Fundargerð 7. fundar stjórnar ÖBÍ mánudaginn 11. mars 2019

Fundargerð 7. fundar stjórnar ÖBÍ mánudaginn 11. mars 2019, kl. 16:00 - 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

 

 1.    Setning fundar. Formaður setti fund kl. 16:06.

 2.    Fundargerð frá 21. febrúar 2019.

Fundargerðin var send út í tölvupósti. Fundargerðin var samþykkt með áorðnum breytingum.

 3.    Skýrsla samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Viðbrögð ÖBÍ.

Þuríður kynnti skýrslu með tillögum samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Faghópur um mótun og innleiðingu starfsgetumats hefur kynnt tillögur að nýju kerfi. Hlutverk samráðshópsins um breytt framfærslukerfi er að koma með tillögur að nýju greiðslukerfi sem styður við markmið starfsgetumatsins. Starfshópurinn hefur starfað frá því í enda maí 2018 og er niðurstaða komin. Hægt er að koma með tillögur að breytingum fyrir kl. 16 þriðjudaginn 12. mars. Ýmsir þættir sem fulltrúar ÖBÍ hafa lagt áherslu á er að finna í skýrslunni. Skýrslan er hvorki frumvarp né lög, hún er afrakstur vinnu hópsins og þess sem samráðshópurinn kom sér saman um. Mörgum mikilvægum þáttum er enn ósvarað eins og hvernig aðkoma lífeyrissjóða verði, hvenær króna á móti krónu skerðing verði afnumin, hvaða upphæðir verða varðandi skerðingar og ýmislegt fleira.

 

Starfshópurinn kom ekki með tillögu að upphæðum þar sem ekki náðist samstaða í hópnum. Tillögur hópsins lúta fyrst og fremst að kerfisbreytingum og uppbyggingu nýs kerfis. Gert er ráð fyrir að nýtt framfærslukerfi skiptist í fjóra meginþætti:
sjúkra, endurhæfinga-, virkni- og örorkugreiðslur. Fjárhæðir bótaflokka verði þær sömu og til viðbótar komi heimilis- og aldurstengd uppbót eins og er í dag. Samráðshópurinn bendir á að bilið milli þeirra sem búa einir og þeirra sem búa með öðrum hafi aukist á undanförnum árum. Samráðshópurinn leggur enn fremur áherslu á mikilvægi þess að þeir sem taki þátt á vinnumarkaði njóti þess með auknum tekjum. Þá leggur hópurinn til að tekin verði upp sveigjanleg hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsgetu þar sem fólk fái greiðslur frá ríkinu til viðbótar við laun frá atvinnurekanda. Þá kemur fram í skýrslunni að einstaklingar í endurhæfingu geti stundað nám sem hluta af endurhæfingu sem var eitt af áherslumálum ÖBÍ.

 

Tillögurnar krefjast breytinga á almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð. Á sama tíma þarf að breyta lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða með samhæfingu kerfa í huga. Á það bæði við um mat á starfsgetu og greiðslur vegna skertrar starfsgetu.

 

Í kafla 3.2 í skýrslunni „Innleiðing og eftirfylgni“ er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) tilgreindur. Þuríður mun fara fram á að í fyrsta kafla skýrslunnar „Helstu tillögur og áhersluþættir“ standi eftirfarandi setningar: „Mjög mikilvægt er að SRFF sé grundvallarplagg þannig að öll vinna er lúti að breyttu framfærslukerfi almannatrygginga verði til samræmis honum. Þá er mikilvægt að tryggja það að fólk lendi ekki í greiðslufalli né á milli kerfa og að hægt sé að kæra úrskurði til opinberra aðila.“

 

Skýrslan á eftir að taka einhverjum breytingum en ekki stórvægilegum. Hún mun bæta við athugasemdum við skýrslu nefndarinnar á morgun til samræmis við álit stjórnar. Hún kallaði eftir áliti stjórnar um hvort hún ætti að skrifa undir skýrsluna og skila inn séráliti, sem hún kynnti drög að.

 

Umræður: Margir álitu að ÖBÍ ætti ekki að skrifa undir þar sem mörgum spurningum væri enn ósvarað. Ekkert er fast í hendi eins og hvenær eigi að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Í þessu starfi er ekki hugað að fjölskyldum með börn á framfæri og sem dæmi kemur ekkert fram um það hvort að barnalífeyrir verði áfram í nýju kerfi. Vandamálið er ekki hvernig fólk er metið til örorku heldur hvernig greitt er úr kerfinu og eru skerðingarnar miklar. Kerfi Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna tala illa saman hvað varðar örorkumatið sjálft og greiðslur úr þeim kerfum. Ríkisstjórnin þarf að sýna vilja í verki til að bæta kerfið, draga úr skerðingum, leiðrétta kjör og finna leiðir til að auka tækifæri fatlaðs fólks.

