Fundargerð aðalstjórnar 14. janúar 2015

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 14. janúar 2015 kl. 17.00 – 19.00 á Grand hóteli, Sigtúni 38, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
CCU samtökin – Edda Svavarsdóttir
Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval
FAAS – Árni Sverrisson
Félag CP á Íslandi – Björn Valdimarsson
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Fjóla – Friðgeir Jóhannesson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðhjálp – Maggý Hrönn Hermannsdóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heilaheill – Axel Jespersen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF – Félag flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Jón Pétur Sævarsson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Jóna Hrafnborg Kristmannsdóttir
MG félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Snorri Már Snorrason
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Arnar Helgi Lárusson
Sjálfsbjörg – Bergur Þorri Benjamínsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin – Íris Árnadóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir
Kristín M. Bjarnadóttir
Þórný Björk Jakobsdóttir

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður ÖBÍ, Ellen Calmon, setti fund kl. 17:05 og lagði til að Erna Arngrímsdóttir yrði fundarstjóri og tímavörður. Samþykkt. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerð frá 10. desember 2014 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Á döfinni - skýrsla formanns.

Formaður sagði spennandi tíma fram undan, árið byrjaði með áhlaupi og hefðu fjölmiðlar leitað til ÖBÍ m.a. vegna starfsgetumats, ferðaþjónustu fatlaðra og lítillar hækkunar bóta TR.

Öllum ofbýður hvernig ferðaþjónusta fatlaðs fólks hefur verið rekin í höndum nýs þjónustuaðila, Strætó. Fjölmiðlaumfjöllun hefur verið gríðarleg. Tala þarf um ferðaþjónustuna sem almenningssamgöngur og ætti fatlað fólk að geta keypt sér árskort, mánaðarkort eða annað sem þarf til að geta ferðast með strætó almennt. Fólki er ekki veittar ferðir, það greiðir fyrir ferðirnar og greiða þarf hærra gjald fyrir fleiri ferðir en 60. Hámarksferðir eru 80. ÖBÍ hefur tilnefnt Andra Valgeirsson, Sjálfsbjörg, í þjónustuhóp vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Nefnd um umönnunargreiðslur barna á vegum velferðarráðuneytisins hefur hafið störf án aðkomu ÖBÍ og bað formaður um að ÖBÍ fengi fulltrúa í nefndinni. Beiðni um tilnefningu í nefndina hefur borist og hafa aðildarfélögin fengið tölvupóst þess efnis. Kosið verður um einn aðila úr þeim hópi sem tilnefndir verða af félögunum.

Formaður hefur óskað eftir fundi með félags- og húsnæðismálaráðherra vegna starfsendurhæfingarmála en mikilvægt er að allir sem vilja fái endurhæfingu. Grunnur á útreikningum endurhæfingarlífeyris þarf að vera stjórnvaldsákvörðun og lúta lögum þar um. Ekki eru allir sammála um að VIRK þurfi að lúta þeim lögum og ætti þjónustan því hugsanlega frekar heima hjá opinberri stofnun.

Einnig hefur verið óskað eftir fundi vegna örorkulífeyrishækkana sem voru mun minni en vonir stóðu til og fundi með fjármálaráðherra vegna fjárlaga 2016. Nefnd um lífeyrismál sem Pétur Blöndal stýrir hefur störf eftir nokkurt hlé en skýrsla ÖBÍ um starfsgetumat er á síðustu metrunum. Halda þarf auka aðalstjórnarfund til að kynna og ræða um skýrsluna.

Kjarahópur ÖBÍ, nefnd ÖBÍ um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og nefnd um algilda hönnun eru mjög virk í sínu starfi og vinna að myndbandagerð varðandi SRFF. Hóparnir eru opnir og einungis þarf tilnefningu síns aðildarfélags til að komast í hópana.

Stefnumótunarfundur um algilda hönnun verður haldinn 22. janúar 2015 í Sigtúni 42, þar sem vefurinn aðgengi.is verður skoðaður með endurbætur í huga. Fundurinn er opinn öllum en það þarf að skrá sig á hann.

Formaður mun starfa á Akureyri frá 22. til 27. janúar og hittir m.a. aðildarfélög og aðra sem það vilja þar.

4.  Starfs- og fjárhagsáætlun ÖBÍ 2015.

a)    Starfsáætlun 2015lögð fram til samþykktar.

Formaður leitaði eftir athugasemdum eða ábendingum við starfsáætlun ÖBÍ 2015. Engar athugasemdir bárust. Formaður sagði starfsáætlunina vera grófan ramma um það hvernig fjármunum ársins verður varið og að með samþykki hennar væri formanni og framkvæmdastjóra falið að nýta fé á skynsamlegan hátt miðað við þau verkefni sem þar kæmu fram.

