Fundargerð 4. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 13. desember 2018

Fundargerð 4. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 13. desember 2018, kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:07.

2.   Fundargerð frá 22. nóvember 2018.

Ein athugasemd var gerð við fundargerðina og var hún samþykkt með áorðnum breytingum.

3.   Starfsáætlun ÖBÍ 2019. Kynning.

Formaður fór yfir helstu atriði sem fram koma í drögum að starfsáætlun 2019. Bað fólk um að lesa hana yfir og koma með athugasemdir í janúar ef einhverjar væru.

4.   Fjármál ÖBÍ. Kynnt tillaga framkvæmdaráðs.

a) Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2019.

Framkvæmdastjóri fór yfir drög að fjárhagsáætlun 2019.

Dóra tók við fundarritun á meðan rætt var um starfsmannamál.

Framkvæmdastjóri greindi frá starfsmannamálum og gerði grein fyrir skýringum á hækkunum á launum starfsmanna í fjárhagsáætlun, en laun þeirra hafa dregist aftur úr.

Samkvæmt drögum að fjárhagsáætlun 2019 er rekstrarafgangur rétt rúmar 12 milljónir króna. Lagt var til að laun starfsmanna yrðu hækkuð frá og með 1. október 2018. Samþykkt.

b) Úthlutun aukagreiðslu frá Íslenskri getspá.

c) Ráðstöfun rekstrarafgangs 2018.

Tillögum framkvæmdaráðs um ráðstöfun aukaframlags frá Íslenskri getspá og rekstrarafgangi 2018 var dreift meðal fundarmanna. Samþykkt var að greiða aukaframlagið til aðildarfélaga ÖBÍ í janúar 2019.

5.   Tillaga að aðgengiseftirliti / átaki. Framhald.

Formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál, kynnti tillögur hópsins. Verkefnið er hugsað sem átaksverkefni í 6 mánuði. Leggja á áherslu á opinberar byggingar, verslunarkeðjur og stóra aðila. Gögnum verður safnað og farið í þrjár herferðir. Myndbönd verða gerð sem nýtast í herferðum og kennslu. Skýrsla verður útbúin.

Kostnaðaráætlun er upp á 11 milljónir. Herferðirnar eiga að styrkja lokamarkmiðið sem er að koma á almennilegu aðgengiseftirliti á vegum yfirvalda. Málefnahópur um aðgengismál mun vera stýrihópur verkefnisins.

Samþykkt var að fara í aðgengiseftirlit / átak til hálfs árs.

6.   Aðgengi að viðburðum ÖBÍ. Stöðuskýrsla.

Formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál, fór yfir málið. Spurningalisti var lagður fyrir öll aðildarfélögin og um helmingur svaraði. Þarfir aðildarfélaganna stangast stundum á. Allir viðburðir ÖBÍ eru rittúlkaðir, táknmálstúlkaðir og með tónmöskva. Upptökur eru vistaðar og aðgengilegar á heimasíðu.

Þessar upplýsingar ásamt ítarlegri leiðbeiningum bætast við tékklista sem til var fyrir starfsfólk sem skipuleggur atburði á vegum ÖBÍ. Ef fólk er með sérþarfir getur það beðið um fleira en í boði er og reynt verður að verða við því eftir megni.

7.   Skýrsla formanns.

Formaður fór yfir helstu atriði skýrslu sinnar.

8.   Fundaráætlun 2019.

Fundaráætlun 2019 er inni í drögum að starfsáætlun og voru fulltrúar beðnir um að fara yfir hana.

9.   Önnur mál.

a) Einnota hjúkrunarvörur.

Vakin var athygli stjórnar á því að frétt birtist í Fréttablaðinu varðandi einnota hjúkrunarvörur. Sjúklingar geta nú einungis fengið eina gerð af þvagleggjum. Þetta gæti valdið einstaklingum skaða, því það þola ekki allir sömu gerð og er Grensásdeild mjög afdráttarlaus í því að fólk hafi val.

 

b) Nýtt sjúkrahótel.

Þann 12. desember var samráðshóp byggingarfélags Nýs Landspítala boðið í skoðunarferð í nýja sjúkrahótelið, en 4. janúar 2019 mun byggingafélagið afhenda húsið. Allar ábendingar sem samráðshópurinn kom með í byrjun virðast hafa komist í gegn, þannig að húsið er vel til þess fallið að nýtast fólki með skerðingar. Aðstöðubreytingin verður mjög mikil fyrir fólk sem kemur utan af landi sem sækja þarf læknisþjónustu.

 

c) Kaffihús Orange.

Sagt var frá því að Orange rekur kaffihús ásamt fleiru og boðið verður upp á ókeypis mat á aðfangadag. Fólk þarf að hringja og skrá sig.

 

d) Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks.

Bréf barst frá bæjarstjórn Garðabæjar varðandi skipun í samráðshóp um málefni fatlaðs fólks. Hópurinn verður skipaður 20. desember og mun ÖBÍ fá 2 fulltrúa. Samþykkt var að fela málefnahópum ÖBÍ að finna fulltrúa sem búa í Garðabæ og eru fatlaðir.

 

e) Samráðshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu.

Því var komið á framfæri að þeir 4 milljarðar sem gert var ráð fyrir að færu aukalega í málaflokkinn samkvæmt fjárlögum 2019 verði settir beint inn í grunnlífeyri. Upphæðin hefur verið lækkuð um 1,1 milljarð og var ákveðið að reikna út hvað það þýðir miðað við þá 2,9 milljarða sem eftir eru.

Drög frá faghóp um starfsgetumat eiga að koma í kringum 19. desember. Rætt var um viðbrögð ÖBÍ þegar skýrsludrögin liggja fyrir. Ekkert hefur komið fram sem gerir það að verkum að hægt sé að samþykkja nýtt kerfi sem byggir á starfsgetumati. Fundir hafa verið haldnir með formönnum ASÍ og Eflingar. Þeir munu kynna kröfugerðir sínar í skattamálum fljótlega fyrir ÖBÍ og rætt verður um aðkomu ÖBÍ inn í þeirra kröfugerð.

Samþykkt var að formaður og þeir sem unnið hafa að málinu fái umboð til að bregðast við ef þarf fyrir hönd ÖBÍ í jólafríinu.

Fundi var slitið kl. 18:58.

Fundarritarar,

Þórný Björk Jakobsdóttir og Dóra Ingvadóttir.