Skip to main content
Frétt

BSRB kallar eftir hækkun örorkulífeyris samhliða atvinnuleysisbótum

By 7. september 2020No Comments
„Öryrkjar eru hópur sem þar stendur sérstaklega höllum fæti og býr við gallað kerfi. Þarna eru hópar sem eru í miklu meiri hættu en aðrir að lenda í fátækt,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í Silfrinu í gær, sunnudag. Rætt var við Sigríði Ingibjörgu og Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í Silfrinu.

Atvinnuleysi hefur aukist mikið eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og hefur verkalýðsforystan hvatt stjórnvöld til að hækka atvinnuleysisbætur. Sigríður Ingbjörg bendir á að margir séu enn á tekjutengdum bótum en að þeir sem eru komnir á grunnbætur fái 289.000 krónur á mánuði fyrir skatt, sem sé 45.000 krónum lægra en lágmarkslaun. „Þetta er rosalega lágt og það er ekki forsvaranlegt annað en að hækka þetta.“

Þá segir Sigríður Ingibjörg að bætur almannatrygginga hafi ekki hækkað eðlilega um áramót og að af því hafi BSRB áhyggjur.„Öryrkjar eru hópur sem þar stendur sérstaklega höllum fæti og býr við gallað kerfi. Þarna eru hópar sem eru í miklu meiri hættu en aðrir að lenda í fátækt.“

Í vor skrifuðu Öryrkjabandalagið, ASÍ, BSRB, BHM og KÍ undir yfirlýsingu þess efnis að verkalýðsfélögin myndu leggjast á árarnar með ÖBÍ. Þessi afstaða og áhersla BSRB er ánægjuleg birtingarmynd þeirrar yfirlýsingar. 

 

Hér má horfa á viðtalið í heild sinni. Viðtalið við þær stöllur hefst þegar 46 mínútur eru liðnar af þættinum.