Skip to main content
Frétt

Geðhjálp er fyrirmynd Almannaheilla

By 12. nóvember 2018No Comments

„Fólk sem gerir aldrei neitt saman er ekki hægt að kalla þjóð,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og vitnaði þar í Jóhannes S. Kjarval í erindi sínu á 10 ára afmælishátíð Almannaheilla – samtaka þriðja geirans – sem fram fór í Veröld, húsi Vigdísar á dögunum. Fjöldi félaga sem tengjast Almannaheillum voru gestir í afmælinu. Þar voru líka þrír fyrstu formenn samtakanna heiðraðir. Það voru þau Guðrún Agnarsdóttir, Ragna Árnadóttir og Ólafur Proppé.

Á hátíðinni tilkynnti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, hvaða félagasamtök hljóta viðurkenninguna Fyrirmyndin 2018. Hún er veitt félagasamtökum sem starfa af fagmennsku og skipuleggja starfsemi sína með gagnsæi, þjónustu, skilvirkni og siðferði að leiðarljósi. 

Fyrirmyndina 2018 hlaut Geðhjálp og tók Hrannar Jónsson, formaður þeirra, við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins. Hrannar sagði þetta ofboðslegan heiður og væri hann stoltur að taka við þeim. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir að starfsemin sé skipulögð og val þess á verkefnum og útfærsla þeirra ber með sér að félagið vinnur afar faglega. Sérstaklega er tekið eftir að upplýsingar um fjármál félagsins eru aðgengilegar öllum, en félagið birtir ársreikninga sína á vefnum. Góður árangur félagsins birtist í velvild og trausti sem það hefur meðal þeirra sem þau starfa fyrir, stuðningaðilum og samstarfsaðilum.

Stjórn Almannaheilla óskaði Geðhjálp til hamingju með viðurkenninguna. Ketill Berg Magnússon, formaður Almannaheilla, segir almannaheillafélögin mörg með tugþúsundir félagsmanna. Þeir þjóni mörgum, gegni afar mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar og því mikilvægt að þau hafi fagmennsku og trúverðugleika að leiðarljósi.