Fundargerð 6. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 21. febrúar 2019

Fundargerð 6. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 21. febrúar 2019, kl. 16:00 - 19:00 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:05. Samþykkt var að færa dagskrárliði til vegna gesta sem koma á fundinn og halda kynningar.

2.   Fundargerð frá 24. janúar 2019.

Fundargerðin var send út í tölvupósti. Engar athugasemdir bárust og því var hún samþykkt.

3.   Auglýsingaherferð ÖBÍ. Fulltrúar frá auglýsingastofunni Brandenburg kynna.

Þrír fulltrúar frá auglýsingastofunni Brandenburg kynntu hugmyndir að auglýsinga-herferð ÖBÍ árið 2019. Verkefnið snýst um að fá almenning til að sýna þörfum fatlaðs fólks skilning, að vekja fólk til umhugsunar um hvort gert sé ráð fyrir fötluðu fólki í samfélaginu og að bæta ímynd fatlaðs fólks og viðhorf gagnvart því.

Umræður voru um hugmyndirnar og kom sú hugmynd fram að á 60 ára afmælisári ÖBÍ 2021 verði áfram unnið með þær en breyta þeim yfir í valdeflingu fatlaðs fólks. Samþykkt var að semja við Brandenburg.

4.   Stofnframlög til Brynju hússjóðs 2018. Afgreiðsla Íbúðalánasjóðs.

Brynja hússjóður sótti um stofnframlög Íbúðalánasjóðs til kaupa á húsnæði og byggingu á 135 íbúðum fyrir fatlað fólk. Nokkur sveitarfélög voru viljug til samstarfs en þrátt fyrir það var öllum umsóknum Brynju hafnað. Helsta ástæða höfnunarinnar var að umsóknir voru langt umfram það fjármagn sem var til skiptanna og sérstök áhersla var lögð á nýbyggingar. Brynja og fleiri aðildarfélög bandalagsins hafa markað sér þá stefnu að búa ekki til „öryrkjablokkir“ heldur að kaupa íbúðir víðs vegar um land með blöndun í huga. Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður telur að reglugerðin mismuni.

Brynja á um það bil 800 íbúðir en nú eru 600 manns á biðlista þannig að mikil vöntun er á húsnæði og augljóst að stór hópur öryrkja er á almennum leigumarkaði eða á erfitt með að halda eigin húsnæði. Það er ljóst að Íbúðalánasjóður og stjórnvöld þurfa að breyta sínum áherslum til að taka á húsnæðisskorti fyrir fatlað fólk. Brynja hefur mótmælt ferlinu í bréfi til Íbúðalánasjóðs og verður lögð fram formleg kæra. Íbúðalánasjóður hefur miðað við að byggðar séu 60 fm íbúðir fyrir einstaklinga, en sú stærð er of lítil fyrir fatlað fólk. Það er því ljóst að þær umsóknir sem samþykktar voru verða ekki aðgengilegar fötluðu fólki.

Samþykkt var að fela formanni og varaformanni að gera athugasemd við reglugerðina og mótmæla í nafni ÖBÍ því að umsóknum Brynju var hafnað.

Fram kom að fundur verður haldinn með verkalýðsleiðtogum ASÍ, BHM, BSRB og Kennarasambandinu 22. febrúar. Einnig verður haldinn fundur með félagsmálaráð-herra. Halda þarf málþing um húsnæðismál sem fyrst.

5.   Tillögur að breytingum á skattkerfinu. Indriði H. Þorláksson kynnir skýrslu sem hann og Stefán Ólafsson unnu fyrir Eflingu.

Indriði H. Þorláksson kynnti skýrslu sem hann og Stefán Ólafsson unnu fyrir Eflingu og fór inn í kröfugerð ASÍ í skattamálum. Í skýrslunni er forsendum og rökum fyrir nauðsynjum á breytingum á skattkerfinu komið á framfæri og gerðar ítarlegar tillögur um sanngjarna dreifingu skattkerfisins. Indriði fór yfir þau meginatriði sem skipta máli við lestur skýrslunnar: 1. Skattbyrðin og dreifing hennar, 2. Ástæður breyttrar skattbyrði, 3. Forsendur og markmið breytinganna og 4. Breytingatillögur.

Skýrslan byggir á einföldum tölulegum staðreyndum úr skattagögnum, þ.e. hversu mikið fólk greiðir í skatt miðað við tekjur og breytingin sem orðið hefur í tímans rás. Einnig voru notaðar samanburðartölur alþjóðastofnana, hvernig þróunin hefur verið almennt og í tímaflæði. Þær tölur sýna að þróunin er önnur á Íslandi en annars staðar. Einnig voru neysluskattar, tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur skoðaðir. Þróunin er sú að stærri hluti tekna fer í að borga skatta en jafnframt er skattlagning hárra tekna á Íslandi minni en á hinum Norðurlöndunum og víðar í Vestur Evrópu.