Starfsáætlunin var samþykkt samhljóða.

b)   Fjárhagsáætlun 2015 lögð fram til samþykktar.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að fjárhagsáætlun hafi verið lögð fyrir aðalstjórn 10. desember 2014. Áætlunin er nánast óbreytt síðan þá, vaxtatekjur hafa verið lækkaðar um 1,5 milljón kr. Tekjur síðasta árs voru mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir en ekki má gera ráð fyrir endalausri hækkun á tekjum.

Framkvæmdastjóri fór yfir ráðstöfun tekna og styrki. Gert er ráð fyrir tapi árið 2015 en mun handbært fé sem til er verða notað til að brúa það bil. Fjármagn þarf að vera til vegna breytinga í B álmu, breyta þarf sal í nokkrar skrifstofur sem leigðar verða út. Reynt verður að láta arf Ólafs Gísla Björnssonar duga.

Umræður og fyrirspurnir

Einn fulltrúi sagði að sér fyndist áætlunin ævintýraleg. Meðal annars hafi einungis 55 milljónum af 70 verið ráðstafað til aðildarfélaga ÖBÍ fyrstu 9 mánuði ársins. Innheimta félögin ekki styrkina, þurfa þau ekki á þeim að halda? Liðurinn aðrir styrkir væri mjög hár og fannst undarlegt af hverju innlent hjálparstarf væri ekki hluti af öðrum styrkjum. Fannst út í hött að eyða 25 milljónum í auglýsingar og kynningar. Einnig fannst honum liðurinn aðkeypt ráðgjöf ótrúlega hár og ævintýraleg hækkun á kostnaði við skrifstofu ÖBÍ eða um 29% frá 2013. Hann fagnaði hækkun á framlagi til Brynju hússjóðs.

Framkvæmdastjóri svaraði því til að styrkir séu greiddir til aðildarfélaganna þegar þau senda inn undirritaðan ársreikning og að enn eigi 4 félög eftir að sækja sína styrki. Aðrir styrkir eru til aðila sem starfa að málefnum fatlaðs fólks í þjóðfélaginu en heyra ekki beint undir aðildarfélög ÖBÍ, sem dæmi er Halaleikhópurinn, Íþróttasamband fatlaðra, List án landamæra og Hringsjá. Innlent hjálparstarf hefur alltaf verið sérstakur liður og hafa Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar fengið styrki. Varðandi auglýsingar og kynningar þá hefur verið kallað eftir sýnileika bandalagsins og er stefnt að því að auka það, þetta hefur verið rætt á aðalfundum og aðalstjórnarfudum ÖBÍ. Þó svo að gert sé ráð fyrir ákveðnu fjármagni í fjárhagsáætlun í liði eins og aðkeypta þjónustu þá er það ekki alltaf nýtt. Oft er leitað til sérfræðinga vegna sérverkefna í stað þess að ráða starfsfólk. Ekki er hægt að bera saman kostnað við skrifstofu ÖBÍ árin 2013 og 2014 því laun og launatengd gjöld vegna samninga hafa hækkað og einnig hefur starfsfólki fjölgað, sumir eru ráðnir tímabundið og aðrir til lengri tíma. Bandalagið tekur þátt í fleiri verkefnum en áður, aukið samráð er við stjórnvöld, ÖBÍ sinnir hlutum sem aðildarfélögin sinntu áður, aðildarfélögum hefur fjölgað og kallar það á aukna umsýslu. Ástandið er frekar þannig að ekki tekst að vinna að öllum þeim málum sem óskað er eftir.

Annar fulltrúi sagði að áætlunin væri í anda starfsáætlunar sem samþykkt var fyrr á fundinum. Könnun var gerð á ímynd bandalagsins fyrir nokkru síðan og kom bandalagið ekki vel út úr henni, því er þörf á að auglýsa bandalagið og bæta ímyndina. Slík þjónusta er dýr.

Formaður sagði að mikilvægt væri að bandalagið væri vel vakandi yfir fjármálunum og því hefði starfsáætlun verið sett upp sem fylgir fjárhagsáætlun. Endurskoða þarf laun starfsfólks skrifstofu. Kynningarátak og myndbönd nýtast í framtíðinni. Vinna þarf faglega, ekki að byggja hluti upp á tilfinningum heldur að leita til sérfræðinga og greiða þarf fyrir slíka þjónustu.

Fjárhagsáætlunin var lögð fram til atkvæðagreiðslu og samþykkt.

c)    Ráðstöfun rekstrarhagnaðar ársins 2014.

