Skip to main content
Frétt

Upplýsingar vegna Covid19 veirunnar.

By 29. febrúar 2020No Comments
Nú þegar smit vegna Covid19 veirunnar hefur greinst á Íslandi er rétt að setja hér fram helstu upplýsingar. Embætti landlæknis er með á heimasíðu sinni ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar til fólks.

Það hefur verið áberandi í umræðu að þeir sem helst eru útsettir fyrir alvarlegri áhrifum veirunnar séu fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu landlæknis er það þó ekki staðfest, en þar segir: „Enn er ekki búið að skilgreina nákvæmlega áhættuhópa m.t.t. alvarlegrar sýkingar. Flestir sem létust á fyrstu vikum faraldursins voru aldraðir og með undirliggjandi sjúkdóma s.s. hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki eða lifrarsjúkdóma. Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu. Lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna en upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er.“

Við hvetjum þig til að lesa þér til á heimasíðu landlæknis, þar sem ítarlegar upplýsingar er að finna og fylgja þeim leiðbeiningum sem þar er að finna, helstum þeim að gæta vel að hreinlæti. Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta. Grímur nýtast best þegar þeir sem eru veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðila í samfélaginu þegar þeir hlúa að veikum. Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur.

Einnig má finna ítarlegar upplýsingar á ensku á heimsíðu World Health Organisation, sem tekið hefur saman og birt mikið efni.