Virðisaukaskattur leggst þyngra á tekjulága en tekjuháa vegna þess að tekjulágt fólk eyðir stærri hluta tekna sinna í nauðsynjar sem bera virðisaukaskatt en þeirra sem eru tekjuháir. Stór hluti af tekjum auðugra fer í að byggja upp eignir eða til nota erlendis þar sem ekki er greiddur virðisaukaskattur.

Laga þarf ójöfnuð í skattlagningu því tekjugrunnur hefur bjagast. Hlutfall tekna sem kemur í gegnum fjármagn er mun hærra en launatekjur og skattbyrði í neðstu þrepunum hefur aukist. Skattar eru endurgjald fyrir að lifa í siðuðu samfélagi. Þeir eru ekki refsing, heldur greiðsla fyrir þjónustu.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að ekkert svigrúm væri til lækkunar á skatttekjum. Markmið tillagnanna er að skerða ekki tekjur hins opinbera, hafa sanngjarnari dreifingu skattbyrði, auka stíganda tekjuskatta, jafna skatta á vinnu og fjármagn og loka skattasniðgönguleiðum. Í dag greiða þeir enga skatta sem höndla með fjármagn. Auka þarf skattlagninu á stóreignafólk og ofurtekjur. Gert er ráð fyrir að barnabætur verði hækkaðar og vaxtabætur og húsaleigubætur verði endurreistar.

Tillögurnar ganga út á það að eðlilegir skattar séu greiddir af öllum tekjum upp að 600.000 kr., hvort sem fólk höndlar með fjármagn eða starfar á öðrum vettvangi. Allt umfram það er hægt að reikna sem fjármagnstekjur. Einnig er lagt til að skattleggja miklar eignir, því þær byggja almennt ekki á tekjum sem hafa verið skattlagðar. Eðlilegt er að fólk eigi íbúðarhúsnæði, sumarhús og einkabíl, en að allt umfram það verði skattlagt.

Lagt er til að lögð verði á auðlindagjöld, hvort sem það eru veiðigjöld í sjávarútvegi, uppboð aflaheimilda, gjald á orku til stóriðju, auðlindagjald á aðstöðu til fiskeldis, námavinnslu eða önnur nýting á náttúruauðlindum. Einnig er lagt til að athuga með aðstöðugjöld í ferðaþjónustu. Efla þarf skattaeftirlit og skattrannsóknir. Hefja þarf eftirlit með stórfyrirtækjum og erlendum samskiptum, en slíkt hefur aldrei verið gert.

Samþykkt var að formaður og varaformaður fengju umboð til að útbúa ályktun um málið.

6.   Búsetuskerðingar hjá TR. Viðbrögð ÖBÍ.

Álit umboðsmanns um búsetuskerðingar hjá TR kom fram í júní ásamt staðfestingu velferðarráðuneytisins. ÖBÍ óskaði eftir því að TR myndi greiða bætur 10 ár aftur í tímann með vöxtum og vaxtavöxtum en það hefur ekki verið samþykkt. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sagt að ekkert sé því til fyrirstöðu að TR borgi fólki það sem því ber og hefur TR fengið leyfi til að greiða fólki 4 ár aftur í tímann en hins vegar hefur ekkert gerst. Í ljós hefur komið að ólíklegt sé að endurgreitt verði í byrjun mars mánaðar. Drög að ályktun um málið var lesin upp.

Tryggja þarf að sú leiðrétting sem fólk fær verði undanþegin skerðingum. Samþykkt var að skrifstofu ÖBÍ verði falið að klára ályktunina og að ekki þurfi að senda lokaeintak til stjórnar til samþykktar.

7.   Bréf.

a) Bréf frá landlækni dags. 5. febrúar varðandi samráðsvettvang um heilsu-eflandi samfélag og heimsmarkmiðin. Tilnefning fulltrúa ÖBÍ.

Bréf barst frá landlækni og var málefnahópur um heilbrigðismál beðinn um að tilnefna fulltrúa í samráðsvettvanginn. Tillaga hópsins er:

Aðalmaður:   Stefanía Kristinsdóttir, SÍBS.

Varamaður:   Stefán Vilbergsson, starfsmaður málefnahóps um heilbrigðismál.

b) Bréf frá Ás styrktarfélagi, dags. 17. janúar, um persónuverndarfulltrúa vegna nýrra persónuverndarlaga.

Ákveðið var að taka málið fyrir á næsta stjórnarfundi.

8.   Skýrsla formanns.

Skýrslan var send til fulltrúa fyrir fundinn.

9.   Starfsáætlanir málefnahópa ÖBÍ.

Starfsáætlanir málefnahópa ÖBÍ voru sendar til stjórnar til kynningar á starfsemi hópanna. Dagsetningar sem tengjast málefnahópunum verða færðar inn á fundaráætlun 2019, sem er aftast í starfsáætlun ÖBÍ 2019.

8.   Önnur mál.

Ekkert var rætt undir þessum lið.

Fundi var slitið kl. 19:00.

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.