Framkvæmdastjóri sagði að bráðabirgðaniðurstöður sýni að tekjur ársins 2014 séu um 80 milljónir. Fjármagn hefur verið notað í framkvæmdir í Sigtúni og er það ekki talið með í rekstrarhagnaði. Lausafjárstaða er góð þar sem rekstrarafgangi fyrri ára hefur ekki verið ráðstafað öllum. Afgangur af arfi Ólafs verður nýttur til að breyta hluta af B álmu til útleigu.

Framkvæmdastjórn ÖBÍ leggur til að 71 milljón af rekstrarhagnaði verði skipt á milli aðildarfélaga og fyrirtækja ÖBÍ. Aðildarfélög ÖBÍ fái 53 milljónir, Brynja hússjóður 10 milljónir, Hringsjá 5 milljónir, sem hugsað er til að greiða niður lán við ÖBÍ, Örtækni 1 milljón, TMF Tölvumiðstöð 1 milljón, Fjölmennt 1 milljón og ef afgangur verður fer hann í varasjóð ÖBÍ.

Tillaga framkvæmdastjórnar um ráðstöfun rekstrarhagnaðar var samþykkt.

Kaffi, 10 mínútna hlé.

5.  Stefnuþing 27. og 28. mars nk.

Formaður las 22. grein í 5. kafla nýrra laga ÖBÍ um stefnuþing. Reynt hefur verið að finna sal og er tillaga um að halda þingið föstudaginn 27. og laugardaginn 28. mars 2015.

Bent var á að fyrsti ársfjórðungur væri til loka apríl og óskað var eftir því að halda þingið í apríl því hugsanlega væri færð betri á þeim tíma fyrir fólk utan af landi. Einnig var bent á að Hótel Selfoss væri með gott aðgengi og því ætti sá staður að koma til greina sem þingstaður. Fundarmenn voru beðnir um að athuga hvort aðalfundir aðildarfélaganna væru skipulagðir í apríl, svo að þingið lendi ekki á sömu helgi.

Formaður sagði að undirbúa þurfi praktísk atriði varðandi stefnuþingið, það er fyrirkomulag og framkvæmd. Framkvæmdastjórn biður um umboð aðalstjórnar til að ráða verkefnastjóra til að stjórna þinginu og skipa 5 manna undirbúningshóp honum til aðstoðar. Mikilvægt þykir að formaður ÖBÍ, fulltrúi laganefndar og skipulagsnefndar séu hluti af hópnum.

Samþykkt samhljóða að veita framkvæmdastjórn umboð.

6.  Fundaráætlun 2015.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að næsti aðalstjórnarfundur í febrúar verði haldinn á fimmtudegi, venjulega eru fundirnir á miðvikudögum. Næstu fundir þar á eftir eru skráðir 7. maí og 9. september. Gera þarf ráð fyrir að aukafundir verði boðaðir. Framkvæmdastjórnarfundir eru almennt tvisvar í mánuði með undantekningum þó. Aðalfundur ÖBÍ verður haldinn 3. október 2015. Fulltrúar voru beðnir um að hafa áhrif á það innan sinna aðildarfélaga að uppákomur verði ekki á sama tíma.

Lagt var til að aðalstjórnarfundir yrðu haldnir í sameigninni í Sigtúni 42. Spurt var hvort ekki væri hægt að skipta fundunum niður á miðvikudaga og fimmtudaga þar sem misjafnt er hvenær menn geta mætt. Framkvæmdastjórn var falið að skoða málið með tilliti til athugasemda sem komið hafa fram.

7.  Önnur mál.

a) Ferðaþjónusta fatlaðra.

Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg, ræddi það ófremdarástand sem ríkir varðandi ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði að of seint hafi verið kallað eftir samráði, ÖBÍ og Sjálfsbjörg hafi sent umsagnir um málið en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra. Ferðafjöldi er takmarkaður eða 60 ferðir. Hægt er að óska eftir fleiri ferðum, Reykjavík er erfiðast hvað það varðar og þar hækkar gjald ferðanna töluvert eða í 1.100 kr. Hámarksfjöldi ferða eru 80 og meðaltal 20 ferðir á mánuði. Hin sveitarfélögin hafa ekki breytt gjaldskrá sinni þó svo að ferðir fari yfir 60 á mánuði. Andri Valgeirsson, Sjálfsbjörg, er fulltrúi ÖBÍ í þjónustuhóp sem var stofnaður og var hann boðaður á fund 14. janúar. Eftir fundinn verður viðtal við Andra á RÚV. Annar fundur er áætlaður þar sem öll sveitarfélög höfuðborgar-svæðisins koma saman til að ræða málin ásamt fulltrúum ÖBÍ. Stofnaður var lokaður Facebook hópur um málið. Þeir sem vilja koma í hann hafi samband við Berg.

