Skip to main content
FréttTR

Álit umboðsmanns Alþingis: Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála ekki í samræmi við lög

By 21. júní 2022september 26th, 2022No Comments
Umboðsmaður Alþingis hefur gefið út álit í þremur málum sem Öryrkjabandalagið vísaði til hans. Málin voru öll svipaðs eðlis, að Tryggingastofnun hafi upphaflega hafnað örorkumati, eða metið undir 75%, og síðar samþykkt 75% mat. Einstaklingarnir sem um ræðir, leituðu til Öryrkjabandalagsins, sem aðstoðaði þá við vinnslu málsins.

Í öllum þessum málum taldi félagsráðgjafi ÖBÍ að niðurstaða TR hefði í upphafi verið röng, og vísaði til raka þess efnis í erindi til stofnunarinnar, þar sem farið var fram á að málin yrðu tekin upp að nýju, enda ljóst að upphafleg ákvörðun hafi verið röng. Tryggingastofnun hafnaði endurupptöku. Í kjölfarið var kært til úrskurðarnefndar velferðarmála

Úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu í öllum málunum að ekki væri um „veigamiklar ástæður“ að ræða, eins og stjórnsýslu lög kveða á um sem skilyrði endurupptöku, hafi meira en eitt ár liðið frá stjórnvaldsákvörðun. Að auki væru þau réttindi sem um ræddi, fyrnd, eða að mestu fyrnd.

Umboðsmaður segir í áliti sínu að þau eigi sér það sammerkt að einstaklingarnir allir sóttu um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, en upphaflega verið synjað af TR, en talin eiga rétt á örorkulífeyri síðar á grundvelli nýrra umsókna.

Í framhaldi af því hafi þau óskað endurskoðunar fyrri ákvarðana stofnunarinnar, þar sem mat hennar hafi verið rangt miðað við þau gögn sem lágu fyrir. Auk þess var beiðnin studd gögnum sem ekki lágu fyrir við upphaflegu ákvörðunina.

Umboðsmaður benti á að leggja yrði til grundvallar að beiðnir þeirra hefðu meðal annars grundvallast á því að þau teldu sig eiga rétt á að stofnunin fjallaði á ný um mál þeirra, með vísan til ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar um endurupptöku. Úrskurðarnefndin hefði hins vegar hvergi vikið að þessum reglum og ekki yrði séð að nefndin hefði að þessu leyti lagt fullnægjandi mat á beiðnirnar og úrskurðir hennar því ekki reistir á viðhlítandi lagagrundvelli að því leyti.

Jafnframt taldi umboðsmaður að þau sjónarmið sem lægju að baki veigamikilla ástæðna, í skilningi stjórnsýslulaga, færu að hluta saman við mat á því hvort skilyrði væru til endurupptöku á grundvelli ólögfestra reglna. Úrskurðarnefndin hefði takmarkað mat sitt við að hugsanlegar kröfur væru að mestu leyti fyrndar, og málin hefðu ekki fordæmisgildi eða snertu mikilsverða hagsmuni kærenda, þrátt fyrir að með rökum hefðu verið leiddar líkur að því að upphafleg ákvörðun hafi verið röng.

Umboðsmaður bendir á að þó það samræmdist ekki almennt sjónarmiðum um réttarvernd borgaranna að líta svo á að aðili hefði ekki hagsmuni af endurupptöku þegar hugsanleg krafa hans væri að hluta fyrnd.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefnd velferðarmála tæki mál einstaklinganna til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá þeim, og leysti þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu.

Álit umboðsmanns má lesa í heild sinni hér.