Ályktanir ÖBÍ

Ályktanir sem samþykktar hafa verið á aðalfundum og stjórnarfundum ÖBÍ 2017-2020. Eldri ályktanir má nálgast á vefsafn.is

2020

Ályktun aðalfundar ÖBÍ - 2. og 3. október 2020

Við skilum skömminni til ríkisstjórnarinnar

Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör okkar. Sístækkandi hópur öryrkja býr við sárafátækt. Það veldur aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands miklum vonbrigðum að um áramótin 2020-2021 verði munurinn á örorkulífeyri og lágmarkslaunum orðinn kr. 86.000.

Frá árinu 2007 hefur bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað. Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá.

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt og skýla sér á bakvið Covid og slæmt efnahagsástand.

Fátækt er afleiðing skammarlegra pólitískra ákvarðana. Ekkert um okkur án okkar!

Greinargerð:

Í rúman áratug hefur stöðugt dregið í sundur með lágmarkslaunum og örorkulífeyri. Í fjárlögum hverju sinni er lífeyrir almannatrygginga hækkaður í samræmi við forsendur þeirra, sem eru ekkert annað en spá. Sjaldan ef nokkurn tímann gengur sú spá eftir, þrátt fyrir það er aldrei horft yfir sviðið og lífeyrir leiðréttur til samræmis við hvað raungerðist, líkt og við ákvörðun þingfararkaups, þar sem launaþróun er skoðuð fyrir næstliðið ár. Ári síðar eru lögð fram ný fjárlög, byggð á nýrri spá, og sagan endurtekur sig. Bilið breikkar og fátækt eykst.

Ályktunin ásamt skýringarmynd


Ályktun stjórnar ÖBÍ - 30. apríl 2020

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands hvetur ríkisstjórnina til að falla nú ekki í gamlar skotgrafir í baráttunni sem framundan er við efnahagslegar afleiðingar Covid-19 faraldursins. Engan má skilja eftir í fátækt, hvað þá sárafátækt. Í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 var gengið svo langt í niðurskurði í velferðarkerfinu, að skaðinn sem varð er enn óbættur.

Þær fordæmalausu aðstæður sem við lifum nú, kalla á nýja hugsun og nálgun við viðfangsefnin, þar sem velferð fólks verður að vera í fyrirrúmi. Með hækkun örorkulífeyris til samræmis við lágmarkslaun, vinnum við okkur hraðar út úr þeim þrengingum sem nú blasa við.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem þegar eru ljósar, ná lítið sem ekkert til öryrkja. Sinnuleysi síðasta áratugar um kjör öryrkja má ekki halda áfram í skjóli núverandi kreppu. Það er því brýnt að grípa strax til þeirra aðgerða sem forða fólki frá sárri fátækt og er eðlileg krafa á ríkisstjórn sem í samstarfssáttmála sínum ætlaði að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Nú munar um 80 þúsund krónum á örorkulífeyri og lágmarkslaunum og útlit er fyrir að kaupmáttur lífeyris minnki enn frekar, eftir að hafa nánast staðið í stað á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar. Þetta má ekki gerast í því verðbólguskoti sem nú ríður yfir.

Í rúmt ár hefur samtal við ráðherra forsætis-, fjármála- og félagsmála engu skilað og í ár hafa sömu ráðherrar ekki orðið við beiðni Öryrkjabandalagsins um fundi. Ríkisstjórn sem vinnur að útrýmingu fátæktar verður að horfast í augu við vandamálið og hefja viðræður við okkur nú þegar um lausn vandans. Lausn sem ekki getur falist í öðru en lífeyri sem tryggir mannsæmandi líf.

Tími efnda er núna.

Greinargerð

Í okkar hópi er viðkvæmasta fólkið í samfélaginu. Fólk sem er viðkvæmt fyrir líkamlega, sálrænt, félagslega og fjárhagslega. Ástandið bitnar illa á mörgum sem eru með undirliggjandi langvinna sjúkdóma, kvíðaraskanir, einhverfu, ADHD svo fátt eitt sé nefnt. Margir hafa brugðið á það ráð að fara í sjálfskipaða einangrun til að verjast veirunni.

