Skip to main content
Umsögn

393. mál. Þungunarrof. 23.1.2019

By 23. júlí 2019No Comments

Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík

                       Reykjavík 23. janúar 2019

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um þungunarrof, 393.mál.
ÖBÍ fagnar heildarendurskoðun laga nr.25/1975 enda hefur samfélagið breyst frá árinu 1975 þegar lögin voru sett. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna sem og aðgangur að góðri heilbrigðisþjónustu er afar mikilvægur. Hins vegar verður að skoða þau viðmið til þungunarrofs sem sett eru fram í frumvarpinu með augum fatlaðs fólks, mannréttinda og virðingar.
 

Síðustu ár og áratugi hefur gríðarleg hugarfarsbreyting átt sér stað gagnvart fötlun og fötluðu fólki. Áður fyrr var fatlað fólk jaðarsett, jafnvel talið óeðlilegt og óæskilegt. Hugarfarsbreytingin hefur verið í þá átt að fatlað fólk sé viðurkenndur hluti af samfélaginu. Eitt samfélag, sem viðurkennir fjölbreytileika fólks er það sem stefnt er að og þangað munum við komast.

Í 8. grein frumvarpsins segir að öll fræðsla og ráðgjöf í tengslum við þungunarrof skuli veitt á óhlutdrægan hátt og byggja á gagnreyndri þekkingu með virðingu fyrir mannréttindum og með mannlega reisn að leiðarljósi. ÖBÍ tekur undir mikilvægi þess að einstaklingar geti tekið vel upplýstar ákvarðanir byggðar á réttum og víðtækum upplýsingum. Til þess að svo megi vera verður öll útgáfa kynningarefnis að vera með sem vönduðumst hætti. Tenging við líf fólks með skerðingar er mikilvæg til þess að ákvörðun verði raunverulega upplýst. Koma verður á tengiliðum á milli sjúkrastofnana og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks sem viðkomandi einstaklingar geta leitað til eftir frekari upplýsingum. Afar brýnt er að vel verði staðið að þessari ráðgjöf. Upplýsingar mega ekki vera einhliða, þar sem versta mögulega útkoma er útlistuð. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar greinst hefur skerðing hjá fóstri. Mikilvægt er að verðandi foreldrar verði upplýstir um þá aðstoð sem er í boði fyrir fatlað fólk og hver réttur þess er. Því er hér lagt til að í lögunum verði bætt við reglugerðarheimild sem kveður á um þær skyldur sem lagðar eru á þá sem standa að slíkri ráðgjöf og fræðslu. Verði staðið að slíkum reglugerðum er þörf á því að haft verði náið samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks. Í reglugerðarheimildinni verði einnig kveðið á um að reglugerðir með slíkri stoð skulu ekki settar nema að fenginni umsögn hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.

ÖBÍ fordæmir þá tillögu að heimild til að rjúfa þungun verði rýmkuð fram að lokum 22. viku ef ástæður eru aðrar en að lífi konu væri stefnt í hættu eða fóstur teljist ekki lífvænlegt. Með lífvænleika í þessu samhengi er átt við að fóstur muni annaðhvort deyja í móðurkviði fyrir lok meðgöngu eða stuttu eftir fæðingu. 

Í greinagerð með frumvarpinu segir að með hliðsjón af Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé orðalag fyrri laga um hvenær sé réttlætanlegt að heimila þungunarrof á grundvelli fötlunar tekið út úr nýju frumvarpi. Fram kemur í greinagerðinni að þau þungunarrof sem hafa verið gerð eftir 20 vikur á árunum 2011-2016 hafi öll verið af alvarlegum læknisfræðilegum ástæðum. Þrátt fyrir að orðalagið sé horfið úr frumvarpinu má ætla að hugmyndafræðin sé óbreytt, rjúfa skal þungun ef fötlun greinist hjá fóstrum. Þær tillögur að rýmka heimildir til þungunarrofs fram yfir 20 vikna fósturskimun eru augljóslega ætlaðar til þess að hægt sé að bregðast við þeim frávikum sem þar kynnu að greinast og eru aðför að rétti fatlaðs fólks til lífs.

Í greinagerð með frumvarpinu er vísað í nefndina sem vann að heildarendurskoðun laga nr. 25/1975, „mikilvægt væri að Ísland sýndi umheiminum að konur hér á landi nytu virðingar, ákvörðun þeirra um þungunarrof væri virt sem og sjálfsforræði þeirra og þær studdar með faglegri fræðslu og ráðgjöf sem byggist á gagnreyndri þekkingu“.

ÖBÍ leggur til að Ísland sýni umheiminum að hér á landi njóti allar manneskjur virðingar. Fjölbreytt samfélag er betra og auðugra samfélag

 
Ekkert um okkur án okkar!
 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