Fundargerð 2. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 25. október 2018

Fundargerð 2. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 25. október 2018, kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

 

Myndataka var í upphafi fundar.

 

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:17. Framlögð dagskrá var samþykkt.

 

2.   Kynning stjórnarmanna.

Fulltrúar kynntu sig.

 

3.   Fundargerðir frá 11. og 27. september 2018.

Fundargerðirnar voru sendar fyrri stjórn. Ef engar athugasemdir berast fyrir lok fimmtudagsins 1. nóvember teljast þær samþykktar.

 

4.   Fundargerð frá 10. október 2018.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

 

5.   Skýrsla formanns.

Formaður sendi skýrslu sína fyrir fundinn. Engar umræður voru um skýrsluna.

 

6.   Skipan fulltrúa í framkvæmdaráð: 2 aðalmenn og 2 varamenn.

Eftirfarandi fulltrúar gáfu kost á sér og voru sjálfkjörnir í framkvæmdaráð:

Aðalmenn: Dóra Ingvadóttir og Frímann Sigurnýasson.

Varamenn: Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Sævar Pálsson.

 

7.   Skipan málefnahópa ÖBÍ. Staðan.

Eftirfarandi málefnahópa vantar fulltrúa fram að næsta aðalfundi:

Málefnahóp ÖBÍ um aðgengismál vantar 1 varamann.

Málefnahóp ÖBÍ um atvinnu- og menntamál vantar 1 varamann.

Málefnahóp ÖBÍ um kjaramál vantar 2 varamenn.

Málefnahóp ÖBÍ um sjálfstætt líf vantar 1 varamann.

Málefnahóp ÖBÍ um málefni barna vantar 1 aðalmann og 1 varamann.

 

Beiðni um tilnefningar í málefnahópana verður send aðildarfélögum ÖBÍ.

 

8.   Skipan fulltrúa í nefnd um réttindi starfsmanna sem veita NPA.

Bréf barst frá Velferðarráðuneytinu þar sem óskað var tilnefninga í nefnd um réttindi starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Samþykkt var að bjóða málefnahóp ÖBÍ um sjálfstætt líf að skipa í nefndina.

 

9.   Brynja hússjóður. Staðan í húsnæðismálum / biðlistar.

Garðar Sverrisson, formaður Brynju hússjóðs, kynnti stöðu húsnæðismála hjá hússjóðnum. Kerfið er í raun sprungið sem úrræði. Í ársbyrjun 2015 voru tæplega 200 á biðlista, nú í árslok 2018 eru þeir 600. Það er engin lausn fyrir sveitarfélög og ríki að vísa öryrkjum til Brynju hússjóðs. Eins og staðan er nú gæti það tekið um 10 ár að leysa úr vanda þeirra sem eru á biðlista og það hjálpar engum að hann lengist enn frekar. Stjórn Brynju hefur því ákveðið að taka ekki við fleiri umsóknum í bili.

Umræður voru um ákvörðun stjórnar Brynju og voru skoðanir skiptar. Knýja þarf á úrbætur hjá stjórnvöldum og þrýsta á alþingismenn. Stjórnvöld taka vonandi fljótlega við sér og því ætti aðgerðin einungis að vera tímabundin.

 

10. Tillaga um aðgengiseftirlit frá formanni SEM samtakanna lögð fram á aðalfundi sem var vísað til stjórnar.

Formaður las upp tillögu um aðgengiseftirlit sem lögð var fram á aðalfundi ÖBÍ af Arnari Helga Lárussyni, formanni SEM samtakanna. Aðalfundur vísaði málinu til stjórnar. Lagt var til að tillögunni yrði vísað áfram til málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál til úrvinnslu. Málefnahópurinn kæmi niðurstöðum hópsins til stjórnar 22. nóvember. Samþykkt, 1 sat hjá.

Formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál lagði fram dagskrártillögu þannig að tekin verði fyrir yfirlýsing ÖBÍ vegna dóms Hæstaréttar sem féll 25. október í máli Arnars Helga Lárussonar og SEM samtakanna gegn Fasteignafélaginu Fasteign ehf. og Reykjanesbæ. Í dómi Hæstaréttar kemur skýrt fram að fötluðu fólki er ekki tryggður jafn réttur til samfélagsþátttöku. Áhugi er á að koma yfirlýsingunni í fréttir. Samþykkt var að yfirlýsingin verði send á fjölmiðla.

 

11. Verklagsreglur stjórnar.

Formaður hvatti nýja fulltrúa til að kynna sér verklagsreglur stjórnar, sem samþykktar voru 28. september 2017. Verið er að útbúa verklagsreglur fastra málefnahópa ÖBÍ. Þegar þær liggja fyrir mun stjórn fá þær til kynningar og afgreiðslu. Í kjölfarið þarf að endurskoða verklagsreglur stjórnar með tilliti til verklagsreglna málefnahópa og laga ÖBÍ með þeim breytingum sem orðið hafa.

Umræður voru um verklagsreglur stjórnar. Lagt var til að framkvæmdaráði verði falið að koma með beinagrind að því hvers konar mál framkvæmdaráð hefði umsjón með og hvers konar mál ættu heima hjá stjórn. Samþykkt, 2 sátu hjá.

Upplýst var um að fundargerðir stjórnar eru komnar inn á heimasíðu ÖBÍ í styttri útgáfu. Unnið er að því að allar fundargerðir stjórnar frá aðalfundi 2017 fari inn á heimasíðu ÖBÍ.

 

12. Næstu stjórnarfundir.

Næstu stjórnarfundir eru áætlaðir 22. nóvember og 13. desember.

 

13. Önnur mál.

a) Stöðuskýrsla vegna aðgengis að viðburðum ÖBÍ.

Minnt var á ákvörðun stjórnar varðandi aðgengi að viðburðum ÖBÍ. Málinu var vísað til málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál sem sendi fyrirspurnir til aðildar-félaga bandalagsins. Verið er að vinna úr svörunum og mun málefnahópurinn skila stöðuskýrslu um málið fyrir árslok.

 

c) Fjölmiðlaumfjöllun.

Formaður sagði frá því að áskorun var send inn á þing ASÍ 24. október þar sem beðið var um að þingið yrði í virku samráði við ÖBÍ. Beðið var um að áskorunin yrði lesin upp á þinginu. Málið var tekið fyrir 25. október og ákveðið að afgreiða það 26. október. RÚV hafði samband við ÖBÍ varðandi áskorunina.

RÚV hafði einnig samband í tengslum við tillögu heilbrigðisráðherra um lengingu á þungunarrofi. Yfirlýsing var send út um málið.

 

Fundi var slitið kl. 18:23.

 

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.