Skip to main content
Umsögn

Umsögn ÖBÍ um drög að frumvarpi til laga um breytingu á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. (11. mars 2019)

By 25. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefniHeilbrigðisráðuneytið 
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík
 

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að frumvarpi til laga um breytingu á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007

Athugasemdir ÖBÍ um frumvarpið í heild
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingartillögur starfshóps, sem skipaður var af heilbrigðisráðherra, á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, til að skýra heimildir til kvörtunar til landlæknisembættisins vegna heilbrigðisþjónustu. En einnig til að skýra málsmeðferð í slíkum málum og gera einfaldari til að hún falli betur að störfum og hlutverki landlæknis, eins og kemur fram í 1. mgr. 1. gr. greinargerðar með frumvarpinu.

Við lestur frumvarpsins kemur það eitt á óvart að ráðherra hafi séð ástæðu til að setja saman starfshóp í stað þess að einfaldlega fela Embætti landlæknis að semja það. Starfshópinn skipuðu enda tveir starfsmenn embættisins, auk þess sem sérfræðingur þess var fenginn á fund og allt samráð var við sérfræðinga landlæknisembættisins um ákveðin atriði þess. Mögulega hefur það ekki talist ráðlegt sökum ákvarðanafælni embættisins sem kemur ljóslega fram í frumvarpinu og greinargerðinni með því.

Breytingartillögur á 12. gr.
Breytingar sem lagðar eru til á 12. gr. laganna vill starfshópurinn meina að sé til að skýra frekar eftirlitsskyldu landlæknisembættisins. 1. mgr. gildandi laga er svohljóðandi: „Landlækni er skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar.“
 

Þetta þykir starfshópnum óskýrt enda sé ekki hlutverk að landlæknis að taka við kvörtunum nema til að bæta gæða- og öryggisferla. Fólk hefur leitað til landlæknis til að leita réttar síns vegna meintra mistaka eða brota við gagnvart því sjálfu eða nánum aðstandendum, með það fyrir augum að fá mat eða úrskurð í einstaka málum.

Starfshópnum þykir alveg ófært að landlæknir sé settur í þá stöðu. Brotaþolar eigi einfaldlega að höfða mál fyrir dómstólum ef kvartanir séu hugsaðar til annars en að leggja embættinu lið við kerfisbætur. Hins vegar geti embættið „eftir atvikum lagt mat sitt á atvik máls ef þess er óskað til dæmis af ríkislögmanni“.[1] Vel er boðið. Fólk sem á um sárt að binda eftir mistök eða vanrækslu mun hugsa hlýlega til landlæknis ef hann eftir atvikum fellst á að verða við tilmælum eftir að búið er að fara í gegnum allt kerfið til að setja hann í þá stöðu.

Mistök eða vanræksla í heilbrigðisþjónustu geta haft mjög alvarlegar langvarandi eða varanlegar afleiðingar. Það er með engum hætti forsvaranlegt að setja þolendur eða aðstandendur í þá stöðu að verða að sækja rétt sinn gengum dómstóla.

Berlega kemur fram að Embætti landlæknis svíður í augum hversu íþyngjandi það er fyrir starfsfólk að vinna úr kvörtunum og kærum, sem sagt er að sé vaxandi þáttur í starfsemi þess. Þó styðja tölur alls ekki þá fullyrðingu. Kvartanir hafa verið á bilinu 104-122 undanfarin ár. Hugsanlega fylgir mikið álag 10 kvörtunum á mánuði mikið, en að öllum líkindum er kvartað í fæstum tilvikum. Í stað þess að færa sig undan að taka við kvörtunum ætti embættið og ráðuneytið e.t.v. að skoða betur hvað liggur að baki.

Stoðir heilbrigðiskerfisins hafa veikst mikið á undanförnum 20 árum og það hefur að miklu leyti verið borið uppi af duglegu og ósérhlífnu starfsfólki, sem vinnur langa daga. Við slíkar aðstæður gerast mistökin.

Samráðsleysi
Það er skylda stjórnvalda að viðhafa virkt samráð við samtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, allt frá fyrstu stigum, enda segir í 3. mgr. 4. gr. SRFF:
 
Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Ekki hefur verið leitað eftir áliti eða óskað eftir samráði við ÖBÍ við gerð stefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum.

Tekið er undir með umsögn Sjálfsbjargar lsb. um stefnuna, umsögn #10.

Ekki er boðlegt að stefna í almenningssamgöngum horfi framhjá fötluðu fólki eins og gert er í þessum drögum og stjórnvöld hunsi áfram skyldur sínar.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ 

[1] 2. mgr., 2. gr. greinargerðar