Nefnt var að fundur hefði verið haldinn þar sem fram kom að Strætó viðurkenni að málið sé klúður en mikill vilji er til að lagfæra ástandið og því séu fulltrúar Velferðarsviðs Reykjavíkur í daglegum samskiptum við Strætó. Tilfinningin er sú að þetta snúist ekki um peninga heldur um það að einungis 3% fólks nýti sér fleiri ferðir en 60 á mánuði og því sé ekki þörf á breytingum hvað það varðar en líklegt er að verðskrá verði breytt. Nú hafa 8 bílstjórar sagt upp störfum sem lofar ekki góðu. Takmörkun ferða er ekki atvinnuhvetjandi og má ekki draga úr virkni fólks með þessu.

Fram kom að þrír fatlaðir einstaklingar unnu í mörg ár hjá Ferðaþjónustu fatlaðra og voru þeir einnig notendur þjónustunnar. Þeim var öllum sagt upp störfum þar sem þeir treystu sér ekki til að vinna fullan vinnudag. Ekkert samráð var haft við þetta fólk. Harkalega var farið í uppsagnir á bílstjórum og skrifstofufólki. Áður en Strætó tók yfir þjónustuna var talað um að hún væri of stór í sniðum til að vera á einni hendi. Fólk var hvatt til að láta vita af mistökum því væntanlega er ekki nema lítill hluti tilkynntur.

Blindir og sjónskertir eru með samning við Reykjavíkurborg um að þeir geti fengið fengið leigubíl á strætóverði, það er ákveðinn fjölda ferða á mánuði sem skipt er niður í einkaerindi, lækniserindi, skóla, vinnu o.s.frv. Ef farið er yfir 60 ferðir greiðir fólk fullt verð, fyrir utan 21% afslátt sem leigubílastöðin veitir. Hægt er að hringja hvenær sem er og fá bíl en ekki er hægt að færa ferðir milli mánaða. Hugsunin um að ekki sé hægt að gera þetta eða hitt er ríkjandi því að alltaf er sú hætta fyrir hendi að of margar ferðir hafi verið farnar. Fólk fær ferðaþjónustu í því sveitarfélagi sem það á lögheimili í, ef fólk þarf að fara til Reykjavíkur í læknisheimsóknir fær það ekki ferðaþjónustu þar þó svo það þurfi á henni að halda. Einnig kom fram að í raun væri um tvö aðskilin mál að ræða, það er akstursfyrirkomulagið og síðan kostnaðarhlutinn.

Formaður sagði að hugsanlega nýttu einungis 3% fleiri ferðir en 60 á mánuði af því að hinir hafa ekki efni á því og geta því ekki nýtt sér það þó svo að þeir vildu. Rætt verður við fólkið sem sagt var upp störfum. Hugsanlega tilkynna ekki allir mistök sem orðið hafa vegna hræðslu. Dæmi er um að bílstjóri hafi skammað farþega fyrir að hafa kvartað undan sér. Sömu reglur ættu að gilda um ferðaþjónustu fatlaðs fólks og aðrar almenningssamgöngur, það sé brot á mannréttindum að fylgst sé með einkalífi fólks. Vilji er til að laga þetta, samráðið er of seint en það þarf að hjálpa þeim til að laga þetta svo að þjónustan verði eins og hún á að vera.

Lagt var til að aðalstjórnarfundurinn sendi frá sér ályktun vegna málsins.

b) Aðalstjórnarfundur 10. desember 2014.

Maggý Hermannsdóttir, Geðhjálp vildi koma því á framfæri að á aðalstjórnarfundi 10. desember urðu mistök og mætti hún á fundinn ásamt Þórði Ingþórssyni aðalfulltrúa Geðhjálpar. Maggý yfirgaf fundinn og var ekki í matnum.

c) Ályktun.

Formaður lagði fram eftirfarandi ályktun:

„Aðalstjórnarfundur ÖBÍ miðvikudaginn 14. janúar 2015 sendir frá sér meðfylgjandi ályktun.

Aðalstjórn ÖBÍ krefst þess að sveitarstjórnir framfylgi þeim lögbundnu skyldum sem þeim ber er varðar ferðaþjónustu faltaðs fólks. Eins og ferðaþjónustunni er nú fyrirkomið lítum við svo á að sú skerðing á ferðafrelsi og það þjónustuleysi og mistök sem eiga sér stað daglega sé brot á frelsi og mannréttindum fatlaðs fólks.“

Ályktunin var samþykkt með þeim fyrirvara að skrifstofa ÖBÍ lagfæri málfræði áður en hún verður send út fimmtudaginn 15. janúar.

9. Fundarslit.

Formaður sleit fundi kl. 19:07.

Fundarritarar:  Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.