú þegar til hjá Hagstofunni, Greiningar-og ráðgjafarstöð, sveitarfélögum, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingum Íslands, BUGL, Þroska- og hegðunarstöðinni.

3) Ábendingar um hópa barna í viðkvæmri stöðu sem ástæða er til að leggja áherslu á, annað hvort með því að draga þá sérstaklega fram í niðurbroti mælinga eða með sérstökum mælingum sem eru sértækar fyrir hópinn

  • Fötluð börn sem þurfa mikla sólarhringsþjónustu sem eingöngu er veitt af foreldrum eða fjölskyldumeðlimum
  • Fötluð börn, fjöldi þeirra sé tekin út í öllum tölfræðilegum gögnum
  • Börn sem búa við fátækt
  • Börn sem búa við ofbeldi og vanrækslu, fá þau eftirfylgni og ef svo er hvaða eftirfylgni fá þau
  • Systkini fatlaðra barna
  • Börn af erlendum uppruna

ÖBÍ vill gjarnan taka þátt í áframhaldandi vinnu við gerð mælaborðsins og minnir á að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkar, án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