 

Tillaga um að skrifa ekki undir skýrsluna var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða.

 

       Lagt var til að formanni og varaformanni verði falið að setja niður á blað af hverju formaður skrifi ekki undir skýrsluna. Samþykkt samhljóða.

 

4.    Bréf frá Ás styrktarfélagi, dags. 17. janúar, um persónuverndarfulltrúa vegna nýrra persónuverndarlaga.

       Bréf barst frá Ás styrktarfélagi sem kynnt var á síðasta stjórnarfundi. Bréfið fjallar um persónuverndarfulltrúa sbr. nýrri persónuverndarlöggjöf sem tók gildi 15. júlí 2018. Leitað var til ÖBÍ um að gera samning við bandalagið um kaup á þjónustu persónuverndarfulltrúa.

      

       Umræður: Starfsemi aðildarfélaga ÖBÍ er ólík og þurfa ekki öll félög að hafa aðgang að persónuverndarfulltrúa samkvæmt nýjum lögum. Menn voru sammála um að ÖBÍ ætti ekki að taka slíkt hlutverk að sér heldur einbeita sér að hagsmuna-baráttu. Niðurstaðan var sú að þau félög sem vilja geti sameinast um persónu-verndarfulltrúa með því að leita til utanaðkomandi aðila án aðkomu ÖBÍ.

      

5.    Nefndir sem þarf að skipa í á árinu. Listi lagður fram og ákveðið hvaða leiðir verði farnar í hverju tilviki fyrir sig.

Framkvæmdaráð tók málið fyrir og lagði til eftirfarandi fulltrúa ÖBÍ:

 

List án landamæra

Aðafulltrúi: Rósa Ragnarsdóttir, varafulltrúi: Guðríður Ólafs- Ólafíudóttir.

Samþykkt samhljóða.

 

Öldrunarráð, fulltrúar á aðalfundi.

Aðalfulltrúi: Kolbrún Stefánsdóttir, varafulltrúi: Erna Arngrímsdóttir.

Samþykkt samhljóða.

 

Almannaheill, fulltrúar á aðalfundi.

Fulltrúar: Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Halldór Sævar Guðbergsson, Dóra Ingvadóttir, Sigríður Fossberg Thorlacius, Frímann Sigurnýason og Sævar Pálsson. Framkvæmdaráði var falið að setja upp röð aðal- og varafulltrúa samkvæmt listanum. Samþykkt samhljóða.

 

Almannarómur, til eins árs.

Aðalfulltrúi: Rósa María Hjörvar, varafulltrúi: Ingólfur Már Magnússon.

Samþykkt samhljóða.

 

Málræktarsjóður, til eins árs.

Aðalfulltrúi: Rósa María Hjörvar, varafulltrúi: Dóra Ingvadóttir.

Samþykkt.

 

Hringsjá, náms- og starfsendurhæfing

Lagt var til að frá og með næstu áramótum verði fimm manns í stjórn. Framkvæmdaráði verði falið að ganga frá skipun þeirra. Samþykkt.

 

Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur

Fulltrúar: Guðríður Ólafs- Ólafíudóttir, Eva Þórdís Ebenezerdóttir og Björg S. Blöndal. Samþykkt.

 

Íslensk getspá, til eins árs.

Aðalfulltrúar: Bergur Þorri Benjamínsson og Þóra Margrét Þórarinsdóttir.

Varafulltrúar: Lilja Þorgeirsdóttir og Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Samþykkt.

 

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, til þriggja ára.

Lagt var til að kalla eftir tilnefningum frá aðildarfélögum, málefnahópum og stjórn ÖBÍ. Stjórn tekur síðan ákvörðun. Samþykkt.

 

TMF, Tölvumiðstöð, til eins árs.

Aðalfulltrúi: Rúnar Björn Herra Þorkelsson, varafulltrúi: Sævar Guðjónsson.

Samþykkt.

 

6.    Næsti fundur.

Næsti fundur verður fimmtudaginn 11. apríl.

 

7.    Önnur mál.

a)  Elva Dögg sagði frá uppistandi sem hópur sem hún er í, ásamt fleirum með alls konar raskanir, stendur fyrir á fimmtudagskvöldum kl. 21 á Secret Celler, beint á móti MR. Aðgangur er ókeypis en því miður er aðgengi ekki gott.

b)  Þuríður sagði frá Ungmennaþingi ÖBÍ sem var haldið laugardaginn 9.mars og var mjög vel heppnað. Hún minnti líka á málþing ÖBÍ um kjaramál þriðjudaginn 19. mars.

c)  Þuríður minntist látins félaga Magnúsar Þorgrímssonar,  varafulltrúa í stjórn ÖBÍ, sem var jarðsunginn fimmtudaginn 7. mars.

 

Fundi var slitið kl. 18.44.

 

Fundarritarar,

Lilja Þorgeirsdóttir og Dóra Ingvadóttir.