Skip to main content
Frétt

Endurreikningur TR liggur fyrir

By 21. júní 2017No Comments

Tryggingastofnun hefur lokið endurreikningi á tekjutengdum greiðslum ársins 2016 hjá lífeyrisþegum. Hægt er að skoða niðurstöður endurreiknings á Mínum síðum á vef TR. Einnig er hægt að óska eftir að fá endurreikning sendan í bréfpósti.

Miðast endurreikningurinn við tekjuupplýsingar í staðfestum skattframtölum fólks og hefur það verið borið saman við það sem lífeyrisþegar fengu greitt á síðasta ári. Í endurreikningnum kemur fram hvort lífeyrisþegi hafi ofgreitt eða vangreitt.

Fram kemur í frétt á vef TR að samtals hafi verið endurreiknað fyrir 57 þúsund lífeyrisþega sem fengu greiddar 86,5 milljarða króna í tekjutengdar greiðslur í fyrra. Þar af voru 21 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar.

Niðurstaða endurreikningsins er að 43% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur árið 2016 eiga inneign hjá TR upp á samtals 2 milljarða króna. Þá hafi 44% fengið ofgreitt, samtals 3,4 milljarða króna. Meðalupphæð inneigna lífeyrisþega sé 84 þúsund krónur en meðalskuld þeirra sem hafi fengið ofgreitt samkvæmt endurreikningi TR sé 135 þúsund krónur.

Telji lífeyrisþegi að endurreikningur sé ekki réttur er hægt að andmæla honum, rökstyðja þau andmæli og senda gögn því til stuðnings. Hægt er að gera það í gegnum Mínar síður á vef TR undir hnappnum „Erindi til TR“ eða á þar tilgerðum eyðublaði sem hægt er að nálgast á vef TR og senda ásamt fylgigögnum. Frestur til að andmæla niðurstöðu endurreiknings greiðslna ársins 2016 er til og með 21. ágúst 2017.

Frestur til að kæra niðurstöðu endurreiknings til Úrskurðarnefndar velferðarmála er þrír mánuðir frá móttöku bréfsins.

Nánari upplýsingar um endurreikning og uppgjör má nálgast á vef TR eða í síma 560-4400 (TR).