Fundargerð 3. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 22. nóvember 2018

Fundargerð 3. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 22. nóvember 2018, kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:05.

 

2.   Fundargerð frá 25. október 2018.

Fundargerðin var samþykkt.

Samþykkt var að framvegis verði fundargerðir stjórnar samþykktar í tölvupósti.

 

3.   Skýrsla formanns.

Skýrslan var send til fulltrúa fyrir fundinn. Formaður upplýsti um eftirfarandi skipanir:

Fulltrúar ÖBÍ í nefnd um réttindi starfsmanna sem veita NPA:

Aðalmaður:   Rúnar Björn Herrera Þorkelsson

Varamaður:  Þuríður Harpa Sigurðardóttir

 

Fulltrúar ÖBÍ í samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks skv. 36. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

 

4.   Fjárlög ríkisins 2019. Farið yfir stöðu mála og viðbrögð ÖBÍ.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á fjárlögum ríkisins 2019 frá fyrstu umræðu. Í fjárlögum 2019 var gert ráð fyrir að 4 milljarðar færu í almannatryggingakerfið en nú hefur sú upphæð verið skorin niður um 1,1 milljarð. Talað hefur verið við Willum Þór Þórsson, formann fjárlaganefndar og Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra vegna málsins.

Fundir voru haldnir með Drífu Snædal, formanni ASÍ, Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar um kjaramál.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

Ályktun stjórnar ÖBÍ 22. nóvember 2018

Orð skulu standa!

Hvar er virðingin?

Stjórn ÖBÍ krefst þess að þeir 4 milljarðar sem lofað var að settir yrðu inn í almannatryggingakerfið til að hefja leiðréttingar á kjörum öryrkja skili sér án tafar.

Stjórn ÖBÍ lítur á afgreiðslu annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið sem alvarleg svik við gefin loforð.

ÖBÍ lýsir eftir því „góða samráði“ sem ríkisstjórnin er stöðugt að hreykja sér af.

Óskertur örorkulífeyrir er einungis 238.594 kr. á mánuði.

 

5.   Skipan fulltrúa í málefnahópa ÖBÍ.

Fulltrúa vantar í eftirfarandi málefnahópa til eins árs, fram að aðalfundi ÖBÍ 2019:

Aðgengi                                 1 varamann

Atvinnu- og menntamál         1 varamann

Kjaramál                                2 varamenn

Sjálfstætt líf                           1 varamann

Málefni barna                        1 aðalmann og 1 varamann

 

Kallað var eftir tilnefningum frá aðildarfélögum bandalagsins. Nöfn þeirra sem stjórn kaus til setu í málefnahópunum eru feitletruð:

Málefnahópur um aðgengismál, engar tilnefningar bárust um 1 varamann og bauð Magnús Þorgrímsson, Hjartaheill sig fram á fundinum.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál, 2 tilnefningar bárust um 1 varamann.

Hrannar Björn Arnarsson, ADHD samtökunum og Snæbjörn Áki Friðriksson, Málbjörg.

Málefnahópur um kjaramál, 2 tilnefningar bárust um 2 varamenn.

Snæbjörn Áki Friðriksson, Málbjörg og Bergþór Heimir Þórðarson, Geðhjálp.

Málefnahópur um sjálfstætt líf, 1 tilnefning barst um 1 varamann.

Ingibjörg Snorra Hagalín, MS félagi Íslands.

Málefnahópur um málefni barna, 3 tilnefningar bárust um 1 aðal- og 1 varamann.

Áslaug Inga Kristinsdóttir, Geðhjálp (vara), Kolbrún Stígsdóttir, Samtökum um endómetríósu og Sif Hauksdóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands (aðal).

 

6.   Tillaga um aðgengiseftirlit frá formanni SEM samtakanna lögð fram á aðalfundi sem var vísað til stjórnar. Framhald.

Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM samtakanna, lagði fram tillögu um aðgengiseftirlit á aðalfundi. Stjórn beindi málinu til málefnahóps um aðgengismál.

Málefnahópurinn styður tillöguna með ákveðnum fyrirvörum. Verkefnið verði tímabundið, með möguleika á framlengingu, það fari fyrst af stað eftir góðan undirbúning, starfsmenn geti unnið sjálfstætt og þrýst verði á stjórnvöld að koma á viðvarandi aðgengiseftirliti. Skilgreiningu vantar á því hvað telst aðgengi og hverju aðgengiseftirlit eigi að skila. Skilgreina þarf verkefnið betur. Samþykkt að senda tillöguna til aðgengishóps til nánari útfærslu.

 

7.   Verklagsreglur málefnahópa ÖBÍ. Til kynningar og umfjöllunar.

Framkvæmdaráði var falið að vinna að verklagsreglum málefnahópa ÖBÍ upp úr hugmyndum Svavars Kjarrval. Drög að verklagsreglunum eru tilbúin og voru fulltrúar beðnir um að lesa reglurnar yfir og koma með athugasemdir eftir áramót. Þegar verklagsreglurnar hafa verið samþykktar verða þær birtar á heimasíðu ÖBÍ.

 

8.   Næstu stjórnarfundir.

Næsti stjórnarfundur er áætlaður 13. desember.

9.   Önnur mál.

a) Hjálpartækjasýning.

Fyrr á árinu var erindi vísað til málefnahóps um heilbrigðismál, þess eðlis að málefnahópurinn skipulegði eða færi í hópferð á tiltekna hjálpartækjasýningu. Upplýst var að hópurinn mun ekki skipuleggja slíka ferð, þar sem vinna hópsins felst í öðru.

 

b) Málþing Húmanistaflokksins.

Bréf barst frá Húmanistaflokknum þar sem formanni ÖBÍ var boðið að halda erindi á málþingi sunnudaginn 25. nóvember, en hún kemst því miður ekki. Ef stjórnarmenn hafa áhuga eða tíma til að fara og tala um jafnrétti og réttindi öryrkja þá er það velkomið.

 

c) Málþing um húsnæðismál.

Málefnahópur um kjaramál hefur ekki tíma til að skipuleggja málþing um húsnæðismál, því of mörg mál eru á þeirra könnu. Stjórn getur séð um að slíkt málþing verði haldið.

 

Fundi var slitið kl. 19:11.

 

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.