    1. Í einangrun verður allt erfiðara. Heilsufarsáhyggjur og félagsleg einangrun hefur mikil áhrif á geð fólksins en ekki síður fjárhagurinn. Allir aðdrættir verða dýrari  og erfiðir. Framfærslulífeyrir verður verri og var bágur fyrir. Matarkostnaðurinn eykst, tekjur til annarra hluta minnka. Margir sjá fram á að þurfa að velja milli nauðsynja þ.e. læknisþjónusta eða matar, lyfja eða leigu. Í sumum tilfellum bitnar ástandið einnig á börnum og skerðir lífsgæði þeirra.

    2. Fatlað fólk og öryrkjar eru í viðvarandi áhættu um félagslega einangrun og hún eykst til muna um þessar mundir. Í þeim hópi eru margir sem eru ólíklegir til að bera sig eftir aðstoð. Stjórnvöld hafa unnið að því að koma til móts við áhættuhópa s.s. fólks með geðraskanir. Ýmis úrræði eru fyrir hendi. Í ástandi eins og nú varir skiptir miklu að kynna þau úrræði vel innan áhættuhópanna.

Aðgerðir verða að koma til, er styrkja efnahag fólksins og hækka þarf framfærslulífeyri!  Þá er upplagt að stíga fyrr þau skref sem áformuð hafa verið varðandi aukna kostnaðarþátttöku hins opinbera í heilbrigðisþjónustu, þar með talið tannlækningum, lyfjum og endurhæfingu. Að auki er mikilvægt að fólk fái handleiðslu á félagslegum og fjárhagslegum grunni þegar ástandinu linnir.

Kynna þarf sérstaklega og á vandaðan hátt aðgengi fólks að úrræðum sem draga úr hættu á að viðkvæmir hópar fólks einangri sig. Oftast sökum ótta, kvíða eða efnahagslegra erfiðleika. Hlutir sem voru erfiðir fyrir verða óbærilegir í ástandi eins og nú varir.


2019

Ályktanir aðalfundar ÖBÍ 4. og 5. október 2019

Kjör örorkulífeyrisþega

Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.
Greinargerð 
Fáir eru á lágmarkslaunum til lengri tíma og atvinnuleysisbætur eiga eingöngu að vera skammtímaúrræði þar til fólk kemst aftur í vinnu. Engu að síður er öryrkjum gert að lifa langtímum saman, jafnvel alla ævi, á tekjum sem eru langtum lægri en bæði lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur. Á árinu 2008 skildu leiðir lágmarkslauna og óskerts örorkulífeyris. Í dag er örorkulífeyrir  70 þúsund kr. lægri en lágmarkslaun. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er enga breytingu að sjá og því mun bilið aukast enn eða í 86 þúsund kr. á mánuði á næsta ári. 

Í umræðu um stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra í september 2017 sagði núverandi forsætisráðherra að ekki eigi að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Hún sagði ríkisstjórnina gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Katrín Jakobsdóttir hefur haft tvö ár til að standa við þessi orð sín. Fólk í fátækt bíður enn.  

Ekkert um okkur án okkar!

Atvinnuþátttaka örorkulífeyrisþega

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á ríkisstjórnina að láta af núverandi tekjuskerðingum gagnvart atvinnutekjum öryrkja, sem gera ekkert nema letja til þátttöku á vinnumarkaði, og taka frekar upp jákvæða hvata til að afla tekna. Þannig vinna allir. 
Greinargerð

Í tíu ár hafa lífeyrisgreiðslur til öryrkja verið skertar vegna tekna þeirra (króna á móti krónu, nú 65 aurar á móti hverri krónu) og frítekjumark vegna atvinnutekna ekki hækkað.

Í nýlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega kemur fram að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 28,5% örorkulífeyrisþega starfandi árið 2017, þar af voru 37,6% í fullu starfi. Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að meginþorri örorkulífeyrisþega vilja vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði en er í raun gert erfitt fyrir, því atvinnutekjur þeirra verða nánast að engu eftir skerðingar.

Jákvæðir hvatar til þátttöku á vinnumarkaði ættu að vera fyrsta skref í stað kerfislægra þvingana í formi starfsgetumats, enda eru örorkulífeyrisþegar best fallnir til að meta eigin starfsgetu.

Jafnframt er ljóst að stjórnvöld þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi og bjóða upp á störf, vinnutíma við hæfi og viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði og leggja þar með línuna fyrir almenna vinnumarkaðinn.

Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hvetur Alþingi til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en á haustþingi 2020.
Greinargerð 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006. Samningurinn hefur það markmið að tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.

