Málþing Kvennahreyfingar ÖBÍ

03apr
Dagsetning: 3. apríl kl. 13:00-17:00 Staðsetning: Grand Hótel Reykjavík

Dagskrá

  • Fundarstjóri opnar málþingið. Steinunn Þóra Árnadóttir fyrrum stýrihópskona Kvennahreyfingar ÖBÍ og núverandi alþingismaður.
  • Ávarp formanns. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ.
  • Hvers vegna eru konur nefndar sérstaklega í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks? Dr Lucy-Ann Buckley, dósent í lögfræði við NUI Galway (National University of Ireland).
  • Eru hefðbundnar skilgreiningar á ofbeldi útilokandi fyrir fatlaðar konur? Freyja Haraldsdóttir, aðjúnkt og doktorsnemi.
  • Kaffihlé.
  • Aðgengi fatlaðra kvenna að Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og kvennadeild Landspítalans. Guðrún Ósk Maríasdóttir og Margrét Lilja Arnheiðardóttir frá aðgengisátaki ÖBÍ.
  • „Þú ert erfið kona“: Um árekstra í samskiptum kvensjúklinga og lækna. Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi. 
  • Saga konu sem hefur reynt fyrir sér sem öryrki á vinnumarkaði. Herianty Novita Seiler.
  • Pallborð. Fyrirspurnir úr sal.
  • Samantekt.

Aðgangur ókeypis! Öll velkomin!

Rit- og táknmálstúlkar verða á staðnum. Málþinginu verður streymt á heimasíðu ÖBÍ og verður aðgengilegt eftir þingið. 

Upplýsingar

Staða fatlaðra kvenna í heiminum er ekki sú sama og fatlaðra karla, ekki frekar en staða kynjanna tveggja almennt. Í erindi Dr Lucy-Ann Buckley mun hún útskýra þá stöðu, þegar hún svara spurningunni um hvers vegna konur eru nefndar sérstaklega í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Dr Lucy-Ann Buckley er dósent í lögfræði við National University of Ireland, Galway, þar sem hún starfar við „Center for Disability Law and Policy“. Dr Buckley sérhæfir sig í jafnréttislögum, einkum samtvinnun vinnu-, jafnréttis- og fjölskylduréttar. Skrif hennar þar sem hún fjallar um kynjajafnrétti í fjölskyldu- og vinnurétti, þ.m.t. samtvinnun mismununar á grundvelli kyns og fötlunar á vinnumarkaði, hafa birst víða. Í væntanlegum skrifum beinir hún sjónum að alþjóðlegri nálgun á viðeigandi aðlögun í lögum um bann við mismunun. Dr Buckley er meðlimur í „Berkeley Comparative Equality and Anti-Discrimination Study Group“, þar sem hún er meðlimur í vinnuhópum um kynferðislega áreitni og um réttindi fatlaðs fólks. Í núverandi vinnu hennar fyrir þann hóp, leggur hún áherslu á áhrif #MeToo hreyfingarinnar á fatlaðar konur. Dr Buckley er virkur þátttakandi í alþjóðlegri stefnumótun. Á undanförnum árum hefur hún unnið að sameiginlegri yfirlýsingu Joint Statement Towards Inclusive Social Protection Systems Supporting the Full and Effective Participation of Persons With Disabilities (2019), sem þróuð var af Alþjóðavinnumálastofnuninni í samráði við hagsmunaaðila. Hún starfar nú sem sérfræðingur og ráðgjafi ríkja Guernsey í tengslum við þróun nýrrar víðtækrar jafnréttislöggjafar.

Í erindi sínu mun Freyja Haraldsdóttir fjalla um útilokun fatlaðra kvenna frá umræðu og framkvæmd í tengslum við kynbundið ofbeldi. Einnig hvernig hefðbundnar skilgreiningar á ofbeldi ná oft ekki utan um reynslu fatlaðra kvenna sem litast af ableísku kynjakerfi sem heldur þeim niðri. Að lokum mun Freyja varpa ljósi á andóf og mótspyrnu fatlaðra kvenna hér á landi og í alþjóðlegu ljósi, valdið í þögninni og þátttöku þeirra í að vinna að friðsamara samfélagi. Freyja mun byggja erindi sitt á þeim rannsóknum sem hún hefur komið að innan háskólasamfélagsins og reynslu sinni af feminískum fötlunaraktivisma.

Sögur um neikvæð samskipti kvensjúklinga við lækna koma reglulega fram jafnt á samfélagsmiðlum, í greinum, viðtölum og ævisögum en höfundar þeirra eiga það sameiginlegt að hafa upplifað misrétti vegna kyns síns. Í fyrirlestri Guðrúnar Steinþórsdóttur verður fjallað um hvernig komið er á mismunandi hátt fram við konur og karla í heilbrigðiskerfinu, rætt um hugsanlegar ástæður þess og afleiðingar og hvernig bókmenntafræði getur kannski gagnast til að betrumbæta samskiptin í framtíðinni.

Við eigum öll að hafa sama aðgang að samfélaginu en fatlað fólk rekst óvíða á hindranir. Fyrsta verkefni nýs aðgengisátaks ÖBÍ snýr að fötluðum konum en tekið var út aðgengi á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og á kvennadeild Landspítalans.

Herianty Novita Seiler er kona sem hefur verið öryrki á íslenskum vinnumarkaði. Hún segir frá reynslu sinni og bendir meðal annars á að það vantar sveigjanleika og framboð af hlutastörfum á vinnumarkaðinn.

Merki kvennahreyfingar ÖBÍ