Íslenska ríkið varð aðili að samningnum með fullgildingu 20. september 2016. Í ríkjum, sem gera skýran greinarmun á þjóðarétti og innanlandsrétti, er nauðsynlegt, til að tryggja rétt einstaklinga innanlands, að lögfesta samninga. Íslenska kerfið byggir á slíkri aðgreiningu. Fullgilding nær þess vegna, því miður, ein og sér, ekki að tryggja fötluðu fólki á Íslandi fyllilega þau réttindin sem í samningnum felast. Lögfesting myndi t.a.m. tryggja að einstaklingar gætu byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti fyrir dómstólum.

Löggjafinn er meðvitaður um þessa stöðu og samþykkti, þann 3. júní 2019, þingsályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að leggja fram frumvarp, sem hafi það að markmiði að samningurinn skuli lögfestur, fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020.  Samþykki ályktunarinnar var mikilvægt og jákvætt skref í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks.

Ríkisstjórnin er hvött til þess að vinna hratt og örugglega að málinu og tryggja að frumvarpið verði lagt fram innan gefins tímaramma. Alþingi er hvatt til þess að samþykkja frumvarpið án tafar þegar það kemur fram.

Lögfesting samningsins mun tryggja öllu fötluðu fólki á Íslandi raunverulega mannréttindavernd.

Mikilvægi mótunar stefnu í endurhæfingarmálum

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 4. og 5. október 2019 ályktar um að mikilvægt sé að fólk hafi gott aðgengi að læknisfræðilegri endurhæfingu.

Aðalfundurinn krefst þess að heilbrigðisráðherra flýti boðuðu starfi varðandi mótun stefnu í endurhæfingu, án þess þó að gæði þeirrar vinnu skerðist. Skýr stefna í endurhæfingu á að vera það leiðarljós sem notað er við innkaup slíkrar þjónustu. Fundurinn varar við gerræðislegum vinnubrögðum sem nú virðast uppi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara. Mikilvægar kerfisbreytingar verða að vera unnar í samráði við hagsmunaaðila, kröfur og útboðsgögn vel unnin og tími til þess að vinna verkefnið fyrir hendi. Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að móta stefnuna fyrst og skoða svo kerfisbreytingu í innkaupum og/eða mótun nýrra samskipta þjónustuveitenda og innkaupa á þjónustunni. 


Ályktun stjórnar ÖBÍ vegna búsetuskerðinga TR,  21. febrúar 2019

Stjórnvöld hafa viðurkennt að stór hópur örorkulífeyrisþega, yfir þúsund manns, hafi verið hlunnfarinn um yfir hálfan milljarð króna árlega, með ólöglegum útreikningi búsetuhlutfalls. Þetta byggir á áliti Umboðsmanns Alþingis sem birti álit um málið í júní 2018 og eins og áður segir hafa stjórnvöld nú loks viðurkennt brotin. Enn hefur samt sem áður ekkert gerst og hinar ólögmætu skerðingar eru enn framkvæmdar. Ljóst er að þessi framkvæmd TR á búsetuskerðingum hefur staðið í a.m.k. áratug. Það þýðir að sá hópur örorkulífeyrisþega, sem verður fyrir skerðingum vegna fyrri búsetu í aðildarríkjum EES, hefur orðið af um fimm milljörðum króna auk vaxta á þessu tímabili.

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands krefst þess að stjórnvöld stöðvi strax hina ólögmætu skerðingu og greiði örorkulífeyrir miðað við réttan útreikning búsetuhlutfalls frá og með 1. mars næstkomandi.

Stjórn Tryggingastofnunar ríkisins skuldar því fólki sem lent hefur í þessum skerðingum opinbera afsökunarbeiðni. Skaðinn verður aldrei bættur að fullu en fyrsta skrefið er að greiða til baka hverja krónu sem tekin hefur verið af örorkulífeyrisþegum.

Stjórn ÖBÍ gerir kröfu um að TR greiði búsetuskertum örorkulífeyrisþegum hinar ólögmætu skerðingar tíu ár aftur í tímann. Ekki er hægt að réttlæta það að stjórnvöld valdi örorkulífeyrisþegum tjóni í tíu ár en greiði svo einungis tæplega helming þess tjóns til baka.

Vandræðagangur stjórnvalda í þessu máli er með ólíkindum. Tryggingastofnun og ráðuneytin vísa hvert á annað og halda þannig áfram þeim ljóta leik að skerða réttindi fólks í andstöðu við lög.

Ekkert um okkur án okkar!


2018

2017